Sumarið er ekki bara tíminn

Sumarið er ekki bara tíminn

Sá sem er með sumar í hjartanu heldur sínu striki þótt vindar kunni að blása og éljadrífur næði.

Gleðilegt sumar, kæru skátar og aðrir kirkjugestir. Já, það er víst komið sumar loksins. Í morgun þegar ég vaknaði og dró fána við hún var sannkallað sumarveður. Við vonum að það haldist áfram þótt spáð hafi verið stormi seinna í dag. En það er ekki vetrarstormur. Nei, það er þá bara sumarstormur og við höldum okkar striki. Gleðilegt sumar!

Hvað býr í orðinu?

Já, hvað er annars sumar? Hvað býr að baki þessu orði sem fær okkur til þess að hugleiða sól, birtu og fuglasöng? Er það veðrið? Nei, ekki endilega. Við vitum það best af öllum þjóðum – við Íslendingar sem fögnum sumarkomu þegar allra veðra er von, að því fer fjarri að sól og blíða fylgi sumrinu. Sjálfur á ég minningar frá sumrum þar sem rigndi upp á hvern einasta dag, og ég stóð í pollagallanum með slátturorf og beið eftir að klukkan yrði fjögur og ég kæmist heim í bað og þurr föt. En það var engu að síður mjög skemmtilegt sumar og eftirminnilegt. Eins og raunin er með flest sumur. Við eigum margar minningar sem tengjast þeirri árstíð.

Minningar

Líklega eru flestar minningarnar tengdar sumrum. Þá brjótum við jú upp hversdaginn og gerum eitthvað óvenjulegt. Skátarnir þekkja þetta manna best, þó þeir séu líklegir til þess að halda út í óbyggðir allt árið um kring þá er sumarið auðvitað tíminn sem best er til þess fallinn. Veðráttan er sannarlega mildust og birtan mest. „Sumarið er tíminn“ söng Bubbi, já sumarið er tíminn þar sem öll litbrigði lífsins njóta sín sem best. En kannske er sumarið ekki bara tíminn. Kannske er sumarið einmitt fyrst og fremst ákveðið hugarfar. Sá sem er með sumar í hjartanu heldur sínu striki þótt vindar kunni að blása og éljadrífur næði.

Já, er ekki sumarið ákveðin afstaða sem við tökum til lífsins? Er ekki sumarið eins og stefnuskrá þar sem því er lýst yfir að lífinu eigi að lifa í gleði og þakklæti til þess sem gefur okkur allt það sem gott er og verðmætt? Eða eins og segir í textanum sem skátarnir lásu hér áðan:

Þú lést lindir spretta upp í dölunum, þær streyma milli fjallanna, þær svala öllum dýrum merkurinnar,

Þarna er góðum Guði þakkað fyrir allt það góða sem hann lætur vaxa og gróa og nærast. Fyrir þetta vill skáldið þakka.

Sumarið er afstaða

Já, sumarið er tíminn sem nú er gengið í garð en sá tími felur í sér margt gott og dýrmætt sem fylgir okkur yfir í önnur tímabil ársins. Það er sú afstaða að taka lífinu sem fagurri gjöf, að mæta gjöfum Guðs í þakklæti og auðmýkt. Að horfa með raunsæjum augum á verkefnin sem mæta okkur en hafa um leið sanna von í hjartanu um að okkur takist að leysa þau með sóma. Rétt eins og textinn í guðspjalli dagsins minnir okkur á. Þar fengu tíu manns lækningu meina sinna. Allir gengu þeir í gegnum sömu reynsluna, sömu hreinsunina. Áður höfðu þeir verið útskúfaðir frá mannlegu samfélagi vegna kaunanna sem líkami þeirra var alsettur. En boðskapur sögunnar er ekki að Kristur hafi læknað þá og boðið þeim nýtt líf – eins og hann gerir á hverjum degi við ótal marga. Nei, boðskapurinn er sá hvernig þeir tóku við gjöfinni sem þeim var færð. Flestir sýndu þeir skeytingarleysi og héldu för sinni áfram. Einn þeirra, útlendingurinn, sneri hins vegar við og þakkaði. Og hann er sá sem valdi góðu leiðina samkvæmt Kristi.

Boðskapur í byrjun sumars

Og þetta er boðskapur kirkjunnar til okkar á sumardeginum fyrsta. Við tökum á móti gjöfum Guðs í þakklæti. Já, það er engin tilviljun að þessi tvö samfélög skuli setja svo sterkan svip á hátíðarhöldin í tilefni sumarkomu. Kirkjan og skátarnir byggja á háleitum hugsjónum um það hvernig við getum lifað góðu lífi og uppskorið vel úr því sem við til sáum. Og Baden Powell fór ekki í launkofa með það að skátastarfið, hjálpsemin, náttúruverndin og öll sú mannrækt sem því fylgir var í hans huga kristinn boðskapur í sinni hreinustu mynd. Hann var eitt sinn spurður að því hvernig kristin trú kæmi inn í skátastarfið og hann svaraði því til að hún kæmi alls ekki inn í það því hún væri þar með frá upphafi. Það gerir fólki kleift að ná markmiðum sínum og tilgangi og það beinir sjónum þess stöðugt að þörf náungans.

Og nú er við göngum inn í sumartíð – mitt á tímum þegar óvissan er mikil í samfélaginu og margir eru óttaslegnir – skulum við hugleiða boðskap Krists þar sem hann minnir okkur á að horfa með réttum augum á gjafir Guðs og þakka fyrir þær. Þökkum fyrir það sem við eigum kæru vinir og deilum því með öðrum. Þá margfaldast gjafir okkar.

Amen.