Hann skríður hér um gólfin litli maðurinn, sem senn mun halda upp á eins árs afmælið. Hann veit ekki að lífið er margbreytilegt, þar sem skiptast á gleði og sorgir, hversdagar og hátíðisdagar. Hann veit ekki að hann á góða foreldra og stórfjölskyldu sem elska hann og hann veit ekki heldur að heimsins gæðum er misskipt. Hann veit ekki að sumar mömmur fara til Boston til að versla fyrir jólin og aðrar standa í biðröð til að ná í matarpokann með góðgætinu fyrir hátíðina. Hann veit ekki að sumir pabbar eru í skóla og enn aðrir í vinnu eða eru atvinnulausir og hafa áhyggjur af framtíð sinni og fjölskyldunnar og að úti í hinum stóra heimi býr fólk við ógnir stríðs og hungurs og ofbeldis hvern einasta dag.
Smám saman mun þessi litli maður kynnast því að lífið á sér margar hliðar. Að sumt er leyfilegt en ekki gagnlegt og sumt bannað og hættulegt. Og síðar verður hann kannski faðir sem hefur áhyggjur af börnum sínum. Faðir sem þarf að taka á honum stóra sínum til að minnast þess að hver manneskja ber ábyrgð á lífi sínu og gerðum. Og þó hann vilji allt fyrir börnin sín gera þá má ekki taka frá þeim ábyrgðina. Og hann mun læra, meðal annars vegna þess að hann er skírður í Jesú nafni, að það er líka annar faðir sem vakir yfir börnum sínum, en tekur samt aldrei frá þeim ábyrgðina. Hann mun læra að sleppa tökunum á því sem hann ekki ræður við og fela allt þeim Guði er hann var helgaður.
Og nú þegar jólin nálgast finnum við hversu dýrmætt er að eiga fjölskyldu og vini. Eiga möguleika á að njóta samvista við allt það góða fólk sem við höfum kynnst. Og um leið hugsa til allra þeirra sem lifa í einsemd, sem sakna og syrgja, sem kvíða og þjást. Megi þau öll um síðir sjá það ljós er lýsir dimma veröld og treysta því að allt muni vel fara.
Sr. Matthías, sem lifði bæði gleði og sorgir þessa heims kunni að orða það sem máli skiptir, t.d. í þessu sálmversi:
Ó, ljóssins faðir, lof sé þér, að líf og heilsu gafstu mér og föður minn og móður. Nú sest ég upp, því sólin skín, þú sendir ljós þitt inn til mín. :,: Ó, hvað þú, Guð, ert góður! :,: