Pollapredikun

Pollapredikun

Það er ekki allt sem sýnist og víst eru hugmyndir okkar um trúna margvíslegar. Ég tefli þessari útgáfu fram, innblásinn af andtaktugri dótturdóttur minni þar sem hún stóð frammi fyrir pollinum góða á göngustígnum.

Að vera úti í rigningu með eins og hálfs árs gömlu barni getur verið merkileg reynsla. Ég er svo lukkulegur að eiga afadóttur og einn rigningardaginn síðastliðið vor, gengum við eftir stígnum milli Meistaravalla og Hofsvallagötu.

Merkispollur

Ég hafði ekkert á móti því að fara að komast heim í skjól. Sú stutta var á hinn bóginn nýfarin að ganga, svo að segja, svo það var hægagangur á okkur í orðsins fyllstu merkingu en eitthvað þokuðumst við þó áfram.

Svo stöðvaði hún skyndilega gönguna og neitaði að halda áfram. Hún stóð bergnumin fyrir framan það sem við henni blasti. Það var ofurvenjulegur drullupollur, kannske af stærri gerðinni, en það var víst alveg nóg af þeim þarna í kringum okkur. Já, og hvað skyldi ég hafa séð marga slíka á hálfri öld? Engin leið er að kasta tölu á þau ósköp. Og hvað er langt síðan slík fyrirbæri vöktu hjá mér einhverja gleði? Einhvern tímann í fyrndinni öslaði ég á nokiastígvélum út í leirbrúnt vatnið og undi mér við stíflugerð og bílaumferð en þeir dagar eru víst liðnir.

Fyrir litla dömu var þetta á hinn bóginn merkileg uppgötvun. Pollur þessi var einn af fáum sem hún hefur séð og loks þegar hún fékkst til þess að færa sig úr stað þá lá leiðin beint út drulluna. Þar stóð hún svo sigri hrósandi og leit á mig með bros um allt andlitið, eins og hún hefði synt yfir Fossvoginn og öslað í landi í Nauthólsvíkinni. Ég gat ekki annað en hrifist með.

Furðan og undrið

Þegar ég var svo að brjóta heilann um texta dagsins þá kom þessi minning upp í hugann. Jú, þótt reglan sé sú að við kennum og börnin nemi, þá eiga þessi hlutverk það til að snúast við. Í þessu tilviki minnti ungviðið mig á sjálfa listina að undrast, að taka eftir hinu hversdagslega og velta vöngum yfir umhverfinu, heiminum og því undri lífs sem birtist okkur við hvert fótmál. Í hennar tilviki er líftíminn að baki svo skammur að það er nóg til að furða sig á. Þegar á ævina líður þá snýst þetta við og við skynjum að lífið styttist í hina áttina. Pollarnir á vegi okkar verða ekki endilega neitt svo margir í framtíðinni þótt við höfum arkað framhjá þeim ótalmörgum á lífsgöngunni.

Þegar ég hugleiddi þetta nánar, þá gat ég rifjað upp að hér á Torginu í Neskirkju hafa listamenn einmitt fangað þessa fánýtu, já einskis nýtu, hluti á filmu og fest upp á vegg. Hrafnkell Sigurðsson hengdi upp myndir af rusli og ein þeirra rataði í íslenska sendiráðið í París. Daniel Reuter tók meira að segja gullfallega svart hvíta mynd af polli sem var hér til sýnis. Var þetta listrænt innsæi barnsins sem fékk mig til að staldra við í rigningunni og er það hin sama snilligáfa sem listamaðurinn hefur varðveitt í brjósti sínu?

Að trúa er að sjá

Það er hægur vandi að sjá sammerki milli trúar og listar og svo listarinnar að sjá og greina fegurðina í umhverfi sínu. Enskir eiga orðatiltækið, „seeing is believing“ sem við getum orðað „að sjá er að trúa“. Það er einmitt þetta sem fjallað er um í textum dagsins:

„Fyrir trú skiljum við að Guð skapaði heimana með orði sínu og að hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega.“ segir í þekktum texta Hebreabréfsins. Já, hvað er sýnilegt og hvað er ósýnilegt? Það er jú svo margt sem fyrir augu okkar ber og við sjáum ekki. Og líka svo margt sem við ekki greinum að baki yfirborðinu.

Karen Armstrong sá afkastamikli höfundur rita á sviði trúarbragða lýsti þeirri skoðun í viðtali fyrir nokkrum árum að trúin væri sannarlega göfugur eiginleiki. Hún lýsti trúarreynslunni með orðinu transendens – eða því að ganga út úr sjálfum sér. Það er, að hafa geta yfirgefið þá þröngu sýn sem okkar eigin hagsmunir og forsendur setja. Trúin kallar á auðmýkt og undirgefni – ekki fyrir hinu tímanlega og hverfula – heldur bendir hún til æðri veruleika og eilífðar sem setur mark sitt á afstöðu okkar til þess sem fram fer í kringum okkur. Hluti af því er að sjá það sem augun hefðu öðrum kosti ekki veitt neina athygli, að umfaðma lífið í allri sinni margbreytni.

Það er þó ekki sjálfgefið að trúin leiði okkur á þessar brautir. Bókstafstrú býður ekki upp á þessa sýn. Hún misnotar göfugustu kenndir okkar og færir trúna í fjötra fastmótaðra siðvenja og skilyrtrar hegðunar. Sinnuleysið skilur okkur eftir í heimi án tilgangs og æðri merkingar. Þá förum við á mis við þá djúpstæðu tilfinningu að líf okkar sé þrungið merkingu. Þannig falla margir yfirlýstir trúmenn ekki undir þetta trúarhugtak og að sama skapi eru held ég til sanntrúaðir trúleysingjar.

Að sjá er að trúa. Við getum líka snúið því við: að trúa er að sjá. Sjá, og undrast, rétt eins og litla hnátan gerði yfir hinum ofurhversdagslega polli í rigningartíð í Reykjavík.

Að trúa er að hlusta

Að trúa er líka að hlusta. Við getum tamið okkur leggja eyrun við því sem aðrir hafa að segja, lært af og orðið ríkari. Hvað gerum við annars þegar við hlýðum á frásögn annarrar manneskju? Bíðum við sjálf eftir því að komast að og segja okkar sjónarmið? Hversu oft gefum við okkur tíma til hlusta? til að nema og læra og finna hvernig maður er manns gaman og samræðan eflir þau sem taka þátt í henni?

Nú á fimmtudaginn efndum við til samkomu fermingarbarna og foreldra hér í Neskirkju. Foreldrar spurðu börnin út úr þáttum sem tengdust þeirra eigin unglingsárum og krakkarnir spurðu út frá sínum veruleika og menningu. Úr varð alveg dásamleg stund þar sem fólk á öllum aldri hló dátt og skemmti sér. Þarna var líka málþing þar sem fulltrúar hópanna ræddu það hvernig þau sjá lífið og heiminn. Eftir stóð þessi hugsun að við mættum gefa okkur meiri tíma til að leggja eyrun við því sem aðrir hafa að segja, ekki til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri, heldur bara til að hlusta og lifa sig inn í aðstæður annarra. Þessi hugsun birtist okkur jú svo víða í boðskap Jesú sem talaði um það sem hina æðstu lífslist að setja sig í spor náungans. Er það ekki inntak gullnu reglunnar?

Það er ekki allt sem sýnist og víst eru hugmyndir okkar um trúna margvíslegar. Ég tefli þessari útgáfu fram, innblásinn af andtaktugri dótturdóttur minni þar sem hún stóð frammi fyrir pollinum góða á göngustígnum. Í guðspjalli dagsins talar Jesús um trúna og dregur fram mynd af okkur sem trúlitlum einstaklingum, „ef þér hefðuð trú eins og þetta mustarðskorn…“ segir hann. Og í framhaldi leggur hann til þessa mynd af lífi hins trúaða – sem kann að vera mjög ólík þeim hugmyndum sem margir hafa enn í dag í þessum efnum – að hin góðu verk spretti náttúrulega fram af kærleikanum.

Það er ekki svo að góðu verkin séu unnin í því skyni að hljóta umbun, þessa heims eða annars. Nei, þau eru eins og ávextir sem vaxa af góðum stofni. Að sjá er að trúa – nú eða þá á hinn veginn: að trúa er að sjá.

Þannig fær trúin okkur til að líta á heiminn heiminn sem stórfenglegt kraftaverk. Að horfa á okkur sjálf, sköpuð í mynd Guðs. Að sjá í náunga okkur sjálfan tilgang lífsins og andlag alls þess sem gefur þvi gildi.