Mamma veit best

Mamma veit best

Kannski var María vinkona eða systir móður brúðarinnar eða brúðgumans. Alla vega finnst henni miður þegar vínið klárast og tekur á sig ábyrgð á heiðri gestgjafanna. Og henni finnst að sonur hennar, Jesús, eigi að gera eitthvað í málinu.

Flutt 14. janúar 2018 í Grensáskirkju

„Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera,“ segir mamma Jesú við þjónana í brúðkaupsveislunni í Kana (Jóh. 2.1-11). Veislan sú hefði getað orðið alveg misheppnuð af því að vínið kláraðist. Á þeim tíma stóðu slíkar veislur yfir í heila viku og nóg þurfti því að vera til. Við sem höfum verið í hlutverki gestgjafa eigum auðvelt með að skilja hvað það er vandræðalegt þegar veitingarnar eru búnar áður en veislunni lýkur. „Muniði“, hefði fólk sagt næstu árin því fólk man svona nokkuð, „muniði þegar vínið kláraðist í Kana?“

Venjulegt fólk að halda hátíð
Þarna gefur Jóhannes guðspjallamaður okkur mynd úr lífi venjulegs fólks sem heldur hátíð. Það er eitthvað sem við tengjum öll við. Brúðkaup eru hátíð tengsla og gleði, jafnvel þegar og þar sem hjónabönd eru ákveðin af foreldrum brúðhjónanna eins og kannski hefur verið í þessu tilviki. Ein fjölskylda tengist annarri og unga fólkið, ef við gefum okkur að þetta hafi verið dæmigert brúðkaup, veitir von um vöxt og endurnýjun kynslóðanna.

Meðal gesta í þessari tilteknu veislu voru Jesús, móðir hans og lærisveinar. Við vitum ekkert um tengsl þeirra við brúðhjónin eða fjölskyldur þeirra en líklegast hefur verið um náinn skyldleika eða vináttu að ræða. Kannski var María vinkona eða systir móður brúðarinnar eða brúðgumans. Alla vega finnst henni miður þegar vínið klárast og tekur á sig ábyrgð á heiðri gestgjafanna. Og henni finnst að sonur hennar, Jesús, eigi að gera eitthvað í málinu.

Mamman
María er reyndar aldrei nefnd með nafni í Jóhannesarguðspjalli, ólíkt Jósef, en tvisvar er talað um Jesú frá Nasaret sem son Jósefs (1.45 og 6.42). Til dæmis segja kvartandi beturvitar (í sjötta kaflanum þar sem Jesús talar um sig sem brauð lífsins, brauð Guðs sem stígur niður af himni): „Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Við þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt að hann sé stiginn niður af himni?“

Í raun kemur móðir Jesú bara fyrir hér í fyrsta tákninu sem Jesús gerði og síðan í lokin, við krossinn þegar Jesús biður hana um að taka lærisveininn sem hann elskaði (sem gæti hafa verið Jóhannes guðspjallamaður sjálfur) sem sinn eigin son og hún skyldi vera móðir hans (Jóh. 19.25-27). Þannig umlykur nærvera mömmunnar Jesú frá upphafi þjónustu hans og allt til enda.

Hún þekkti sinn dreng
Auðvitað þekkti María sinn eigin dreng og vissi hvers hann var megnugur. Þó ekkert sé vitað um líf Jesú eftir 12 ára aldur (samanber frásögu Lúkasar 2.41-52) hefur það ekki farið fram hjá henni, sem annaðist barnið sitt eins og mæður gera þegar allt er með felldu, að hann var alveg sérstaklega sérstakur. Okkur foreldrum finnst að sjálfsögðu að okkar börn séu engum lík og alveg einstök. En móðir Jesú hlaut að hafa vitað að Jesús gæti hjálpað í þessum veitinga-vandræðum fyrst hún bað hann um það.

Fyrst virðist Jesús hafa verið frekar pirraður. Hann segir „kona“ við mömmu sína. Það gerir hann reyndar líka við krossinn þegar hann afhendir móður sinni besta vin sinn af mikilli umhyggju. Okkur finnst kannski þetta neikvætt sem erum vön að heyra eiginmenn segja til dæmis: „Hérna, talaðu við konuna, hún veit meira um þetta mál.“ Að Jesús ávarpar mömmu sína með orðinu „kona“ hefur í raun enga þýðingu af því að það er það sem hún er.

Kominn tími til?

En það virðist ljóst að Jesús hafði ekki ætlað sér að grípa inn í þessar aðstæður. Honum fannst tíminn ekki kominn. Það er nú dálítið hressandi að vita að ekki einu sinni Jesús hafði séð allt fyrir sem á dagana drífur. Því tíminn var einmitt kominn, tími til að starfa opinberlega. Hann bara vissi það ekki. Hins vegar varð hvatning móður hans til að hann gekk inn í þessar aðstæður og gerði það sem hann sannarlega var og er fær um: Að mæta skorti fólks, að bæta úr vöntun, að gefa gnægð inn í jafnvel hversdagsleg hátíðarhöld.

Gnægð segi ég. Það var nefnilega ekkert smá magn af dýrindis vökva sem varð til í vatnskerjunum. Einhver reiknaði út að það samsvaraði um 1000 flöskum af víni. Eðalvíni, engu kassaglundri.

Gnægð
Í formála Jóhannesarguðspjalls, jólaguðspjalli Jóhannesar, segir: „Af gnægð hans höfum vér öll þegið, náð á náð ofan“ (Jóh. 1.16). Gnægð, ekkert glundur. Og við munum orð Jesú áður en hann segir okkur að hann sé góði hirðirinn: „Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fyllstu gnægð“ (Jóh. 10.10).

Frásagan af tákninu í Kana snýst ekkert sérstaklega um að það sé ekki gott að veitingar klárist í veislum áður en gestirnir hafa fengið nægju sína. Hún fjallar heldur ekki um að Jesús vilji bókstaflega gefa okkur eðalvín að drekka, þó svo að í Davíðssálminum sem við heyrðum áðan sé talað um jurtir og brauð og „vín sem gleður mannsins hjarta“ (Sálm 104.14-16).

Á dögum Jesú var vín reyndar hversdagslegur svaladrykkur en víða í Biblíunni varað við ofneyslu þess:

Vertu ekki með drykkjurútum og eða þeim sem háma í sig kjöt því að drykkjumenn og mathákar verða snauðir og víman mun klæða þig í tötra

segir til dæmis í Orðskviðum Salómons (23.20). Orð að sönnu. Hömluleysi leiðir okkur alltaf í vandræði. Og í Efesusbréfinu (5.18) segir Páll postuli:

Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum…

Að treysta
Nei, frásagan bendir á traustið til Jesú, að allt sem Jesús segir okkur, það skulum við gera. Mamma hans hvatti hann til að sýna hvað í honum bjó, líkt og við mömmurnar og pabbarnir hvetjum börnin okkar til að nýta hæfileika sína. Vertu það sem þú ert! Lifðu allt það góða sem Guð hefur lagt inn í líf þitt. Og mamma Jesú treystir honum til að sjá til þess að allt fari vel.

Sagan af tákninu í Kana sýnir hvernig Guð getur breytt ósköp hversdagslegu lífi okkar (vatni) yfir í himneska gleði (vín), líka í ofurvenjulegum aðstæðum, hér og nú. Guð gefur hugarfar gnægta inn í grámósku daganna og þá á ég ekki við jarðneskar gnægtir heldur andlega fjársjóði. Við getum líka lesið söguna sem mynd um að „the best is yet to come“; að lífið verður betra og betra þegar við dveljum í nærveru Guðs, lifum í tengslum og samfélagi við höfund lífs okkar, í faðmi föðurins himneska með Jesú.

Gróska

Þá verður mynd Gamla testamentisins (Sálm 104.14-16) af ofurvenjulegum grósku og vexti að veruleika í andlegu lífi okkar, grósku sem veitir gleði og þrótt og jafnvægi inn í daglega lífið. Höfum í huga þegar við göngum til altaris og þiggjum brauð og vín að þar mætir himinn jörð, þar fylgja andlegir leyndardómar litlu brauði og örfáum dropum af víni og eru ekki bara tákn heldur býr óútskýranlegur veruleiki að baki tákninu.

Þú lætur gras spretta handa fénaðinum
og jurtir sem maðurinn ræktar
svo að jörðin gefi af sér brauð
og vín sem gleður mannsins hjarta,
olíu sem lætur andlit hans ljóma
og brauð sem veitir honum þrótt.
Tré Drottins drekka nægju sína,
sedrustré Líbanons sem hann gróðursetti.