Litríka kirkjan

Litríka kirkjan

Ég kippi mér ekki upp við að í kirkju á höfuðborgarsvæðinu sé reglulega karlakaffi þar sem málsmetandi karlar halda erindi fyrir aðra karla, eins þykir mér bara gott mál að í kirkju úti á landi sé prjónasamvera auglýst sérstaklega fyrir konur, þótt það sé nú ólíklegt að mér væri úthýst ef ég kæmi og vildi prjóna með. Foreldramorgnar í kirkjum landsins eru hugsaðir fyrir foreldra ungra barna, eldri borgara samverur fyrir eldri borgara og þannig er það ýmsu kirkjustarfi að það er ákveðinn markhópur sem starfið beinist að.
Mynd
fullname - andlitsmynd Sindri Geir Óskarsson
22. maí 2023

Ég held að það sé einn af styrkleikum þjóðkirkjunnar að hún getur boðið upp á fjölbreytt starf sem höfðar til ólíkra hópa fólks. Því þrátt fyrir að Kristur kenni okkur að við séum eitt, þá er því rækilega haldið til haga að mannflóran sé fjölbreytt (sbr. Fyrra Korintubréf 12:12-31). Það væri nú bara drepleiðinlegt ef við værum öll eins, en það breytir því ekki að við erum eitt, við erum systkini í Kristi og höfum þá köllun að lifa í kærleika og friði hvort við annað.

Ég kippi mér ekki upp við að í kirkju á höfuðborgarsvæðinu sé reglulega karlakaffi þar sem málsmetandi karlar halda erindi fyrir aðra karla, eins þykir mér bara gott mál að í kirkju úti á landi sé prjónasamvera auglýst sérstaklega fyrir konur, þótt það sé nú ólíklegt að mér væri úthýst ef ég kæmi og vildi prjóna með. Foreldramorgnar í kirkjum landsins eru hugsaðir fyrir foreldra ungra barna, eldri borgara samverur fyrir eldri borgara og þannig er það í ýmsu kirkjustarfi að það er ákveðinn markhópur sem starfið beinist að.

Hér á Akureyri reiknast mér til að undarnfarið starfsár hafi til dæmis verið hátt í 170 samverur fyrir börn í söfnuðum þjóðkirkjunnar. Í Glerárkirkju og í Akureyrarkirkju er starf fyrir 6-9 ára börn, 10-12 ára börn, 14-16 ára ungmenni, auk barnakóra, æskulýðskóra og sunnudagaskóla.

170 samverur fyrir börn og ungmenni hér í bænum þar sem var sungið, leikið, fluttur uppbyggjandi boðskapur og þeim gefið tækifæri til að tilheyra samfélagi sem er grundvallað á kærleika og mannvirðingu.

Í sumar standa kirkjurnar hér í bænum að námskeiðum fyrir börn og ungmenni. Í tæpan áratug hafa sumarnámskeið Glerárkirkju verið fullbókuð og skapað sér orðspor sem fagleg, vönduð og skemmtileg námskeið fyrir börn.

Tvö þeirra sem koma að því námskeiði koma líka að öðru námskeiði sem haldið verður í Akureyrarkirkju að frumkvæði æskulýðsfulltrúa kirkjunnar.

Það er Litríkt sumarnámskeið fyrir hinsegin ungmenni í 8. – 10. bekk.

Mörg hafa fagnað því að kirkjan bjóði upp á þetta sumarnámskeið, en einhver upplifa það sem árás, að þarna sé búin til aðgreining, að önnur börn verði út undan.

Þessi þrjú skipti eru 0.02% af öllu því starfi sem við bjóðum upp á fyrir ungmenni í bænum. Þessi þrjú skipti miða að því að skapa öruggt umhverfi þar sem þátttakendur vita fyrir víst að þau muni ekki upplifa fordóma eða útilokun, þar sem þau geta kynnst gagnlegum verkfærum og bjargráðum eins og núvitund og íhugun. Þar sem við hjálpumst að við að gera kirkjuna stærri, vinnum gegn fordómum og ítrekum það að kirkjan er fyrir okkur öll.
Þar sem við vinnum að einingu og kærleika eins og Kristur kennir.

Ég vona að það sé framtíðardraumur okkar allra að tilheyra litríkri kirkju, hvort sem við sækjum karlakaffið, sunnudagaskólann eða æskulýðsstarfið.

Guð blessi litríkt starf í öllum söfnuðum landsins.