Ég las frétt um daginn, bandarísk að uppruna, um unga konu sem kom heim til sín eftir að hafa setið biblíunámskeið og gekk þá beint í flasið á innbrotsþjófi, sem tuktaði hana rækilega til. Það varð henni til happs og lífs að hún byrjaði að lesa upp úr Biblíunni fyrir þjófinn og las úr henni í um klukkustund. Þá fyrst hafði óboðni gesturinn sig á brott. Sérstæð saga enda margt sérkennilegt sem gerist í Bandaríkjunum. Íslenskir fjölmiðlaneytendur tjáðu sig í athugasemdakerfi dagblaðsins. Sennilegast hafa flestir haldið að um grín væri að ræða, sem vel má vera, enda mikið af gríni í fjölmiðlum. Þar á allt helst að vera skemmtilegt og sniðugt jafnvel þótt það sé alvarlegt. Ég hjó eftir því að mjög margir lesendanna virtust finna frekar til með afbrotamanninum en hinum biblíuelskandi, guðhrædda og grandvara þolanda. Hver skyldi jú komast heill út úr því að hlusta á Guðsorðið þetta lengi? En vafalaust voru lesendur líka að grínast, eða hvað?
Hitt veit ég líka að öllu gríni fylgir einhver alvara. Biblían, þetta forna bókasafn, uppfyllir ef til vill ekki skemmtanakröfur nútímans. Einhver myndi jafnvel halda því fram að þarna væri um að ræða margar úreltar bækur í einu bandi, orðalag óþjált, engar myndir og ef þeim er til að dreifa þá þykja þær ekki nógu skrautlegar. Einu orði sagt leiðinlegt og engin ástæða til að lesa þetta eldgamla bókasafn. Og svo er það inntakið, sem er krefjandi verkefni. Hinn fullkomni og almáttugi Guð og hinn ófullkomni maður. Guð reynir að sættast við þessa sköpun sína, sem lætur ekki að stjórn. Fyrst er refsiaðferð beitt í Gamla testamentinu, sem gengur ekki, og síðan er það aðferð kærleikans í Kristi Jesú, sem að margra mati hefur reynst árangursríkari og meira í takt við uppeldisvenjur nútímans.
Eftir að lesandi hefur lagt það á sig að þrjóskast í gegnum þetta mikla rit, sem telur í nýjustu þýðingunni frá 2007 heilar 77 mislangar bækur, þá er það spurningin hvort hann trúi inntakinu yfir höfuð. Við erum jú að tala um trúarrit. Ekki nóg með það, heldur er ekkert víst að hann hafi skilið textann rétt, því það skiptir máli með hvaða andlegu gleraugum hann les og hvort hann hafi sett sig inn í umhverfið sem býr að baki ævafornum textum. Það eru aldeilis ekki allir sammála um merkingu texta biblíunnar, ekki einu sinni sjálfir prestarnir né aðrir þjónar alheimskirkjunnar. Getur verið að þetta hafi ekki verið neitt grín með innbrotsþjófinn, verkefnið var honum hreinlega ofviða og þó voru fjölmargar klukkustundir eftir af lestri þolandans biblíuþyrsta. Það var svo mikið sem þjófurinn varð að hafa í huga undir þessum kröfuharða lestri og hann sem var einvörðungu að einbeita sér að sjöunda boðorðinu!
Og fleira bætist í safn umhugsunarefna. Áreiðanleiki ritningarinnar, er þetta skáldsaga, söguleg skáldsaga eða hreinn og beinn raunveruleiki? Hvað með frumhandrit, hvað með áhrifin, hvað með allar þessar þýðingar? Ég get ekki svarað þessu í einni prédikun, mér endist ekki einu sinni aldur til þess að svara þessu, það er helst hinn eilífi Guð, sem getur það. Þó má halda því fram að frumhandrit hafi fundist, séu til og séu vel varðveitt. Áhrif Biblíunnar eru líka ótvíræð og nóg að líta rétt í kringum sig í því sambandi. Vissuleg er ekkert ósennilegt að eitthvað hafi skolast til við allar þessar þýðingar ólíkra þýðenda. En hvernig sem á málið er litið getum við ávallt horft til ákveðins kjarna sem hægt er að finna í yngsta guðspjallinu, guðspjalli Jóhannesar 3. kafla 16. vers og hljóðar þannig:
„Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Þetta er svokölluð „Litla biblía“, vers sem hefur fengið nafnið vegna þess að það dregur saman það sem Nýja testamenti Biblíunnar fjallar um í grunninn. Það er því gott að byrja á versi sem þessu ef þú ert eitthvað að pæla í því að kynna þér bókasafnið víðfræga. En fyrst og fremst þarf að lesa Biblíuna áður en maður fer að viðra skoðanir sínar. Og þá er það spurningin um lestraráhuga, á hann undir högg að sækja? Það hefur verið mikil umræða um lestur barna undanfarið og jákvætt að fylgjast með stofnun Barnabókaseturs á Amtbókasafninu á Akureyri, sem er rannsóknarsetur um barnabókmenntir og lestur barna við Háskólann þar í bæ. Það er mjög svo þarft framtak og frumkvöðullinn heitir Sigrún Klara Hannesdóttir starfandi prófessor og fyrrum Landsbókavörður. Guð gefi að hið nýstofnaða Barnabókasetur komi til með að styðja við lestur og læsi barna og efli lestraráhuga yfir höfuð.
Dægurmenningin, sem er á margan hátt ríkjandi í nútímanum, leggur síður áherslu á lestur. Afþreyingin, allt þetta sjónræna, allur þessi hraði, öll þessi mötun, veldur vissum doða og áhugaleysi gagnvart rituðu máli og oft og tíðum ríkir flótti frá því sem þykir leiðigjarnt, meira að segja áður en búið er að kynna sér efnið betur. Allt skal vera svo skemmtilegt og þægilegt og ef það er það ekki þá er best að forða sér. Það gerði innbrotsþjófurinn ameríski að lokum, sem naut svo ríkrar samúðar í athugsemdakerfi dagblaðsins.
Jónas Jónasson heitinn útvarpsmaður var eitt sinn í viðtali hjá Gísla Marteini. Á meðan skemmtiþáttastjórnandinn brosti og beið eftir því að heyra eitthvað sem hann gæti hlegið að þá sagði þessi lífsreyndi fjölmiðlamaður eitthvað á þá leið að það sem væri alvarlegt þyrfti ekki að vera svo leiðinlegt, alvarleikinn geti verið áhugaverður og í því sambandi bráðskemmtilegur. Þessi hugsun Jónasar hefur alla burði til þess að hjálpa okkur við að nálgast það viðfangsefni sem Biblían er og efnisinnihald hennar. Biblían er ekkert endilega bráðskemmtileg við fyrstu sýn, hún er hins vegar áhugaverð og djúp og sé hún lesin auðgar hún tilveru þína, trú og læsi þitt á umhverfið. Það er nefnilega það, lestur hennar getur dýpkað læsi þitt á umhverfi þitt.
Svið hennar er lífssviðið og þegar þú gengur um það er ótalmargt þar, sem tengir þig við það sem þú hefur lesið í Biblíunni, það er eitt af mörgu sem er svo magnað við hana. Ég hlusta varla á viðtöl og samtöl fólks nema þar séu notuð orðtök, er tengjast á einn eða annan hátt frásögnum Biblíunnar. Þú áttar þig t.d. ennfrekar á mörgu því sem sagt er á íslenskri tungu ef þú hefur kynnt þér efni Biblíunnar. Það setur eitt og annað í samhengi, sem fær þig til að skilja betur lífið og ýmislegt það sem það felur í sér. Þetta heyrir undir menningaráhrif hennar og ítök sem gera hana svo lifandi. Örlítið dæmi: Þú hefur kannski einhvern tímann heyrt einhvern segjast senda þennan eða hinn út af örkinni. Örk er skip. Í því samhengi er áhugavert að kunna skil á sögunni um Örkina hans Nóa í 1. Mósebók, þar sem fyrst hrafn og síðan dúfa voru send af stað til þess að sjá hvort flóðið, sem Guð sendi yfir jörðina, hefði ekki sjatnað og hvort land væri ekki loks fyrir höndum, já til þess að tékka hvort Guð stæði ekki örugglega við orð sín. Hver sem les þessa biblíufrásögn uppgötvar betur umrætt orðtak, sem er algengt í íslensku máli ásamt mörgum öðrum er Biblíunni tengjast beint.
Þessi umræða snertir einnig algengan þátt, sem heyrist oft hér og þar í þjóðfélaginu og það er þetta hvað það sé hrútleiðinlegt að fara í kirkju og sitja messu. Þetta er eitthvað sem hefur verið haft svo oft að orði, að menn eru farnir að trúa því að það sé raunin alltaf og allsstaðar. Ég get vel skilið að það séu ekkert allir hrifnir af sálmasöng og messutóni. Það verður líka allt að því kjánalegt ef fólk áttar sig ekki á til hvers það er. Allur söngur og tal í messu er ákall til Guðs og Honum til dýrðar og mannfólki til blessunar. Það er gott að hugsa þetta út frá því sjónarhorni að allt séu þetta bænir, sem verið er að flytja frammi fyrir Guði, bæn jarðar er stígur upp til himins.
Biblían og messan. Ég segi fyrir mig að ég nýt þess t.d. oft betur að horfa á kvikmyndir þar sem ég hef jafnframt lesið bókina. Ef ég hef ekki notið þess vekur það engu að síður áhuga minn og umræðu og ég er betur inn í hlutunum. Með vissum hætti er hægt að líkja þessu við messusókn og upplifun í messu. Hafir þú lesið Biblíuna öðlast þú án nokkurs vafa frekari skilning á því sem fer fram í messunni, enda er allur texti sem fluttur er þar frá Biblíunni kominn. Það gæti t.a.m. stutt heilmikið við ef farið er inn á dagbók kirkjuvefsins kirkjan.is og guðspjallstexti dagins í dag um sáðmanninn, sem fer út að sá, er lesinn áður en haldið er til kirkjunnar. Þá hefur sáðkorn textans tekið sér bólfestu í huga þínum og jafnvel hjarta og það er farið að hreyfa við þér áður en þú heyrir svo frekar um það fjallað í messunni. Þannig gæti það borið ennfrekari ávöxt. Guðspjallstextinn í dag fjallar nefnilega um jarðveginn og hvernig þú undirbýrð jarðveginn, það getur þú gert með þessum hætti svo þú öðlist frekari skilning á viðfangsefninu.
Það á við um svo margt í þessari tilveru og vafalaust hefur guðhræddi þolandinn sem lenti í hrömmum afbrotamannsins viljað umbreyta skilningsvana og grýttum jarðvegi í þann sem ber ávöxt með stöðuglyndi. En það gerist víst ekki á einni nóttu og það gerist ekki nema eftir því sé leitað og slíkt sé stundað. Þess vegna er þessi dagur m.a. haldinn hátíðlegur, Biblíudagurinn, til þess að vekja athygli á því Orði, sem mótar og skapar, en við tökum oft ekki eftir í hávaða og skrauti dægurmenningarinnar.
Gleðilegan Biblíudag í Jesú nafni! Amen.