Gosi er ekki dáinn

Gosi er ekki dáinn

Saga Gosa er sagan mín og sagan þín. Og hún er saga upprisunnar, hinnar yfirnáttúrulegu snertingar Guðs, sem birtist á sviðinu í líki bláklæddu Óskadísarinnar. Snerting hennar gefur Gosa lífið, raunverulegt líf, sem laun þess að hann fórnaði spýtulífinu sínu fyrir ástina til pabba.

Gosi er ekki dáinn, sagði dísin, og þú Jakob, þú átt allt gott skilið. En spýtustrákurinn Gosi er ekki lengur til. Og hún sveiflaði töfrasprotanum sínum yfir Gosa og í því fór hann aftur að hreyfa sig.

Rístu upp, Gosi Jakobsson, sagði dísin, og Gosi reis upp. En nú var hann ekki lengur úr tré, heldur var hann orðinn alvöru drengur.

Mér líður eins og það sé ljós í maganum á mér, sagði Gosi. Það er bjart og hlýtt og það lýsir upp í höfuð og út í handleggi og niður í fótleggi og það er – það er svo gott! Það er svo ofsalega gott!

Það er gleði, Gosi, sagði dísin þá. Það er þessi sanna gleði.

Úr leikritinu um Gosa, texti eftir Karl Ágúst Úlfsson, byggt á sögu Carlo Collodi.

Ég er í hópi þeirra 20 þúsund manns sem séð hafa leiksýninguna Gosa í Borgarleikhúsinu. Eins og alþjóð veit er sagan um Gosa dæmisaga. Hún er þroskasaga ungmennis í leit að sjálfu sér. Hvað skiptir máli í lífinu? er spurt. Er það frægð, skjótfenginn gróði eða að seðja fíknina, hver sem hún kann að vera? Eða er tilgangur lífsins að þroskast að visku og vexti og finna gleðina flæða, gleði upprisulífsins?

Gosi tapar sjálfum sér um stund þegar hann stendur frammi fyrir því vali að taka sérleyfisferðina með sölumanni dauðans til Allsnægtalands eða halda heim á leið, heim til pabba. Á leiðinni lærir hann á tilfinningar sínar, lærir að vera reiður, dapur og vonsvikinn með sjálfan sig, hræddur og sorgmæddur, með samviskuna Tuma engisprettu sér til halds og trausts. Hann tekst líka á við afleiðingar lyginnar sem birtast í hinni frægu neflengingu og lærir að allt kemst aftur í lag þegar maður sér eftir mistökunum og nær að hlæja svolítið að sjálfum sér.

Saga Gosa er sagan mín og sagan þín. Og hún er saga upprisunnar, hinnar yfirnáttúrulegu snertingar Guðs, sem birtist á sviðinu í líki bláklæddu Óskadísarinnar. Snerting hennar gefur Gosa lífið, raunverulegt líf, sem laun þess að hann fórnaði spýtulífinu sínu fyrir ástina til pabba. Andsvar Gosa er gleðin, gleðin sem svellur fram í brjóstinu, björt og hlý og upplýsandi, þessi sanna gleði. Það er svo ofsalega gott! og gaman að vera til á gleðidögum, þátttakandi í upprisu hinnar sönnu mennsku.