Grundvallartraust

Grundvallartraust

Undrið að Guð gerðist maður í Jesú Kristi fyrir Heilagan anda miðlar okkur því dýpsta öryggi sem til er. Það segir okkur að grundvöllur tilverunnar er traustur – að við erum ekki látin eftir ein, að Guði er annt um okkur.

Við þekkjum öll svo vel boðskap jólanna: Barn í jötu, hirðar í haga, fjöldi himneskra hersveita - fegurð í hinu smáa, óttaleysi gagnvart undri og stórmerkjum, dýrð, friður. Hvað getum við meira sagt?

Kunnum við kannski framhaldið of vel til að þurfa að heyra það einu sinni enn? Hefur allt verið sagt sem segja þarf? Víst kunnum við framhaldið en þó er endurtekningin okkur svo dýrmæt, svo mikilvæg, svo nærandi. Og alltaf finnum við nýjan snertiflöt við boðskap jólanna, eða öllu heldur snertir innihaldið líf okkar á nýjan og nýjan hátt eftir því sem reynsla okkar og skilningur breytist og dýpkar.

Sjáum fyrir okkur barnið í jötunni. Stundum er sagt að kristin trú sé svo miklu meira en það. En hvar finnum við sterkara fyrir þeim friði og því öryggi sem trúin gefur en eimitt í þeirri frelsarans mynd? Barnið í jötunni er Guð og maður í senn. Hið mannlega birtir okkur traust barnsins til þeirra sem um það annast. Eins og barnið, vafið reifum og lagt í jötu, þannig erum við í faðmi Guðs: „Þín heilög návist helgar mannlegt allt, - í hverju barni sé ég þína mynd“ (Jakob Jóhannesson Smári, sálmabók þjóðkirkjunnar nr. 75).

Og í sömu mund birtist okkur ljómi Guðs dýrðar í þessu litla barni, fegurð lífsins að fullu í mynd hins smáa: „Það barn oss fæddi fátæk mær. Hann er þó dýrðar Drottinn skær. Hallelúja“ (Valdimar Briem, sálmabók þjóðkirkjunnar nr. 73). Eða eins og segir í Filippíbréfinu: „Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur“ (Fil. 2.6-7).

Undrið að Guð gerðist maður í Jesú Kristi fyrir Heilagan anda miðlar okkur því dýpsta öryggi sem til er. Það segir okkur að grundvöllur tilverunnar er traustur – að við erum ekki látin eftir ein, að Guði er annt um okkur. Og lok jarðllífs Jesú, krossdauði hans, birtir okkur nákvæmlega sama veruleika. Með því að fæðast inn í heiminn gaf Guð manneskjunni líf sitt. Og með því að láta mannlegt líf sitt eftir í dauða á krossi til að sigra niðurrifsaflið gaf Guð manneskjunni líf sitt – að eilífu.

Þannig eru þessar tvær sterku svipmyndir úr lífi Jesú báðar tákn þess að við hvílum örugg í hendi Guðs. Í upphafi var traustið grundvöllur lífsins – og við endalokin er traustið grundvöllur eilífðarinnar. Þegar við brjótum gegn elskunni – sem er óumflýjanleg staðreynd mannlegs lífs – eigum við þann snúningspall sem er fórn Jesú fyrir okkur, fórn fæðingar hans og dauða. Þar fæst bót við hinu sífellda meini brotinnar samvisku, þar er skjól fyrir vantrausti og siðrofi manneskju og samfélags. Og þar, í grundvallartraustinu sem er gjöf Guðs til okkar, finnum við þróttinn til að vera með í lífsverki frelsarans, og undirtaka englasöng í birtu trúarinnar sem gefur byr undir báða vængi.