Til heilla

Til heilla

Allt er í heiminum hverfult og heimurinn tekur enda. Þeirri hugsun sér víða stað, enda byggð á reynslu mannkyns sem horft hefur upp á heim sinn hrynja á svo marga vegu. En hugsunin um vonarríka framtíð er það sem gerir hina biblíulegu sýn sérstaka, að Guð eigi sér fyrirætlanir til heilla fyrir okkur, ekki til óhamingju.

Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.

Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.

Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.

Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. Matt 25.1-13

Þegar við nú siglum inn í lok kirkjuársins og upphaf nýs eru okkur settir til lestrar nokkrir textar sem varða síðustu tíma, dag Drottins, endurkomu Jesú Krists. Guðspjallið í dag er einn þeirra, dæmisaga Jesú um meyjarnar tíu. Kennsla Jesú um þetta efni byggir að miklu leyti á spámönnum Gamla testamentisins sem höfðu þá skýru sýn að heimurinn eins og við þekkjum hann myndi taka enda. Og brýningin er þessi: Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.

Vissulega kann sú hugsun að vekja hjá okkur ugg og ótta. Mannlega talað er óþægilegt til þess að hugsa að veröldin verði ekki ávallt sú sem hún er í dag. En á móti kemur líka sú mannlega reynsla að veröldin er aldrei söm. Heimurinn er annar í dag en hann var í gær. Panta res, sögðu gömlu grísku heimspekingarnir. Allt flýtur áfram og vatnið í ánni er annað en augnabliki fyrr þegar það rennur fram hjá þér.

Heimur margra hefur hrunið um þessar mundir. Hrun efnahagskerfa um allan heim skilur eftir sig sviðna jörð. Til er fólk sem upplifir öryggismissi svo sáran að það er engu líkara en sólin hafi hætt að skína. Inn í þann missi talar orð Guðs, orð um huggun í kærleika (Sef 3.17) og gagnkvæma uppörvun bræðra og systra (Heb 3. 13).

Vonarrík framtíð

Allt er í heiminum hverfult og heimurinn tekur enda. Þeirri hugsun sér víða stað, enda byggð á reynslu mannkyns sem horft hefur upp á heim sinn hrynja á svo marga vegu. En hugsunin um vonarríka framtíð er það sem gerir hina biblíulegu sýn sérstaka, að Guð eigi sér fyrirætlanir til heilla fyrir okkur, ekki til óhamingju. Handan alls þess sem á dynur í þessu lífi og við lok þess bíður þeim sem það vilja þiggja vonarrík framtíð, eilíft líf með Guði:

Því ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. (Jer 29.11).

Handan heimsins, segir prédikarinn. Ekki þá hér í þessu lífi? Jú, sannarlega einnig. Orð Biblíunnar hreyfa við veruleika á tveimur sviðum, ef svo má segja. Annað sviðið varðar það sem framundan er eftir dauða okkar og endalok heimsins. Hitt sviðið er það sem snýr að lífi okkar hér og nú, á þessari stundu. Hin vonarríka framtíð er núna. Augnablikið er það sem skiptir máli, að við verjum tíma okkar vel og þiggjum veruleika Guðs inn í hvert andartak.

Tvíþættur veruleiki

Um þennan tvíþætta veruleika fjalla textar dagsins. Annars vegar er hin háleita framtíðarsýn, handan tíma og rúms, þegar allt er orðið Guðs, þegar Drottinn hefur ógilt refsidóminn, hrakið fjendur á brott fyrir fullt og allt og ekkert kemst að nema fögnuður og gleði (sjá Sefanía 3.14-17). Að sú sýn verði í lífi okkar hvers og eins byggir á staðföstu trausti til Guðs, eins og fram kemur í Hebreabréfinu 3.14: Því að við erum orðin hluttakar Krists svo framarlega sem við treystum honum staðfastlega allt til enda eins og í upphafi.

Hins vegar er hin biblíulega von töluð inn í veruleikann hér og nú, eins og eftirfarandi frásaga sýnir okkur. Litla Garía var bara eins og hálfs árs og henni var ætlað að deyja. Því ollu ekki veikindi eða slys heldur grimmileg hefð forfeðradýrkunar í heimahéraði hennar, Pókot í Keníu. Reglur andatrúarinnar eru þannig að verði móðir ungs barns barnshafandi að nýju áður en dregin hefur verið úr barninu tönn í neðri góm skulu bæði deyja, hið ófædda barn og eldra barnið.

Ættingi Garíu litlu kom henni undan og fór með hana til kristniboðanna. Einn þeirra ákvað að taka hana að sér og ala hana upp ásamt konu sinni. Kærleikur Krists knúði þessi hjón til að hlú að lífi barnsins. Orðin Jesús Kristur dó fyrir þig fá nýja og áþreifanlega merkingu þegar hugsað er til Garíu litlu. Hún átti að deyja vegna syndafjötra fólksins síns en var bjargað vegna fórnar Jesú Krists á krossi. Vongleði kristinnar trúar stendur bjargföstum fótum í veruleikanum.

Á meðan enn heitir í dag

Uppörvið hvert annað hvern dag á meðan enn heitir„ í dag“... segir í Hebreabréfinu (3.13). Dagurinn í dag er dýrmætur. Hann er gefinn þér til heilla. Látum ekki yfirbugast af tímanlegum vandræðum. Uppörvum hvert annað, gætum þess að hafa ekkert illt í hjarta og láta engar efasemdir bægja okkur frá lifanda Guði.

Heillatextarnir hjá spámönnunum Jeremía og Esekíel geta verið okkur olía á lampana okkar, olía sem aldrei þrýtur fyrir heilagan anda Guðs. Í 32. kafla Jeremía segir:

Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá (Jer 32.29). Lotning fyrir Guði færir okkur og börnum okkar heill. Olíulausir lotningarlampar eru ávallt til óheilla.

Esekíel orðar þetta svona: Ég mun gera sáttmála við þá þeim til heilla og eyða rándýrum úr landinu... (34.25). Þeim til heilla mun ég rækta þeim garð svo að þeir verði ekki framar hungri að bráð í landinu og þurfi ekki að þola smánaryrði framandi þjóða (34.29).

Guð býður okkur það sem þarf til að dagurinn í dag sé okkur heilladagur. Sú olía felst í því að treysta Guði, halda sáttmálann við hann, lifa í trú, von og kærleika og hlú hvert að öðru. Í því felst hamingjan, bæði í núinu og um alla eilífð.