Það var ekki góð byrjun á hinu nýja ári að vera vakin upp þann 2. janúar með þær fréttir að Krýsuvíkurkirkja væri brunnin til grunna, líklega eftir íkveikju. Upp kom í hugan mynd af þessu litla varnarlausa Guðshúsi þar sem það kúrði við þjóðveginn, útvörður kristninnar við hið ysta haf.
Í 153 ár hefur kirkjan staðið þarna við veginn, fyrst sem sóknarkirkja en síðan sem andlegt athvarf ferðamanna eftir að fólkið fluttist burt. Hundruðir þúsunda hafa lagt leið sína í kirkjuna, átt þar bænastund með Guði sínum, notið kyrrðar og íhugunar. Þarna var sannarlega heilög jörð. Og kirkjan var öllum opin, bauð heim gestum og gangandi í hógværð og kærleika, en líka í trausti þess að engum dytti í hug að rjúfa friðhelgi hennar.En það átti ekki að verða.Nú er kirkjan að engu orðin. Griðin rofin. Ekkert eftir nema svartar brunarústir. Svöðusár því allt er brunnið upp til agna.
Á vissan hátt endurspeglar kirkjan litla og varnarlausa sem kveikt var í samfélagið okkar í dag – eins og kirkjan hefur reyndar gert um aldir. Brunarústir Krýsuvíkurkirkju og þau grið sem þar voru rofin eru táknmyndir brunarústa samtíma okkar og þeirra griða sem rofin hafa verið í íslensku þjóðfélagi.Já, þetta var slæmur morgun 2. janúar síðastliðinn.
En þennan morgun gerðist líkakraftaverk.Um leið og spurðist út hvað gerst hafði byrjaði síminn að hringja og tölvupóstar að berast úr öllum áttum. Fjölmargir höfðu samband, sumir sem vildu endurbyggja Krýsuvíkurkirkju, aðir til að sýna samstöðu og samhug og enn aðrir til að hvetja kirkjuna til dáða í brunarústum samtíma okkar.
Þessar raddir hafa farið vaxandi og þeim hefur farið fjölgandi.Og þannig hefur þessi litla kirkja, Krýsuvíkurkirkja enn orðið okkur vegvísir eins og hún hefur verið vegfarendum um Krýsuvík í 153 ár.
Við ætlum ekki að láta rústirnar standa auðar.
Við ætlum okkur að endurbyggja kirkjuna.
Og það í Jesú nafni.
Á sama hátt og samfélagið okkar. Við ætlum okkur að endurbyggja það.
Og einnig í jesú nafni.
Við gefumst ekki upp.
Við látum ekki bugast.
Við rísum úr brunarústunum.
Og við reisum úr brunarústunum.
Full djörfungar.
Í Jesú nafni áfram enn með ári nýju, kristnir menn, það nafn um árs- og ævispor sé æðsta gleði' og blessun vor.