Ný þýðing grundvallarrits

Ný þýðing grundvallarrits

Að mínu mati er mikill misskilningur að annað hvort verði að taka Biblíuna bókstaflega eða henni sé alls ekki tekið. Biblíuna er ekki hægt að taka bókstaflega. Telji menn það mögulegt verða þeir að taka fram hvaða Biblíu þeir ætli að "taka bókstaflega".
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
21. október 2007

Fyrir nokkrum árum var vinur minn að ljúka prófum í sagnfræði frá þýskum háskóla. Síðasta sumarið hans í námi var honum sett fyrir að lesa Biblíuna. Prófessorinn hans sagði honum að engin ein bók hefði haft jafn mikil áhrif á vestræna menningu, listir og löggjöf og Biblían. Því lærði maður ekki sögu í evrópskum háskóla nema að lesa Biblíuna. Vinur minn var dálítið glottandi þegar hann sagði mér frá þessu því hann hefur aldrei talist biblíufastur maður.

Til að skilja Biblíuna er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að hún er í raun ekki ein bók heldur mikið ritsafn sem varð til á löngum tíma. Enginn veit með vissu hversu gömul elstu ritin eru. Burtför Hebrea úr Egyptalandi gæti hafa verið um 1300 fyrir Krist, ríki Davíðs er talið hafa staðið um 1000 fyrir Krist og herleiðingin til Babýlon hófst 587 fyrir Krist. Yngstu rit Gamla testamentisins eru frá því um 300 fyrir Krist en elstu rit þess nýja á að giska 400 árum yngri.

Kólumbus sigldi frá Spáni árið 1492. Engar smáræðis breytingar hafa orðið í veröldinni frá þeim atburði fram á okkar daga. Aldur rita Biblíunnar spannar meira en tvisvar sinnum þann tíma. Ritin urðu til á mörgum mismunandi tímum og þau voru skrifuð af alls konar fólki í ýmiskonar þjóðfélagsaðstæðum auk þess sem þau eru sjálf mjög mismunandi að gerð.

Þess vegna er engin ein guðfræði í Biblíunni. Þar er að finna margar hugmyndir um Guð og hin hinstu rök tilverunnar. Engin ein siðfræði er á sama hátt í öllum hinum fjölbreytilegu ritum Biblíunnar heldur er þar fjöldinn allur af ólíkum siðferðilegum sjónarmiðum.

Kristnir menn trúa ekki á Biblíuna sem slíka enda höfðu þeir framan af mjög takmarkaðan aðgang að henni. Til dæmis er talið að sjálf heilög Teresa hafi lengst af aldrei lesið Biblíuna. Bókin góða þótti hvorki kvenna né leikmanna meðfæri á tímum Teresu. Þó var hún tekin í dýrlingatölu og hlaut fyrst kvenna þann sess að vera útnefnd ein af lærimeisturum kirkjunnar.

Til að finna siðfræðilegan og guðfræðilegan samhljóm í Biblíunni er farin sú leið að túlka það sem þar stendur. Þá er sumum textum gefið meira vægi en öðrum og reynt að lesa það sem milli línanna leynist. Hugað er að merkingu orða og hugtaka og ljósi þeirrar þekkingar sem við höfum á ritunartíma Biblíunnar brugðið á það sem þar stendur.

Að mínu mati er mikill misskilningur að annað hvort verði að taka Biblíuna bókstaflega eða henni sé alls ekki tekið. Biblíuna er ekki hægt að taka bókstaflega. Telji menn það mögulegt verða þeir að taka fram hvaða Biblíu þeir ætli að "taka bókstaflega".

Er það sú íslenska eða sú gríska?

Biblíuna verður að túlka - eins og annað sem við lesum, heyrum eða sjáum.

Biblían er samt óumdeilanlega trúarrit kristinna manna. Þeir leita þangað til að dýpka og skerpa trú sína. Kristnir menn hafa fundið svör við knýjandi spurningum í Biblíunni. Siðferði þeirra og trú hefur mótast af heilagri ritningu og textar hennar hafa veitt þeim huggun og styrk. Síðast en ekki síst eru sögurnar af Jesú í Biblíunni, guðspjöllin, helstu heimildirnar um líf, störf og kenningar frelsarans.

Til hamingju með nýja Biblíuþýðingu!

Umræður um þennan pistil fara fram á annál Svavars