Spádómurinn rættist

Spádómurinn rættist

Í hundruði ára var koma Frelsarans boðuð en þegar hann kom þekkti heimurinn hann ekki.
fullname - andlitsmynd Bryndís Svavarsdóttir
25. desember 2019
Flokkar

           Spádómurinn rættist       Jes 62.10-12, Tít 3.4-7, Jóh 1.1-14

Við skulum biðja… Við þökkum þér Drottinn fyrir að þú sendir okkur einkason þinn, því í honum er líf og hann er ljós mannanna. Opnaðu hjörtu okkar fyrir fagnaðarboðskap þínum, að við hleypum ljósinu inn og bægjum myrkri frá. Við lofum þig og þökkum þér. Amen

 Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Já, Jesaja sagði: Gangið út og greiðið götu þjóðarinnar því að hjálpræði þitt kemur og sigurlaunin fylgja honum. Já, fæðing Jesú breytti eða endurbætti áætlun Guðs um frelsun manna og allt NT boðar með einum eða öðrum hætti Ríki Guðs. Sigurlaunin sem Frelsarinn færir okkur eru eilíft líf í ríki hans, því þeir sem trúa á Jesú, verða endurleystir frá synd og fá aðgang að borginni helgu sem verður aldrei yfirgefin.

Spámenn GT voru óþreytandi að boða komu Frelsarans. Harður og hvass boðskapur þeirra, um nauðsyn þess að snúa við lífsstílum og taka til í hjartanu, gerði þá ekki vinsæla meðal almennings. 
Boðskapur NT er í raun og veru sá sami, að vísu boðaður á kærleiksríkari hátt en málið er að við þurfum að taka til í hjartanu og búa okkur undir að Frelsarinn komi aftur.

Guðspjallið er líka með frásögn af spámanni Guðs, það sagði: “Maður kom fram, sendur af Guði. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það”. Þetta er boðskapur jólanna. Á hverju ári erum við ekki aðeins minnt á, að konungur alheimsins fæddist í fátæklegu fjárhúsi hér á jörðu,  heldur einnig, að fæðing hans var uppfylling á spádómi sem var hrópaður úti á götu, af spámanni Guðs, fyrir þúsundum ára, og spádómurinn rættist... Hið sanna ljós kom í heiminn.

Í hundruði ára var koma Frelsarans boðuð en þegar hann kom þekkti heimurinn hann ekki. Hann kom sem lítið og ósjálfbjarga barn, fáir vissu af komu hans og fáir fögnuðu honum. Hann kom ekki til að dæma heiminn heldur til að frelsa hann og öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Merkingin bak við að trúa á nafn einhvers, var að trúa því, hver hann væri. 

Við fengum rétt til að vera börn Guðs,  en við verðum það ekki sjálfkrafa. Frá upphafi tímans hefur maðurinn átt þetta val, að trúa á Guð eða hafna honum. Hjá Guði er ekki til neitt sem kallast hlutleysi. Jesús sagði sjálfur, sá sem er ekki með mér, er á móti mér og Sá sem safnar ekki saman með mér, sundur dreifir.  Kannski er þetta jafn harður boðskapur og hjá spámönnum GT en það er þetta að verða að taka afstöðu. Í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum í lífinu erum við alltaf að taka afstöðu. Okkar innri maður metur allt sem augað sér og eyrað heyrir, hvort sem við látum það uppi eða ekki.

Fólk getur talað um veður, færð og stjórnmál við alla en Guð er sjaldnar til umræðu. Kannski hefur þetta alltaf verið svona… kannski er það ástæða þess að Guð setti það í hjörtu spámanna að hrópa boðskapinn á götum úti, svo enginn missti af orði Guðs. Spámennirnir voru útvarp þess tíma… og allt til okkar tíma hafa menn þurft að finna ákjósanlegasta farveginn til að flytja boðskapinn áfram af lifandi krafti… til að vekja alla til trúar á ljósið sem kom í heiminn á jólanótt.

Enn einu sinni eru komin jól. Við förum í kirkju, fáum boðskapinn beint í æð og fögnum hátíð ljóss og friðar. Aðventan er liðin og allur undirbúningur jólanna yfirstaðinn, yngsta kynslóðin beið eftir aðfangadegi með óþreyju… en loksins eru jólin komin. Úti er myrkur en inni fyllum við hvern krók og kima af hátíðleik með öllum jólaljósunum. Hið sanna ljós lýsir í sálinni. Hann er ljósið sem skín í myrkrinu. Þetta er tími gleði og friðar, tími minninga td um æskujólin eða tími söknuðar vegna þeirra sem hafa kvatt og farið á undan okkur. Við höfum sent kveðjur til vina og kunningja, við njótum samvista með okkar nánustu, borðum góðan mat og gefum gjafir. 

Gjafir spila stórt hlutverk á jólum. Við minnumst þess að nóttina sem Jesús fæddist fékk allur heimurinn gjöf frá Guði, við fengum öll sömu gjöfina. Jesúbarnið í jötunni. Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Guð vill ekki að neinn glatist. Guð gaf sína dýrmætustu gjöf, gjöf sem ekki er hægt að pakka inn og aðeins hægt að taka við í hjartanu. En þegar við höfum tekið við þessari dýrmætu gjöf, hefur náð Guðs frelsað okkur, við erum endurfædd sem börn hans, við höfum gefið Guði okkur sjálf.

Jólin minna okkur á hver er frelsari okkar… og að það skipti miklu máli að taka ákvörðun um hverjum við tilheyrum, því Jesús er ljós eilífs lífs, á honum hvílir höfðingjadómur. Hann er konungur alheimsins, og aðeins í gegnum hann eignumst við eilíft líf.  

Biðjum og þökkum Guði fyrir kærleika hans til okkar. Drottinn Jesús Kristur þú ert hið sanna ljós sem lýsir öllum þjóðum. Lát birtu þess einnig ljóma inn í hjörtu okkar og huga, svo að í okkur verði ljós af þínu ljósi til að lýsa upp myrkur þessa heims. Því að þú lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda að eilífu. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

25.des 2019 kl 14 í Haga kirkju á Barðaströnd