Við biðjum Skálholti griða

Við biðjum Skálholti griða

Hitt virðist fráleitt að reisa þurfi 600 fermetra „miðaldakirkju“ til að leysa salernisvanda! Nú verður kirkjuráð að taka skýra afstöðu. Vill það standa vörð um að áfram gefist þeim sem leita kyrrðar og uppbyggingar í Skálholti tækifæri til þess? Eða vill það einbeita sér að þeim sem eiga þar skamma viðdvöl í leit að „upplifun“?
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
25. maí 2012
Meðhöfundar:

Sagan segir að Gissur Ísleifsson hafi um aldamótin 1100 gefið Skálholtsland með því skilyrði að þar væri biskupsstóll meðan kristni væri játuð í landinu. Sú skipan hélst allt til Hruns 18. aldar en þá var biskupsstóllinn fluttur til Reykjavíkur. Biskupinn sjálfur keypti Skálholt á brunaútsölu. Þar með voru skilmálar Gissurar rofnir. Í byrjun sjöunda áratugar liðinnar aldar gaf þjóðin þjóðkirkjunni staðinn. Reikna má með að þessari rausnarlegu gjöf hafi fylgt sambærilegar óskir og hjá Gissuri biskupi forðum: að Skálholt með allri sinni sögu og helgu hefð væri fyrst og síðast vettvangur kirkjustarfs. Í kjölfarið rættust draumar ýmissa hugsjónamanna í kirkjunni. Prestssetur var endurreist. Dómkirkja reis og var búin frábærum listaverkum Gerðar Helgadóttur og Nínu Tryggvadóttur. Stofnaður var lýðháskóli að norrænni fyrirmynd sem nú er ráðstefnusetur. Það varð mörgum gleðiefni að aftur sæti biskup Skálholt þegar embætti vígslubiskupanna voru flutt á hin fornu biskupssetur. — Við hönnun Skálholtsstaðar var leitast við að raska náttúrunni sem minnst. Það er erfitt að lýsa því með hlutlægum hætti en mörg þeirra sem staðurinn er kær vitna um helgi hans. Blikur á loftiSaga Skálholts hefur verði mögnuð. Þetta mikla mennta- m enningar- og helgisetur hefur einnig verið vettvangur dramatískra atburða. Á 15. öld var biskupi þar drekkt í Brúará sem þar rennur hjá. Á 16. öld var síðasti kaþólski biskup Norðurlanda hálshöggvinn. Á 17. öld var Ragnheiði Brynjólfsdóttur gert að sverja eið — tákn ferðaveldis, tortryggni og harðýðgi. Nú eru enn blikur á lofti og ástæða til að óttast að hin harmræna fortíð varpi enn skugga á Skálholt. Þorláksbúðarmálið sérkennilega er hugsanlega aðeins upphafið af því sem koma skal. Á kirkjuþingi s.l. haust kynnti athafnamaður „viðskiptahugmynd“ sem gekk út á að reisa „miðaldadómkirkju“ í Skálholti. Hugmyndin var ekki rædd á þinginu sem er æðsta sjórnarstofnun þjóðkirkjunnar. Þrátt fyrir það hefur kirkjuráð ákveðið að ganga til samstarfs um hugmyndina með þeirri áhættu sem því fylgir. Áhætta kirkjunnar er ekki fjárhagsleg. Hún er menningarleg. — Ef hugmyndin gengur eftir er augljós hætta á að þessi kirkja yfirskyggi allt annað sem gert er á staðnum. Hér skal ekki efast um að miðaldakirkjurnar í Skálholti hafi verið merkileg arkítektónísk verk. Þær voru sér-íslensk útgáfa af stafkirkjum sem við þekkjum best frá Noregi. Þær voru vissulega einstakar en þó þarf að hafa í huga að þær voru merki þess að Íslendingar voru að dragast aftur úr. Á blómaskeiði timburkirkna í Skálholti voru dómkirkjur í öðrum löndum byggðar úr steini. Hér skorti miðstjórnarafl sem lagt gat á fólk þá kvaðavinnu sem bygging steinkirkju krafðist. Timburkirkjurnar í Skálholti eru því þrátt fyrir allt fyrirboði um þá hnignun sem náði hámarki á 18. öld. Kirkjuráð komi til sjálfs sín Þráfaldlega kemur til hagsmunaárekstra milli tveggja hópa sem í Skálholt koma. Flest sem þangað leita vegna þess kirkjulega starfs sem þar fer fram óska næðis og kyrrðar. Ferðamennirnir leita „upplifunar“, veitinga, minjagripa og salerna en eru síðan á bak og burt. Hugmyndin um „miðaldakirkjuna“ gengur fyrst og fremst út á að auka aðdráttarafl Skálholts fyrir ferðamenn og þá kosti sem Gullni hringurinn hefur uppá að bjóða enda er um „viðskiptahugmynd“ að ræða. Hún er hins vegar léttvæg út frá menningarsögulegu sjónarmiði og óviðkomandi kirkjulegu starfi. — Og þó! Hugsanlega hefur kirkjuráð eygt þann möguleika að rísi bygging af því tagi sem um ræðir í Skálholti muni rekstraraðilar hennar reyna að ná sem mestu fé af ferðamönnum — eða jákvæðar orðað: veita sem besta þjónustu. Það mundi létta álagi af þeim vanbúnu stofnunum sem þar eru nú. Þetta er vissulega hugmynd útaf fyrir sig. Skelfing er þó farið yfir mikið fljót eftir vatni. Í Skálholti þarf aðeins að rísa einföld og látlaus upplýsinga- og þjónustumiðstöð. Það væri verðugt samstarfverkefni fyrir kirkjuráð og ferðamálafrömuði. Hitt virðist fráleitt að reisa þurfi 600 fermetra „miðaldakirkju“ til að leysa salernisvanda! Nú verður kirkjuráð að taka skýra afstöðu. Vill það standa vörð um að áfram gefist þeim sem leita kyrrðar og uppbyggingar í Skálholti tækifæri til þess? Eða vill það einbeita sér að þeim sem eiga þar skamma viðdvöl í leit að „upplifun“? Það virðist hafa veðjað á síðari hópinn. Samræmist það þeim skilmálum sem alltaf hafa fylgt eignarhaldi kirkjunnar á Skálholti? — Þarf kirkjuráð ekki að ganga í sig og endurskoða afstöðu sína? Mikið er nú rætt um kirkju á krossgötum. Traustið fer þverrandi og upp hafa komið mál sem hafa reynst kirkjunni erfið. Trúverðugleiki Þjóðkirkjunnar hefur beðið hnekki. Það er kallað eftir breytingum. Kirkjunni ber að koma gleðiboðskap á framfæri. Ýmsir hafa sagt að skortur á gleði hafi leikið kirkjuna grátt. Þá hefur verið talað um kjarkleysi til að taka á málum. Ásamt gleðinni er kjarkur undirstaða boðskaparins sem kirkjunni er trúað fyrir. Kirkja sem vill eiga samhljóm með þjóðinni skilur að það er ekki kallað eftir „miðaldakirkju“ í Skálholti. Það er kallað eftir gleði, kjarki, virðingu og næmni fyrir nýjum þörfum í breyttu samfélagi. — Hver eru viðbrögð kirkjustjórnarinnar?