Litrík uppskera

Litrík uppskera

Útlegging hins unga skálds, Óttars Norðfjörð á guðspjalli Jóhannesar reyndist standa traustum fótum í einni af mörgum túlkunarhefðum ritningarinnar.

„Því svo elskaði Guð heiminn að hún gaf einkadóttur sína til þess að hver sem á hana trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Krista

Svona kemst rithöfundurinn Óttar Norðfjörð að orði í bók sinni, Jóhannesarguðspjall, sem út kom vorið 2014. Óttar fjallaði um þetta rit í fyrirlestri sem ég sótti nú um daginn. Verkið er í raun ekki annað en umritun á samnefndu guðspjalli, þar sem Guð er í kvenkyni og í stað Jesú frá Nazaret er María frá Magdölum aðalpersónan. Hún verður því Krista, hin smurða. Eins og heyra má í þeim texta sem vitnað var í, verður hljómur frásagnarinnar annar við slíka breytingu og ekki er laust við að lesandinn skynji önnur hughrif en við lestur hins upprunalega guðspjalls.

,,Verkin sem ég geri í nafni móður minnar, vitna um mig” segir María í guðspjalli þessu. Það er ekki auðvelt að festa hendi á því en orðin verða á einhvern hátt enn nánari, persónulegri heldur en þar sem talað er um föðurinn eins og við erum vön, sem getur haft yfir sér ákveðna upphafningu í þeirri frásagnarhefð sem við fylgjum.

Höfundurinn var að sögn, uggandi um viðbrögðin þar sem hann hafði farið svo frjálslegum höndum um helgan texta. En langflest sem tjáðu sig, voru jákvæð. Meðal þeirra sem luku lofsorði á verkið var biskupinn, sem fann þar snertifleti við eina gjöfulustu guðfræðistefnu síðustu áratuga, kvennaguðfræðina.

Skapandi texti Já, ekkert er nýtt undir sólinni og það kom Óttari á óvart hversu frjór sá jarðvegur reyndist vera sem rit hans féll í. Þá reyndist tilraunin ekki eins nýstárleg og framandleg og hann hafði gert sér í hugarlund. Svo margir hafa unnið með texta Biblíunnar, umritað þá, fært þá í búning nýrrar frásagnar, tekið upp þau frásagnarstef sem þar eru að finna og sett þau inn í nýtt samhengi.

Textar ritningarinnar hafa vissulega verið brúkaðir til að réttlæta misrétti kynja og jafnvel kynþátta, enginn skyldi draga fjöður yfir það. En þetta sama rit átti síðar eftir að verða nýttir í jafnréttisbaráttu undirokaðra hópa. Besta dæmið um það er kvennabaráttan, þar sem konur nýttu sér óspart texta Biblíunnar sem bentu á mun sterkari stöðu kvenna en margur hafði áður viðurkennt. Konur voru fyrstar til að segja frá upprisu Krists, þær voru meðal nánustu vina Jesú og margar myndlíkingar um sjálfan Guðdóminn vísa til móður sem umfaðmar afkvæmi sín.

Þetta er eðli hins skapandi texta Biblíunnar. Með þeim hætti hefur fólk leið Íslendingasögur, jafnvel frásagnir Eddu kvæða af heiðnum átrúnaði, leikrit Shakespears, já og fjölda annarra frásagna sem umritun á einstökum frásögnum hinnar helgu bókar.

Margbrotin bók

Biblían er ekki bara lifandi í þeirri merkingu að á öllum tímum hefur fólk fundið í henni farveg margvíslegra baráttumála og viðfangsefna. Hún ber sjálf merki þess fjölbreytileika sem einkennir umhverfið sem ritið varð til í.

Biblía er, eins og við kennum fermingarbörnunum, heilt bókasafn, 66 rita sem skrifuð eru á löngu tímaskeiði og bera merki ólíkra menningarheima. Þeim til viðbótar eru svo kölluð apókríf rit bæði Gamla testamentisins og þess Nýja. Þau eiga það sameiginlegt hvert og eitt að lýsa glímu manna við sjálfan guðdóminn, þar sem manneskjan spyr sig að stöðu sinni, hlutverki og tilgangi í heiminum. Þessi glíma á sér margar birtingarmyndir og það er einmitt eitt af því sem gerir Biblíuna sem magnað rit. Þar getum við fundið samhljóm með svo margvíslegum þáttum mannlegrar tilveru.

Við Íslendingar leiðum hugann of sjaldan að því, held ég, að þessi magnaða bók hefur ekki aðeins verið þjóðinni huggun, áminning og leiðsögn í rangölum lífsins. Hún er líka ein helsta skýringin á því að þetta tungumál okkar skuli hafa haldið velli. Oddur Gottskálksson þýddi Nýja testamentið og Guðbrandur Þorláksson gaf Biblíuna út árið 1584. Það var menningarlegt afrek, ekki aðeins fyrir okkur sem byggjum þessa eyju, heldur fyrir heimsmenninguna alla sem er fyrir vikið fjölbreyttari og sem slík auðugri. Með sama hætti hafa önnur tungumál fengið ritmál í tengslum við biblíuþýðinguna því sú er afstaða kristinna manna að textinn þurfi að vera aðgengilegur hverri manneskju sem mætir honum á sínum forsendum og túlkar hann.

Sum þessara rita, einkum í Nýja testamentinu sem fermingarbörn fá að gjöf nú í þessari messu, eru skrifuð með ákveðna hópa í huga. Guðspjall Mattheusar dregur fram gyðinglegar rætur Jesú, rekur ættir hans til ættfeðranna enda er það ætlað gyðingingu. Jóhannesarguðspjall sem Óttar lagði út af, er á hinn bóginn sett fram sem samtal við hópa sem aðhylltust sterka tvíhyggju. Í þeirra augum var heimurinn og allt það sem jarðneskt var, eins og fjötrar sem upplýstir menn áttu að leysa sig undan. Litla Biblían sem lýsir því hvernig Guð elskaði heiminn og færði okkur einkason sinn, nú eða einkadóttur, er eins og áminning um að heimurinn er sköpun Guðs, vettvangur lífs okkar og starfa og það er ekki tilgangur lífs okkar að yfirgefa heiminn heldur að vinna ljóssins verk á meðan lífdagar okkar eru. Ef Guð elskar heiminn og við eigum að umgangast móður jörð að sama skap af umhyggju og alúð.

AGCT

Á deginum sem helgaður er sjálfri Biblíunni fer vel á því að skoða þetta rit sem framlag til þess sem gerir heiminn litríkari og auðugri. Sagan Krists um sáðmanninn sem dreifir sáðkorninu út um víðan völl er eins og vísbending um þá auðlegð sem felst í margbreytileikanum.

Sáðkornið er í hjarta frásagnarinnar nú á Biblíudaginn. Þar er eitthvað mergjað við þessa litlu ögn sem lætur svo lítið yfir sér að við hugleiðum sjaldnast verund hennar og eðli. Þar sem kornið liggur á götunni í einhverri þeirri mynd sem náttúran býr því, tröðkum við það undir fótum okkar. Við veltum því ekki fyrir okkur hvort nokkur greinarmunur er á því og grjótinu og sandinum sem þar liggur einnig. Kornið fer í gegnum meltingarveg okkar margra í morgunsárið þegar við reynum af fremst megni að fylgja ráðleggingum heilsufróðra, og borðum staðgóðan og trefjaríkan morgunmat! Já, sáðkornið er víða eins og segir í dæmisöguni.

Því er í raun eins farið með sáðkornið og Orð Guðs að margur veitir því litla athygli. Þó býr í því slíkur kraftur að það megnar að glæða allt umhverfið lífi og litum. Þar sem Jesús talar um ríkulega uppskeru ættum við ekki að kalla fram í hugann mynd af bleikum kornökrum sem teygja sig, einsleitir og einslitir um víðáttur engjanna. Sjáum miklu fremur fyrir okkur litadýrð sköpunarinnar, í öllum sínum gróanda.

Sáðkornið er eins og hin helga bók að því leyti að í massa þess leynast ótrúlegar upplýsingar, sem eru nánast töfrum líkar. Við rétt skilyrði, eins og frelsarinn lýsir því í frásögninni, fara þessar upplýsingar að vinna, eins og þar búi flókinn hugbúnaður. Frumurnar hafa allar sín hlutverk sem DNA kjarnsýrurnar ákvarða. Þær túlkar líffræðin meira að segja með bókstöfum, þessir ferns konar niturbasar, adenín( A), gúanín (G), cýtósín (C) og týmín (T).

Við rétt skilyrði, þar sem rakinn og ylurinn er nægur, þar sem ekki kafnar allt í órækt og illgresi, myndar fræið spírur, rætur og stöngul, á því vaxa blöð og jafnvel blóm. Litadýrð sköpunarinnar ber þess vitni hve margslungið lífið er. Og það er orð Guðs að sama skapi einnig. Það birtist í raun einnig í öllum regnbogans litum.

Uppskera í lit

Með sama hætti hefur Orð Guðs getið af sér ríkulega og fjölbreytta uppskeru. Hún birtist í því hvernig ólíkir hópar hafa fundið farveg réttindabaráttu sinni í gegnum þetta orð, enda er þar sá boðskapur margendurtekinn að allir menn séu dýrmætir og í raun skapaðir í mynd Guðs. Útlegging hins unga skálds, Óttars Norðfjörð á guðspjalli Jóhannesar reyndist standa traustum fótum í einni af mörgum túlkunarhefðum ritningarinnar. Kvennaguðfræðin, eins og Agnes biskup benti á, hefur fyrir löngu leitað að orðfæri sem er handan föður og sonar og þar með opnað okkur fleiri víddir þessa lifandi orðs. Og nú á eftir munu Gídeonmenn afhenda fermingarbörnum Nýja testamentið þeim til uppbyggingar. Þar munu þau lesa sjálf þennan merkilega texta, draga af honum ályktanir og túlka hann með þeim hætti sem gert hefur verið kynslóðum saman í kristinni kirkju.