Börnin okkar og tjáningarfrelsið

Börnin okkar og tjáningarfrelsið

Hvort tveggja endurspeglar heilbrigði sérhvers samfélags þ.e. hvernig börn og tjáningarfrelsi þrífast.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
13. janúar 2013
Flokkar

Ég velti oft fyrir mér tilgangi þess að tjá sig. Í menntaskóla lærði maður tjáningu í bókstaflegri merkingu þess orðs. Þá var til skyldufag sem hét tjáning 101, mig minnir að mér hafi þótt það fremur skemmtilegur áfangi, a.m.k skemmtilegri en efnafræði 203 en þar fékk ég eitt sinn strokleður í hausinn eftir að hafa tjáð mig of mikið á kostnað kennslunnar. Í tjáningu 101 var manni skylt að tjá sig og fyrir mig var það dálítið eins og að vera fimm ára og lokast óvart inn á nammibarnum í Hagkaup, nánar tiltekið í Skeifunni. Ég hugsa að við séum meira tjáningarfull en þjáningarfull þjóð, kannski áttum við okkur ekki fyllilega á því hve sterkur mælikvarði það er á frelsi okkar hversu mjög fólk tjáir sig opið og oft á hinum opinbera vettvangi ( hvað eru mörg O í því). Tjáningarfrelsi er í raun mælikvarði á allt annað frelsi, það er mælikvarði á það hversu rík samfélög eru af öðrum lífsgæðum bæði áþreifanlegum og óáþreifanlegum. Umfang og eðli tjáningar opinberar þá stöðu sem þjóðir hafa meðal annarra þjóða og þá stöðu sem einstaklingar hafa meðal sinnar þjóðar. Þó er ekki til það samfélag í veröldinni þar sem fullkomið tjáningarfrelsi ríkir, ekki frekar en fullkomið jafnrétti eða friður. Kúgun og ofbeldi á sér hvarvetna stað í einni eða annarri mynd, á það vorum við enn og aftur minnt í liðinni viku í umfjöllun Kastljóss um miskunnar og gegndarlaust kynferðisofbeldi eins manns gegn fjölda barna og ungmenna á margra ára tímabili, víða um land. Enn og aftur vorum við minnt á það hvað tjáningin er mikilvægt vopn í baráttunni gegn óréttlæti og ofbeldi. Á sama tíma vorum við líka minnt á það hvað ofbeldi og kúgun hefur mikil áhrif á tjáningarfrelsi þeirra sem fyrir því verða. Það sem flestir þolendur kynferðisofbeldis eiga sameiginlegt er þögnin. Óttinn við að tjá hugsanir og líðan sem oft hljómar öfugsnúin í eyrum þeirra sem ekki hafa reynt eða þekkja til á faglegum grunni. Skömm, sektarkennd, sjálfsfyrirlitning ofl sem rökhugsunin ein gæti hafnað en tilfinningalífið rangtúlkað . Þögnin sem umlykur kynferðislegt ofbeldi á sér djúpar rætur í þjóðarsálinni sem er enn að þróa með sér þekkingu og vit til að bregðast við með skjótum og öflugum hætti. En okkur miðar áfram, um það vitnar Kastljósþátturinn góði, því hann var góður í sársaukanum sjálfum. Markmiðið er að skapa umhverfi sem gerir þolendum auðveldara um vik að greina frá reynslu sinni og skila skömminni og ábyrgðinni aftur til gerandans, þar sem hún á bara heima. Umfjöllun síðustu viku er ómetanlegt skref í þá átt, einn viðmælandi Kastljóssins sem var þolandi sem barn í sumarbúðum talaði einmitt um að þetta skref væri líklega skrefið sem losaði hann endanlega undan oki þagnarinnar. Tjáningarfrelsið er mælikvarði á allt þitt frelsi. Í huga þolandans er tjáningarfrelsið ekki bara möguleiki til að viðra skoðanir heldur tæki til að lifa af. Þess vegna er tjáningarfrelsið bókstaflega heilagt, það er frátekið mennskunni og mennska er allt það mikilvægasta og besta sem finna má í samfélagi okkar. Guð gerðist einmitt maður til að opinbera okkur hvað það þýðir í raun að vera manneskja. Guðspjall dagsins er eina bernskufrásögnin af Jesú í Nt. Sagan af því þegar hann sem 12 ára drengur verður viðskila við foreldra sína á páskahátíðinni í Jerúsalem. Þau fundu hann loks eftir þriggja daga angistarfulla leit um borgina helgu sem eflaust hefur tapað lit sínum um stund í augum hinna óttaslegnu foreldra. Og svo var hann bara í musterinu sjálfu, þar sem „hann sat mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum, “ eins og segir í textanum. Þetta er ekki bara saga af Jesú heldur tilmæli Guðs um að við hlustum á börn, heyrum það sem þau hafa að segja, ekkert af því sem guðspjöllin greina frá um líf og starf Jesú er uppfyllingarefni í skáldsögu, hver einasti kafli, málsgrein, setning og orð eru skýr tilmæli til okkar um það að vera ábyrgar manneskjur. Þessi bernskusaga er prédikun um helgi barnsins og tjáningarinnar. Hvort tveggja endurspeglar heilbrigði sérhvers samfélags þ.e. hvernig börn og tjáningarfrelsi þrífast. Þess vegna ber okkur ekki bara að virða tjáningarfrelsið heldur standa vörð um það. Og hvernig gerum við það? Jú með því að umgangast það eins og barn, með því að hlusta með allar gáttir opnar og með því að reynast góðar fyrirmyndir. Við viljum ala börnin okkar upp sem frjálsar og sterkar manneskjur og í því augnamiði eigum við líka að hlúa að tjáningarfrelsinu. Tjáningarfrelsið snýst ekki um það að segja bara það sem manni finnst heldur segja það sem skiptir máli. Tjáningarfrelsið á að vera farvegur breytinga, góðra breytinga, jafnvel þó að umbreytingin geti verið bæði erfið og sár. Við hlúum ekki að tjáningarfrelsinu með ritskoðun, boðum og bönnum heldur með því að lyfta upp manngildis og mannhelgissjónarmiðum í okkar eigin samfélagi. Tjáningarfrelsinu fylgir ábyrgð líkt og að ala upp barn, því fylgir sú skylda að maður hugsi tilgang orða sinna og hafi heiðarleika og umhyggju að leiðarljósi þegar þau eru rituð eða rædd. Einhverjir vilja meina að tjáningarfrelsið sé frelsið til að segja allt og kannski er það rétt en hvort það er gott er allt annar hlutur. Áramótaskaup sjónvarpsins varpaði í raun fram þeirri spurningu með sketsum um kommentakerfi netmiðla og kannski má heimfæra þær vangaveltur upp á almenna þjóðfélagsumræðu, hvor sem hún er á netinu eða í dagblöðum. Þegar við sjáum hvað tjáningarfrelsið er dýrmætt afl þeirra sem lifað hafa við ofbeldi og þöggun þá hljótum við að endurmeta gildi þess að geta tjáð okkur um allt og ekkert, rétt eins og foreldri sem sér að það er ekki sjálfsagt að eignast barn. „Já þau fundu hann loks eftir þriggja daga angistarfulla leit um borgina helgu sem eflaust hefur tapað lit sínum um stund í augum hinna óttaslegnu foreldra. Og svo var hann bara í musterinu sjálfu.“ Og hvar er það musteri? Ekki bara í borginni Jerúsalem svo mikið er víst, heldur hvar sem fólk er að finna, um gjörvallan heim og þess vegna, einmitt þess vegna er svo mikilvægt að vanda sig, manneskjur eru svo ótrúlega mikils virði og orð hafa svo gríðarlega mikil áhrif. Og ef við höfum það hvort tveggja í huga þá er tjáningarfrelsið ekkert annað en súrefni heilbrigðra samskipta. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen