Hvað tíminn líður! Liðin eru tíu ár frá einu eftirminnilegasta aðventukvöldi sem ég hef tekið þátt í. Þá var ég nýkominn til starfa í Ísafjarðarprestakalli, hafði tekið vígslu í apríl sama ár og senn var fyrsta hátíðardagskrá aðventu og jóla framundan. Það var ekki laust við að það færi um nýbakaðan klerkinn sem þóttist fær í flestan sjó en vissi þó innst inni að svo var ekki. Margt var eftir ólært og framundan var þessi mikla dagskrá þar sem helgihald fór fram á ýmsum stöðum og í mörg horn að líta. Það var þó löngu ljóst hversu kraftmikið menningarlífið var á svæðinu og hvergi var þar slegið slöku við. Og reyndar hófst undirbúningur fyrir þetta aðventukvöld löngu áður en flestir aðrir bæjarbúar voru farnir að huga að undirbúningi jólanna. Einhvern tímann í október hófust reglulegar ferðir í Álftafjörðinn með fríðu föruneyti tónlistarfólks þar sem dagskráin var æfð. Vikulega lá leiðin inneftir og í uppljómaðri kirkjunni æfðu kórar hátíðarsöngva og dagskráin var undirbúin í smáatriðum. Oft hef ég hugleitt það síðan hversu mikil eljan var í fólkinu.
Loks rann kvöldið upp og vantaði ekkert upp á hátíðleikann. Þykkur snjór lá yfir jörðinni, himinninn stjörnubjartur og þorpið var ljósum skrýtt. Æfingunum hafði ekki verið varið til einskis. Feilnótur voru engar en stöku kórfélagar ofmátu kunnáttu sína í textanum og sungu blaðalaust. Þar sem minnið sveik gilti þá að hugsa hratt og semja nýjan texta í eyðurnar. Vakti það nokkra kátínu hjá þeim sem næstir stóðu í kórnum en ekki minnist ég þess að gestir hafi haft af þessu ama. Að lokinni stundinni drukkum við jólaglögg í einu af nýju húsunum í Súðavík og ræddum um árangur þessa kvölds sem svo lengi hafði verið okkur í huga og var nú að baki.
Hvað tíminn líður hratt! En dagarnir lifa mislengi í minningunni. Flestir þeirra gleymast æði fljótt, renna saman í eitt, og er ómögulegt að rifja upp hvað þeir báru í skauti sér. Aðrir lifa eitthvað lengur og svo eru dagar og kvöld sem gleymast seinna. Mér finnst það svolítið undarlegt að liðinn sé áratugur frá aðventukvöldinu góða í Súðavík en undirbúningnum hefur greinilega verið vel varið því ég man það eins og það hafi gerst í gær.
Það þótti mér líka góð byrjun á prestsferlinum að kirkjugestir þarna um kvöldið voru fleiri en íbúarnir í sókninini. Því miður hefur mér ekki tekist að endurtaka þann leik og geri það vart úr þessu.
Aðventuhugleiðing í BB á Ísafirði, desember 2007