Jólaóróar eru til í ýmsum myndum og skreyta iðulega híbýli fólks fyrir jólin. Þeir eru ýmist heimatilbúnir eða hannaðir af frægum hönnuðum, stórir og litlir, einfaldir eða flóknir. Sumir kaupa og eða gefa jólaóróa ár eftir ár þar sem sífellt bætist við safnið en einn er sá órói sem enginn vill eiga. Það er jóla-óróinn sem flestir finna fyrir en vilja lítt við kannast. Jóla-óróinn er andlegs eðlis. Það er tilfinning kvíða og streitu sem veldur óþægindum og eyðileggur ánægju fólks af líðandi stund.
Jólin koma enn á ný og eftirvæntingin liggur í loftinu. Ljósunum fjölgar með degi hverjum í kringum okkur og heimilin breyta um svip. Samverustundir með fjölskyldu, vinum og félögum einkennast af jólastússinu og mikill tími fer í að undirbúa hátíðina sem framundan er. Allsstaðar minna jólin sig með einhverjum hætti og eftir því sem dagarnir líða verður spennan meiri í andrúmsloftinu. Spennan getur þó orðið of mikil og eftirvæntingin getur jafnvel snúist upp í andhverfu sína. Fjölmargir eiga í erfiðleikum með að njóta augnabliksins. Sumir fyllast af kvíða, ótta og jafnvel örvæntingu á þessum árstíma.
Jóla-óróinn svífur yfir vötnum og veldur streitu og álagi.
Það er eðlilegt að finna til einhverrar streitu þegar mikið stendur til og ýmis verkefni sem bíða okkar. Stór hluti af eftirvæntingu og spenningi jólanna er einmitt undirbúningurinn fyrir hátíðina. Við kvörtum stundum og kveinum yfir því sem gera þarf og verkefnin virðast á stundum yfirþyrmandi. En verkefnin geta einnig verið uppspretta ánægju og gleði. Þegar við tínum skrautið upp úr kössunum sem geymdir hafa verið í ár, á vísum stað, þá rifjast upp fyrri tímar og skemmtilegar minningar sem gefa líðandi stund gildi. Þegar við þrífum, bökum, skrifum jólakort, kaupum gjafir og pökkum inn erum við með áþreifanlegum hætti að vinna að því góða. Við erum að skapa umgjörð um fögnuðinn sem við finnum í hjartanu og við erum að sýna ást okkar í verki. En ef verkefnin eru of mörg og okkur finnst sem við sjáum ekki út úr þeim þá er nauðsynlegt að staldra við. Er ég að gera of mikið? Þarf ég á hjálp að halda? Til hvers er ég að þessu öllu?
Jólaóróinn myndast einnig innra með fólki sem á sér sárar minningar frá þessum árstíma. Jólin stóðust aldrei væntingarnar sem það átti í hjarta sér og það vill helst gleyma öllu sem minnir á þau. Fólk glímir líka við margt á líðandi stund sem skyggir á alla gleði og gerir því erfiðara fyrir að njóta augnabliksins. Jólaórinn fyllir líka hjarta margra sem halda fyrstu jólin án ástvina sem skipuðu mikilvægan sess í jólahaldinu. Það er erfitt að hugsa sér jól án þeirra sem eru okkur hjartfólgin. Jólaóróleikinn á sér ýmsar orsakir og hefur meiri áhrif en okkur grunar. Hann varpar skugga sínum á það sem dýrmætt er og getur eyðilagt ánægju augnabliksins.
Við finnum mismikið til jólaóróans og stundum gleymum við okkur í erlinum og áttum okkur ekki einu sinni á því óróinn stjórnar lífi okkar. Sumir eru sífellt á hlaupum undan sjálfum sér og reyna að hafa nóg fyrir stafni til þess að finna ekki til þessarar óþægilegu tilfinningar. Aðrir sitja með hendur í skauti alls ófærir um að gera nokkurn skapaðan hlut því að kvíðinn er svo mikill. Það er mikilvægt að kannast við þennan óróleika í sjálfum sér og horfast í augu við þær erfiðu tilfinningar sem að baki eru. Um leið og það er gert þá er eins og þungu fargi sé af manni létt. Við getum brugðist við og gert þær ráðstafanir sem nauðsynlegt er til þess að létta af okkur áhyggjum og kvíða. Gott er að tala um óróleikann við þau sem við treystum og hlusta með athygli og ástúð.
Það er líka gott að skyggnast aðeins betur inn í hjarta okkar og finna hvað í því býr. Jólaórinn á sér nefnilega stundum enn dýpri rætur en augljóst er. Jólin kveikja með okkur þrá eftir ást og öryggi. Hún birtist m.a. í löngun okkar eftir löngu liðnum tíma þar sem tilveran var öruggari og einfaldari og söknuðinum eftir fólkinu sem var svo mikilvægur hluti af okkur. Jólin minna okkur á að öll þörfnumst við elsku og umhyggju og að hjarta okkar leitar þess stöðugt. Óróinn innra með okkur hverfur ekki alveg fyrr en að við finnum uppsprettu elskunnar. Guð er sá sem við leitum að. Hann elskar okkur takmarkalaust og ber umhyggju fyrir okkur hverju og einu. Elska hans er sú sanna ást sem allir leita að. Ágústínus kirkjufaðir orðaði þessa þrá með eftirfarandi hætti: „Hjarta vort er órótt uns það hvílist í þér Drottinn.“
Nú þegar jólin nálgast og hjörtu okkar ólga af óróa er tækifæri til að staldra við. Við getum leitað til Guðs í bæn og beðið hann um að fylla hjarta okkar friði. Orð Ágústínusar geta verið okkur bænarorð þegar óróinn fyllir hjartað. Við getum farið með þau aftur og aftur til þess að róa hugann. Það er einnig gott að hlusta á eða syngja jólasálmana og íhuga boðskap þeirra. Þá heyrum við rödd Guðs innra með okkur og við finnum kærleiksríka nálægð hans.
Jólaóróinn sem fæstir vilja eiga verður stundum til þess að við nálgumst Guð betur. Af innri óróa leitum við Guðs og finnum hve gott það er að hvíla í honum. Þegar við gefum okkur tíma til þess að vera með Guði í bæn þá lærum við að njóta augnabliksins betur. Við njótum jólanna með nýjum hætti þar sem elska Guðs umvefur allt.