Gleðitímabil og bæn

Gleðitímabil og bæn

Í dag er gleðitími. Er við hlýðum á guðsþjónustur í útvarpi eða göngum til kirkju tökum eftir því að lestrar úr Biblíunni breytast eftir svokölluðu kirkjuári. Það byggir á þremur hátíðum, jólum, páskum og hvítasunnu. Fyrir jól og páska taka lestrar mið af undirbúingi fæðingar frelsarans og dauða og upprisu Krists. Eftir þessar hátíðir er svo gleðitímabil. Við erum nú mitt í slíku gleðitímabili eftir jólin.
Mynd

Útvarpsguðsþjónusta 3. febrúar 2019 Breiðholtskirkju

 Gleðitímabil og bæn

 Í dag er gleðitími. Er við hlýðum á guðsþjónustur í útvarpi eða göngum til kirkju tökum eftir því að lestrar úr Biblíunni breytast eftir svokölluðu kirkjuári. Það byggir á þremur hátíðum, jólum, páskum og hvítasunnu. Fyrir jól og páska taka lestrar mið af undirbúingi fæðingar frelsarans og dauða og upprisu Krists. Eftir þessar hátíðir er svo gleðitímabil. Við erum nú mitt í slíku gleðitímabili eftir jólin.

 Sunnudagarnir eftir jól og þrettánda varpa á einn eða annan hátt ljósi á dýrð og vald Jesú Krists.

Á þrettándanum heyrðum við um vitringana, sem leita konungsins nýfædda til að veita honum lotningu. Þeir eru fulltrúar alls mannkyns, allra þjóða, sem eiga að fá hlutdeild í hinum miklu tíðindum. Konungur allra þjóða er fæddur.

 Jesús 12 ára týnist, en finst er foreldrar hans hafa leitað hans lengi, og er þá að hlusta á fræðimenn og ræða við þá í musterinu. Hinn ungi drengur veit að Guð er faðir hans og að hann er í húsi himnesks föður síns.

 Þegar við heyrum frásögnina af Jesú breyta vatni í vín í brúkaupi, lyftist brúnin á mörgum, því það er svo notalegt og mikilvægt að heyra um Guð sem er með okkur í daglegu lífi. Kraftaverkið í brúðkaupinu í Kana er einmitt til að leggja áherslu á, að með Jesú kemur Guð til okkar og þykir vænt um daglegt vafstur venjulegs fólks. Jesús opinberar dýrð sína með fyrsta kraftaverkinu.

 Á þriðja sunnudegi eftir þrettánda segir frá því hvernig Jesús læknar þá sem koma til hans og trúa á hann. Bæði líkþrár maður og rómverskur hundraðshöfðingi. Jesús segir: Ég vil, og það verður. Orð hans læknar og snerting hans læknar.

 Þrettánda sunnudögum lýkur með því að lýsa ummyndun Jesú þar sem klæði hans verða skínandi björt og rödd af himni heyrist segja: „Þessi er minn elskaði sonur. Hlýðið á hann." Ekki fer á milli mála, að þar eru skilaboðin skýr. Útlit hans og það sem gerist bendir til þess að hann er ekki mannlegur. Jesús Kristur er frá Guði kominn. Dýrð Guðs og máttur skína af ásjónu hans og klæðum. Það var ekki fyr en eftir upprisuna sem lærisveinarnir gerðu sér grein fyrir dýptinni í sigri Jesú Krists yfir dauðanum.

 Jesús biður

 Við heyrðum í guðspjalli dagsins, sem er fjórði sunnudagur eftir þrettánda og bænadagur að vetri, hvernig Jesús sendi lærisveina sína eina af stað í bátnum. Hann þarf hvíld og frið eftir erfiða daga. Hann hafði ætlað að taka sér hvíld, en fjöldi fólks streymdi til hans. Það þráði að heyra hann prédika og kenna um himnaríki. Það endaði með því að hann mettaði fimm þúsundir með fimm brauðum og tveim fiskum. Fyrst þá gat hann gengið til fjalls að biðjast fyrir.

Við skynjum í frásögninni hve djúp þörf Jesú er, að geta fengið næði til að biðja og eiga samfélag við Föður sinn á himnum.

 Eitt sinn er lærisveinarnir fundu hann að morgni þar sem hann var á bæn, báðu þeir hann að kenna sér að biðja. Þá kenndi hann þeim Faðir vor. Sú bæn er fyrirmynd annarra bæna okkar kristinna manna. Í henni felast leiðbeiningar um hvers biðja ber og hvernig við getum orðað bænir okkar. Við mælum eins og hann hefur kennt okkur og byggjum bænir okkar á orðum hans. Jesús var þeim bæði fyrirmynd og meistari.

Þess vegna biðjum við sem börn okkar himneska föður. Við komum fram fyrir hann í einlægni hjartans. Það er honum þóknanlegt.

Og þrátt fyrir að við skynjum að við erum óverðug, megum við koma til hans upplitsdjörf, vegna Jesú, dauða hans og upprisu og okkar eigin skírnar.

Í kirkjum landsins eru víða bænastundir þar sem beðið er fyrir einstaklingum og fjölskyldum. Í Breiðholtskirkju er bænastund í hádeginu hvern miðvikudag árið um kring. Þar kemur hópur fólks saman og biður fyrir þeim bænarefnum sem hafa borist. Við biðjum í trausti þess að Guð heyri bænir. Við trúum því að hann styrki, lækni og blessi, allt eftir vilja sínum.

Eða eins og sr. Hallgrímur Pétursson kveður:

 Bænin má aldrei bresta þig,


búin er freisting ýmislig.

Þá líf og sál er lúð og þjáð,
lykill er hún að Drottins náð.

 Það er ég, verið óhræddir

 Í lífi okkar skiptast á skin og skúrir. Það má því stundum líkja lífi okkar við samfundi lærisveinanna og Jesú, þar sem hann kemur gangandi á vatninu. Það er mótvindur og öldurót. Lærisveinarnir voru vissir um að það væri vofa og urðu skelkaðir. Hann hughreysti þá með orðunum: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“ Lærisveinarnir urðu rólegir er þeir heyrðu huggunarorðin. Þeir þekktu frelsara sinn um leið og hann mælti: "Það er ég."  Kveðja hans gaf þeim hugarró og von.

 Jesús var að styrkja trú lærisveina sinna og sýna þeim mátt sinn. Sýna þeim, að hann væri með þeim í storminum, hafrótinu og mótblæstrinum. Þó þeim fyndist þeir vera einir, þá væri hann alltaf hjá þeim, liti til með þeim og fylgdist með þeim. Hann kom til þeirra gangandi á vatninu, utan og ofan við þau lögmál, sem venjulegir menn lúta. Þannig er Jesús. Þannig er Guð. Hann kemur til okkar hverjar sem kringumstæðurnar eru.

 Trú er að treysta því, að hinn þríeini Guð sé nálægur, þó svo okkur finnist hann fjarri. Lærisveinarnir þurftu að berjast í veðrinu. Jesús leysti þá ekki frá erfiðinu og mótbyrnum í þetta sinn. Þannig er það oftast í lífinu. Við þurfum að erfiða, vinna, læra að takast á við allt það sem lífið ber í skauti sér. Jesús lítur til með okkur, er nærri, en bjargar okkur ekki úr kringumstæðum. Hann lætur erfiðleikana eða sjúkdómana ekki alltaf hverfa umsvifalaust. En hann hjálpar okkur í glímunni og styrkir okkur baráttunni við þá.

 Við erum kölluð til að styðja hvert annað og standa með hvert öðru í lífinu. Gullna reglan, um að gjöra öðrum það sem við viljum að okkur sé gjört, og tvöfalda kærleiksboð Krists um að elska Guð og náungann, styrkir okkur í að gera öðrum gott.

 Þau sem hafa lært æðruleysisbænina og nýta sér hana vita hve sönn hún er:

„Guð, gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt, og vit til aðgreina þar á milli." Hún leiðir okkur í jafnvægislist sáttar og kjarks, friðar og baráttu.

 „Drottinn, bjarga þú mér!“

Í dag heyrum við hvernig Pétur, sem oft var framhleypinn, spyr Jesú hvort hann megi koma til hans: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“

Jesús svaraði: „Kom þú!“

Símon Pétur gekk nokkur skref á vatninu, en varð hræddur og tók þá að sökkva. Ef til vill var hann að freista Guðs með bíræfni sinni. En Jesús var ekki á því, heldur bauð honum að koma til sín.

 Jesús er Drottinn sköpunarinnar. Orð hans hafa sama mátt og orð Guðs. Hann býður og það verður sem hann skipar. Það heyrum við er hann kyrrir vind og sjó, reisir lamaða, gefur blindum sjónina. Það er boðskapur guðspjallsins. Orðið sem skapaði himin og jörð er maðurinn Jesús, sem gengur á vatni. Jóhannes orðar það svo: "og Orðið var hjá guði. Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu til fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er." „Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum." (Jóh. 1:1,2,14)

 Við fáum einnig skilaboð um að trú Péturs var alls ekki eins sterk og hann taldi sjálfur. Þannig er það oft í lífinu. Trúin getur gefið eftir, látið undan, en Kristur aldrei. „Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?““ Hver var þá tilgangurinn með því að leyfa Pétri að fara úr bátnum og ganga á vatninu? Jesús leyfði Pétri að reyna og prófa kraftaverk, reyna á trú sína. Þarna var tækifæri sem Pétur fékk. Hann nýtti það, en átti ekki næga trú. Við megum vera viss um að viðhorf hans til Péturs eigi einnig við okkur systkin hans. Hlýja og kærleikur Jesú, einnig þegar okkur mistekst, er grundvallaratriði. Við megum gera mistök, efast eða eiga litla trú. Jesús dæmir ekki. Hann grípur í hönd okkar og fer með okkur þangað sem förinni er heitið.

 Í stormviðrum lífsins tekur Kristur í hönd okkar er við biðjum: „Drottinn, bjarga þú mér!“ 

Hér sjáum við stórkostlega mynd af því, hvernig trúin á Krist, bjargar, styrkir og kemur mönnum á réttan kjöl. Af því eigum við fjölda dæma. Best eru dæmin um þau sem lenda í klóm áfengis eða eiturlyfja og rétta við aftur með hjálp heilbrigðisþjónustunnar, SÁÁ og trúarinnar á æðri mátt. Andlegt ferðalag í 12 sporum nýtist öllum, sem þurfa að glíma við einhvers konar erfiðleika í lífinu.  

 Við eigum einnig önnur dæmi um fólk sem leitar skjóls á Íslandi eftir langt og strangt ferðalag í leit að betri framtíð. Flóttamenn og hælisleitendur koma úr mismunandi aðstæðum, og hvert og eitt þeirra á sér sína sögu. Sum koma úr erfiðum kringumstæðum vegna stríðsástands heima fyrir. Önnur geta ekki snúið aftur heim, vegna þess að þau hafa orðið kristin. Það er alvara málsins. Við erum þakklát fyrir þau sem fá dvalarleyfi hér á landi og við getum stutt til nýs og betra lífs. Við tökum undir bæn þeirra og viljum styðja þau er þau biðja: „Drottinn, bjarga þú mér!“ 

Jesús Kristur tekur í hönd þess sem til hans leitar og biður um hjálp. Bænin þarf ekki að vera löng eða flókin, heldur stutt og frá hjartanu: “Drottinn, hjálpa þú?” eða eins og bæn Péturs: „Drottinn, bjarga þú mér.”

 Er Símon Pétur og Jesús stigu upp í bátinn lægði. Lífið er ekki einfalt, en þegar gerir skúra hlé og stund á milli stríða er rétt að krjúpa og viðurkenna að Guð er Guð. Veita honum lotningu og lofa hann.

Mín sál, því örugg sértu,
og set á Guð þitt traust.
Hann man þig, vís þess vertu,
og verndar efalaust.
Hann mun þig miskunn krýna.
Þú mæðist litla hríð.
Þér innan skamms mun skína
úr skýjum sólin blíð.

 Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 Guðspjall: Matt 14.22-33

Tafarlaust knúði Jesús lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum því að vindur var á móti.
En er langt var liðið nætur kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu varð þeim bilt við. Þeir sögðu: „Þetta er vofa,“ og æptu af hræðslu.
En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“
Pétur svaraði honum: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“
Jesús svaraði: „Kom þú!“ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: „Drottinn, bjarga þú mér!“
Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“
Þeir stigu í bátinn og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru féllu fram fyrir honum og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“