Fyrr í sumar kom upp umræða um hvers vegna fólk snýst til kristni eftir að það flytur til Íslands eða annars lands þar sem það leitar hælis. Jafnvel var gefið var í skyn að í flestum tilfellum væri um að ræða blekkingu til að eiga meiri möguleika á að fá landvistarleyfi.
Kristið fólk er beitt ofsóknum víða um heim og helstu samtök sem hafa yfirlit yfir slíkt tala um 60-70 ríki heims. Ofsóknirnar geta verið misjafnar á margan hátt, bæði hver stendur að baki þeim og hvaða aðferðum er beitt. Í fyrsta lagi má greina á milli beinna ofsókna yfirvalda og ofsókna samfélagsins. Í fyrra tilvikinu grípa yfirvöld til harkalegra aðgerða og þó svo uppgefin ástæða sé brot á lögum og reglum, t.d. þegar komið er saman án leyfis, þá er ljóst að aðalástæðan er ótti stjórnvalda við að fram vaxi stjórnmálaafl, í þessu tilviki oft á trúarlegum forsendum, sem ógnar stöðugleika, friði og valdastöðu þeirra sem ráða ríkjum. Norður-Kórea er ugglaust eitt augljósasta dæmið um þetta.
Í seinna tilvikinu, þar sem erfiðara er að henda reiður á ofsóknum, er það ekki yfirlýst stefna yfirvalda að gera ákveðnum hópum lífið leitt, að fangelsa eða lífláta, en engu að síður gerist það. Að baki ofsóknum standa hópar, jafnvel einstaklingar samfélagsins sem telja sig þannig verja yfirvöld, trú sína eða fjölskyldu með þeim hætti. Stjórnkerfið kemur seint til varnar. Erfitt getur verið að meta hversu öruggt er fyrir einstakling, sem t.d. hefur snúist frá íslam til kristni, að súa heim í slíkt samfélag. Ég hef hitt og rætt við einstaklinga sem hafa fengið „dauðadóm“ með yfirlýsingu fjölskyldu sinnar eða ákveðins ímams um að þeir séu réttdræpir vegna trúskipta sinna og vitnisburðar um hinn krossfesta og upprisna Jesú Krist. Um er að ræða beina hvatningu til að taka viðkomandi af lífi. Geri einhver það á hann að eiga einhver laun vís og hætt er við því í ýmsum löndum láti lögregla og dómstólar slík mál drukkna eða gleymast í öðrum verkefnu.
Trúskipti eru frá íslam til kristni eru yfirleitt alvarlegt mál í samfélögum þar sem íslam er ráðandi. Þar sem harkan er mest er það dauðasök. Annars staðar þýða trúskipti útskúfun, afneitun á að viðkomandi sé hluti fjölskyldunnar lengur. Trúskipti eru álitin vera skömm enda hefur viðkomandi gengið óvinveittum á hönd. Eitt það versta sem gerst getur er að „missa andlitið“, að skömmin verði opinber. Ekki er alltaf jafnauðvelt fyrir okkur hér á Vesturlöndum að greina þessa hugsun þar sem sumir gangaast upp í að skammast sín eða láta fólk fara hjá sér og hneykslast.
Þar sem skömm trúskipta er talin mjög alvarleg geta foreldrar gengið lengra en að útskúfa börnum sínum, þau eru myrt af einhverjum nánum úr fjölskyldunni til þess einmitt að vernda heiður fjölskyldunnar. Í samfélagi sem virðir einstaklinginn til sjálfstæðrar ákvarðanatöku getur verið erfitt að skilja þetta.
Snúum okkur svo að flóttafólki og hælisleitendum. Sumt þess er á flótta vegna kristinnar trúar sinnar. Annað er á flótta vegna stríðs, allsleysis, vanmáttar og hluti þess að flýja er að flýja hina gömlu trú sem fólkið upplifir sem harða. Sumt leitar í guðleysi, annað í önnur trúarbrögð. Það nýtir frelsið í nýjum umhverfi til að gera það sem það gat kannski aldrei, eða þorði aldrei að gera heima: Að kynna sér trúna á Jesú Krist. Að kynnast Guði sem er fullur náðar og miskunnar og elskar alla menn er þeim nýr boðskapur. Mörg dæmi eru um flóttafólk og hælisleitendur um gjörvalla Evrópu sem hefur ákveðið að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins á liðnum misserum. Skrefið er stigið án þess að nokkur sjáanlegur hagur sé þar af. Yfirleitt eru það fyrrverandi landar, kristið fólk sem varð að flýja vegna ofsókna, sem eru boðberar trúarinnar gagnvart þessum hópi.
Vel má vera að einhverjir snúist til kristni af hagkvæmisástæðum, í von um að fá frekar hæli eða landvist. En þessir einstaklingar vita vel að það er áhætta að skipta um trú ef þeir þurfa að fara aftur heim. Sú áhætta er ekki alltaf augljós okkur og auk þess erfitt að skoða hjarta og huga viðkomandi til að vita sannleikann. Hættan er víða fyrir hendi þó ekki sé snúið heim. Sumir trúskiptingar í Vestur-Evrópu hafa orðið var við njósnir og þurfa sífellt að hafa varann á sér. Aðrir sem tala um trú sína opinberlega gera það gjarnan undir dulnefni af öryggisástæðum.
Í þessu öllu er yfirvöldum sem fara með málefni útlendinga hér á landi vorkunn. Ábyrgðin er mikil með líf fólks og framtíð í lúkunum – eða skrifræðinu. Vanda þarf vinnubrögðin og reyna að sannreyna það sem sagt er að fremsta megni á .ess að það taki of langan tíma. Alltaf eru einhverjir að sækja um landvist á fölskum forsendum og sorglegt að það þurfi að bitna á öllum hinum sem ekki gera það. Stundum þarf að láta fólk njóta vafans. Trúskipti eru víða alvarlega mál. Trúarsannfæring kostar margan lífið, líklegast fleiri árið 2016 en nokkru sinni áður í sögu mannkyns. Fjöldi fólks hefur verið drepinn í Sýrlandi undanfarin misseri vegna trúar sinnar á Jesú Krist. Margt annað er á flótta. Full ástæða er til að huga að þeim hópi sérstaklega við val á svonefndum kvótaflóttamönnum til landsins.
Við hljótum að vilja veita þeim skjól sem ekkert skjól eiga lengur vegna trúar sinnar, hvort sem trúarsannfæringin er nýtilkomin eða áratuga gömul.