Arkitekt óreiðunnar

Arkitekt óreiðunnar

Það er ekki til sú umgjörð, ferkantaður kassi, skúffa, vasi, poki sem hægt er að setja lífið í og það haldi eins og við vildum hafa það. Lífið finnur sér alltaf leið til að fara og öðlast frelsi frá þeirri hugsun sem við höfum á lífinu, að það eigi að vera. Það er ekki til bein lína á milli lífsins og veruleikans eins og við könnumst við hann.

Og hann sneri sér að lærisveinum sínum og sagði við þá einslega: „Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.“

Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: „Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“

Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“

Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa.“

En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“

Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.'

Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?“

Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum.“

Jesús sagði þá við hann: „Far þú og gjör hið sama.“ Lúk. 10.23-37

Það er ekki til sú umgjörð, ferkantaður kassi, skúffa, vasi, poki sem hægt er að setja lífið í og það haldi eins og við vildum hafa það. Lífið finnur sér alltaf leið til að fara og öðlast frelsi frá þeirri hugsun sem við höfum á lífinu, að það eigi að vera. Það er ekki til bein lína á milli lífsins og veruleikans eins og við könnumst við hann. Sú lína er aðeins til í höfðinu en ekki í raunveruleikanum. Það er ekkert línulegt nema við sköpum það og viljum hafa það svo í kringum okkur, en lífið það getur svo oft verið okkur erfitt vegna þess að við getum ekki sett mælistiku á það. Veitt því í áveituskurð sem framleiðir orku gleði og eilífrar hamingju. Meira að segja áveituskurður hamingjunnar vill bresta og við stöndum hjá mitt í óreiðu þeirri sem við þráum innst inni að vera ekki hluti af. Viljum helst hlaupa frá og hugsunin um hvers vegna getur lífið ekki verið skapað af arkitektastofu í Kópavoginum og maður hafi eitthvað um það að segja. Þá væri lífið svo miklu einfaldara. Heldur en sá arkitekt lífsins sem hendir í okkur teikningu óreiðunnar og við allt lífið að basla við að koma skiljanlegri mynd á.

Rétthyrnt réttlæti

Samskipti okkar við hvert annað væri á allan hátt skilvirkara og einfalt. Rétthyrnt á allan máta. Hjá því er ekki hægt að horfa að við mennirnir höfum löngum átt erfitt með að sætta okkur við þá óreiðu og þá tilviljun sem líf okkar er háð og við höfum ekkert um það að segja. Afleiðingin þessa er sú að við manneskjurnar spyrjum okkur í dag eins og Lögvitringurinn í guðspjallinu sem lesið var hér áðan vildi fá að vita. “Meistari, hvað á ég að gjöra til að öðlast eilíft líf.”

Undirliggjandi í spurningunni er: Hver er tilgangur lífsins. Hvernig get ég orðið hamingjusamur/söm. Hvað á ég að gera til að öðlast sælu. Ef eitthvað er þá hefur þessi spurning sótt aldrei sem fyrr á nútímamanninn þegar lífsbaráttan snýst ekki um að veiða sér til matar eða standa úti á akri daginn langan til að hafa í sig og á. Líf nútímannsins snýst meira um “mig” sjálfan. Á hvern hátt get ég öðlast hamingju og eilífðar sælu. Að því marki má helst ekkert vera á veginum sem getur seinkað og það sem verra er hindrað mig í því að ná og íklæðast hamingjunni.

Elska skaltu

Á ferð okkar á á rykugum og oft holóttum vegi lífsins hittum við fyrir náunga okkar. Einhverjir þeirra kunna að veita okkur hlutdeild í lífi sínu. Með gleði og eða eru til ama og hindra okkur ómeðvitað á þeirri ferð sem við erum í átt að hamingjunni. Við eru fljót að læra á bresti náungans og sjáum af mílu fjarlægð þegar þeir nálgast og við tökum frekar á okkur krók heldur en að eiga samskipti við þann sem gæti hindrað för okkar með óþarfa veseni.

Páll postuli talar um í bréfi sínu til Galatamanna “Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.” Einfalt og auðvelt að skilja. Lögvitringurinn í guðspjallinu spurði “Hver er þá náungi minn?” Ef við erum spurð þessarar spurningar færum við eflaust að leita í ferköntuðum kössum og skúffum lífs okkar og grömsuðum eilítið í þeim þar til að við kæmum með svar sem gæti passað innan ferkantaðs ramma lífs okkar sem við höfum slegið upp í kringum okkur.

Látum vera að lögvitringurinn hafi spurt þessarar spurningar til að réttlæta sjálfan sig, þá var þetta góð spurning og í raun bráðnauðsynleg til að leiða okkur inn í hið nýja lögmál Guðs ríkis á jörðu. Hver er náungi minn? Þess er spurt enn í dag. Sú spurning mun líka hljóma á morgun. Því hefur verið svarað og sömuleiðis hvernig mér ber að koma fram við náunga minn. Samt er endalaust hægt að velta sér upp úr hugsunarvillu hroða til þess eins að komast að einhverri annari niðurstöðu en þeirri að náungi minn ert þú, hvernig sem þú ert, og hvar sem þú býrð. Eitt er að þekkja og annað að fara eftir. Eins og ég ýjaði að hér áðan þá erum við oftar en ekki tilbúin að líta á minnstu misfellu náungans og dæma hann út frá því.

Við skulum hafa í huga að allt starf mannúðarsamtaka er byggt á þeim texta er lesin var frá altarinu hér áðan um kærleikann. Ekki skiptir máli hver það er sem þarfnast hjálpar heldur skal hjálpa hverjum þeim sem er í nauðum staddur. Hvort sem fólk þjáist vegna flóða í miðevrópu, fólk sem svipar til okkar eða manneskjur í svörtustu Afríku það er skylda okkar að rétt því hjálparhönd. Þessa hugsun leiðir Jesú okkur inn á með sögunni um miskunnsama Samverjann – útlendinginn í í Palestínu – gyðingar vildu ekki eiga nein samskipti við þá. Í þeirra augum voru voru Samverjar óhreinir, áttu ekkert gott skilið af náunganum í huga innfæddra. Þrátt fyrir það hjálpar Samverjinn innfæddum manni.

Með öðrum orðum er Jesú að að opinbera hið nýja lögmál Guðsríkis. Opinbera veru Guðs og vilja. Hann sagðist aldrei vera að afnema lögmál Móse. Hann afnæmi ekki lögmálið heldur láti það ná sínum fulla rétti.

Það eitt að hjálpa náunganum er ekki nóg. Siðferðilegi mælikvarðinn er ekki framar lagður á ytri verkin ein heldur í djúp mannsálnana á hugsanir, tilfinningar og vilja.

Það er ein hugsun fremur sem má finna í sögunni um miskunnsama Samverjann. Þá hugsun tjáði Jesú með lífi sínu. Virðing og lotning. Virðing og lotning fyrir náunganum og sjálfum sér.

Dauð trú

Ætla skildi að svar Jesú við spurningu lögvitringsins, hvað hann ætti að gera til að öðlast eilíft líf yrði á einhvernvegin á þann hátt að hann ætti að trúa á Guð. Það var öðru nær. Prestur og leviti í dæmisögunni gengu báðir framhjá særða manninum á vegkantinum. Þeir voru trúaðir menn. Þjónar Guðs á jörðu. Þeir létu sig engu varða særða manninn sem þarfnaðist aðstoðar, létu sem þeir sæu ekki náunga sinn. Við vitum að það er til allskonar trú. Trú á mátt sinn og megin. Það er til öfgatrú sem eirir engu í nafni trúarinnar. Trúaður sem er tilbúin til þess að fordæma náungann, vegna kynhegðunar. Það er til trú sem er rúin lífi og anda. Trú sem ekki fær mann til að standa upp af líkama og sálu og gera eitthvað náunganum til hagsbóta er dauð trú. Eins og íllgresi sem kæfir hið fagra.

Það er ekki nóg að vera kirkjurækinn. Að fara með bænirnar sínar á hverju kvöldi og þakka Guði fyrir að vera ekki eins og hinir. Trúin þarf að vera sýnileg í lífi þínu. Eða sagði ekki Jesú við lögvitringinn: “Þú skalt elska Drottinn Guð þinn af öllu hjarta. Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig.”

Við eigum að elska okkur sjálf, það er ekkert að því svo framalega að sú elska birtist í náunganum. Við ætlum það besta í fari náungans þar til annað gæti komið í ljós. Sem betur fer fáum við oftar en ekki að heyra sögur af hjálpsemi manneskjunnar í garð náungans. Án þess að ætlast til neins á móti. Þá læðist að sálartetrinu sælu tilfinning að manneskjan þrátt fyrir allt getur ef viljinn og áræðninn sé fyrir hendi látið gott af sér leiða í þágu þeirra sem minna mega sín eða lent í aðstæðum sem erfitt er að komast frá nema að treysta á hjálpsemi náungans sem á leið hjá. Við viljum sjá okkur sjálf rétta náunganum hjálparhönd. Við eigum erfitt með að sjá okkur í því að ganga eða fara framhjá þeim sem hefur á einhvern hátt ratað í neyð eða lent í aðstæðum sem erfitt er að finna leið út úr án hjálpar þeirra sem framhjá fara.

Hjálpsemi

Ég heyrði viðtal í útvarpinu fyrir mörgum árum síðan við mann sem lenti í þeim ósköpum að missa stjórn á ökutæki sínu ekki langt fyrir neðan Skíðaskálann í Hveradölum. Útafkeyrslan var til þess að gera ekki alvarleg að hann slasaðist en þurfti á hjálpsemi náungans að halda til að komast til bæinn og sækja aðstoð. Þetta var að kvöldlagi og skyggni lélegt. Einn og einn bíll ók framhjá án þess að ökumenn eða farþegar gættu að manninum sem stóð við bílinn. Eftir dágóða stund gafst hann upp og hélt af stað fótgangandi yfir hraunbreiðuna. Kemur hann kaldur og blautur að Litlu kaffistofunni, sár og reiður út í samborgara sína. Vertinn og hans fólk tók vel á móti aðkomumanni og eftir að hann hafði sagt þeim sögu sína og gerðar voru viðeigandi ráðstafanir að sækja bílinn. Fólkið í kaffistofunni kippti sér ekki mikið upp við þessa raunarsögu mannsins og sögðu honum að það liði vart sá dagur að ekki komi einhver ferðalangur sem svipað væri ástatt um og hjá honum. Þegar ég heyrði þessa sögu fór ég strax að fletta til baka hvort ég hafi verið á ferðinni á þessum slóðum á þeim tíma sem þetta gerðist. Ég var fegin að svo var ekki og hugsaði með mér, ef svo hefði verið þá hefði þessi náungi minn aldrei þurft að koma í fjölmiðla og segja frá afskiptaleysi náungans. Því auðvitað hefði ég stoppað og tekið manninn blautan og hrakin upp í bílinn minn og hlúð að honum. Ég er auðvitað ekki eins og allir hinir sem fóru hjá og skeyttu engu um náunga sinn í raunum. En hverjir skyldu vera þessir hinir?

Ég fór að róta til í hirslum hugans um þessa hina sem láta sig náungann ekki varða og það sem kom mér á óvart að ég hitti fyrir sjálfan mig. Það var sama hvað ég reyndi og djúpt ég gróf. Alltaf skyldi ásjóna mín blasa við mér. Andlit afskiptaleysis og skeytingaleysis gagnvart náunga mínum er ekki eitthvað sem hægt er að finna og þreifa á hjá öðrum en sjálfum sér.

Það er ekki og hefur aldrei verið auðvelt að lifa sem manneskja í heiminum. Í heimi þar sem öllu ægir saman. Hið góða og hið ílla takast á um okkur.

Þar sem við göngum eftir vegi lífsins þá er allt í lagi að líta í kringum sig og uppgvöta að veröldin er margbreytileg. Við getum gengið vegin á enda án þess að gefa því gaum, án þess að vera hluti af því sem liggur við vegbrúnina.

Lögvitringurnn spurði um tilgang lífsins. Tilgangur lífsins er ekki sá aðeins að þiggja og taka á móti án þess að gefa nokkuð af sjálfum sér. Samverjinn gaf sig manninum sem lá særður við vegkantinn. Þetta var ekki sýn sem hann hefði helst kosið, en hún var raunveruleiki sem takast varð á við.

Margbreytileiki lífsins býður okkur hverju og einu án þess að neyða því upp á okkur að taka á móti lífinu í öllum regnbogans litum og manneskjunni með og elska hans eins og hún kemur okkur fyrir sjónir. Lífið getur verið einmana manneskja í næsta húsi og barn sem hefur ratað í nauðir eða lífið kallar á okkur að vera tilbúin að beygja af veginum eitt augnablik og veita þeim hjálp sem á þyrfti að halda. Ef við hlýðum því kalli, sem hljómar innra með hverjum manni finnum við hamingjuna, sem við öll þráum og sækjumst eftir.

Að vera einhverjum til gagns, einhverjum til uppörvunar eru mestu gæði sem nokkurri manneskju getur hlotnast.

Sá eða sú sem elskar er sáttur/ sátt við sjálfa/an sig. Utan um þá elsku er ekki hægt að slá neinu sem getur hamið þá hamingju sem því fylgir að uppgvöta að breytni manns til betri vegar gagnvart náunganum er hið eina sanna réttlæti. Réttlæti hið innra, hjarta og hugar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen