Fréttir og fordómar

Fréttir og fordómar

Í kvöldfréttum Stöðvar tvö 18. september s.l. fjallaði fréttamaðurinn Róbert Marshall um ákæru á hendur sóknarpresti vegna líkamsásar. Á eftir fylgir „fréttaskýring” sem byrjar á orðunum „Þeir praktísera ekki allir það sem þeir predika og þá kannski sérstaklega það að rétta hinn vangann“.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
03. október 2002

Í kvöldfréttum Stöðvar tvö 18. september s.l. fjallaði fréttamaðurinn Róbert Marshall um ákæru á hendur sóknarpresti vegna líkamsásar. Á eftir fylgir „fréttaskýring” sem byrjar á orðunum „Þeir praktísera ekki allir það sem þeir predika og þá kannski sérstaklega það að rétta hinn vangann“. Síðan seilist fréttamaðurinn ein tíu ár aftur í tímann og tekur dæmi um presta sem hafa gert sig seka um slíkt athæfi að hans mati, nafngreinir þá og birtir af þeim myndir.

Kynning fréttaþular á sjálfri fréttinni ýjar einnig að þessum siðferðisbresti prestastéttarinnar þegar hann segir: „Þó virðist friðarboðskapur kirkjunnar hafi ekki náð til allra þjóna hennar“.

Þessi samsuða af frétt og fordómum þykir mér og mörgum fleirum, hvorki sæmandi fréttamanninum né fréttastofu Stöðvar tvö. Er dómur fallinn í málinu?

Fagleg fréttamennska

Það er eðlilegt að fjalla um mál sóknarprests sem sætir opinberri ákæru fyrir líkamsmeiðingar. Vissulega skaðar það orðstír hans og ímynd þeirrar stofnunar sem hann vinnur fyrir, jafnvel þótt sýknaður yrði, en svo verður einfaldlega að vera. Það á ekkert að hlífa prestum frekar en öðrum við fréttum af meintum brotum þeirra. Bókin góða leynir ekki breyskleikum þeirra manna sem hrundu af stað þeirri heimshreyfingu sem kristnin er. Ástæðan er einföld, samkvæmt kristinni trú eru allir menn breyskir og ber að horfast í augu við eigin bresti og prestar eru þar ekkert undanþegnir. Aftur á móti er þar líka talað um merkilegt hugtak sem heitir náð og er náskylt hugtökum eins og náðun og fyrirgefning.

Þó skal áréttað (þó að fréttamaðurinn tali hvergi berlega um það) að frekari kröfur ber að gera til þeirra sem valið hafa að þjóna í kirkjunni en til margra annarra stétta. Þeir bera ábyrgð gagnvart köllun sinni og ábyrgð gagnvart almenningi. Prestar eru opinberar persónur og það er skylda fréttastofa að upplýsa almenning um mál er þá snerta þegar þannig bregður við. Í umfjöllun um fjölmiðlasiðferði hefur þekktur fræðimaður James Curran vakið máls á því hlutverki fjölmiðla að fjalla um opinbert siðferði og líkir því við hlutverk sem kirkjan gegndi áður. Annar fræðimaður Þorbjörn Broddason prófessor í fjölmiðlafræði við H.Í.hefur rætt um að fréttamenn taki á sig „prestlegar skyldur“ í þannig tilvikum. Því virðist nokkur skyldleiki vera á milli starfa prests og fréttamanns, a.m.k. í þessi tilliti.

Það er heldur ekkert óeðlilegt að fréttamenn hafi einstöku sinnum fréttaskýringar þar sem þeir reyna að skyggnast dýpra en fréttir dagsins leyfa. Spyrja um orsakir, afleiðingar og leitast við að setja hlutina í samhengi. Fréttamaðurinn á Stöð tvö hefði gert vel ef hann hefði skoðað úr faglegri fjarlægð þær siðareglur og siðferðisskyldur sem prestsstarfið leggur mönnum á herðar, hvað séu eðlilegar siðferðiskröfur almennings á hendur prestum og hvað óeðlilegar. Það hefði verið gagnlegt að skoða hver viðurlög væru þegar prestar bregðast með einhverjum hætti skyldum sínum og spyrja hvort þeir sem stétt séu óeðlilega varðir t.d. af starfsmannalögum eða æviráðningu (sem hann reyndar minnist á).

Ég hefði fagnað slíkri vandaðri umfjöllun. Það er ljóst (og fréttamaðurinn gerði sér reyndar far um að rifja það upp) að með jöfnu millibili koma upp ýmisleg starfsmannavandamál þar sem prestar eiga í hlut eins og hjá öllum stéttum. Fjölmiðlaumfjöllun getur í vissum tilvikum hjálpað til við að finna lausn í slíkum málum - ef hún er yfirveguð.

...og fordómar

Því miður kýs fréttamaðurinn aðra leið og auðveldari. Hann opnar skjóðu eigin fordóma gagnvart heilli stétt karla og kvenna. Hann finnur okkur prestana ansi léttvæga, það léttvæga að það leyfist að tala niður til okkar með háði.

Í sjálfu sér hef ég ekkert við það að athuga að fréttamenn eða aðrir láti í ljós skoðun sína á prestum á réttum vettvangi. Hins vegar geri ég sem gamall blaða- og fréttamaður og áhugamaður á fjölmiðlasiðferði að auki, þá kröfu til fréttamanna að þeir séu hlutlægir í fréttaflutningi, a.m.k. geri sér grein fyrir eigin fordómum. Fréttamaðurinn var búinn að segja fréttina í tveimur setningum, - af hverju þurfti að að opinbera eigin fordóma í heilum ellefu setningum? Hvað er fréttnæmt við það að rifja upp gömul mál, næstum tíu ár aftur í tímann? Fréttamaðurinn kemur ekki með neinar nýjar upplýsingar, hann reynir heldur ekkert að kafa dýpra. Og af hverju bara prestar? Eru ekki fleiri stéttir í landinu sem eiga að vinna í almannaþágu og bera miklar siðferðilegar skyldur?

Og er ekki hræsni fólgin í því að ræða um heila stétt fólks í háðstón? Er fréttamaðurinn með því að hefja sig í eitthvert æðra veldi? Á kannski að afsaka hann fyrir æsku sakir? Þegar ég var í blaðamennsku í gamla daga vorum við ungu blaðamennirnir ekkert skárri. Við töldum okkur siðferðilega æðri en gömlu kerfiskallarnir og okkur þótti gaman að reyna að „grilla“ þá.

„Frétt“ sína endar fréttamaðurinn með siðalærdóm sem er nú reyndar gömul tugga: „Prestar eru mannlegir og sumir mannlegri en aðrir“. Þetta er álíka gáfuleg fullyrðing og ef ég segði : „Allir fréttamenn eru breyskir og fréttamaðurinn á Stöð tvö er breyskari en aðrir“.

Það er mikilvægt starf og merkilegt að vera ábyrgur og gagn-rýnin fréttamaður. Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið allt, þar með talið okkur presta. Þess vegna gerum við líka þá kröfu til fréttamanna að þeir geri mun á fréttaflutningi og eigin fordómum.