Himnesk jörð

Himnesk jörð

Sögur Biblíunnar eru ekki ósvipaðar listaverkum sem hvetja okkur til að spyrja og leita sjálf svara. Sú leit er sístæð og það er mikilvægt að við bindum ekki enda á hana með yfirborðslegum svörum eða einhverjum sleggjudómum.

Flutt 7. janúar 2018 í Neskirkju

Þá er kominn nýr taktur í tilveruna. Jólin eru að baki og þjóðin rís úr rekkju eins og nývaknaður unglingur á mánudagsmorgni. Já, þjóðarlíkaminn er nýkominn til meðvitundar eftir að hafa undanfarna daga lúrt frameftir og hundsað flestar reglur á sviði lýðheilsu og betri vitundar.

Áróðurinn að loknum jólum

Þá dynja á okkur skilaboðin og gildir einu hvort það er í fjölmiðlum, netinu eða í spjalli fólks. Við heyrum af kúrum og líkamsrækt og tilboðin berast úr öllum áttum. Ekki skortir fyrirmyndirnar – þessa dugnaðarforka sem synda í jökulköldum sjó, klífa fjöll og lyfta einhverjum ósköpum í bekkpressu! Þeir reyna að höfða til okkar betri manns. Fyrirsagnirnar eru allar á sömu lund: Sigraðu sjálfan þig, byrjaðu nýtt líf, bættu heilsuna! Láttu ekki hinar óæðri hvatir stjórna þér í hvívetna reyndu frekar að hemja þær og aga!

Já, það er hvergi skjól að fá fyrir þeim áróðri öllum, og hafið þið sem vermið nú kirkjubekki ímyndað ykkur að eitthvert lát yrði þar á, þá hefur ykkur skjátlast hrapalega. Textar Biblíunnar hafa frá fornu fari verið valdir af kostgæfni fyrir hvern helgan dag ársins. Á fyrsta sunnudegi eftir þrettándann má segja að við séum ávörpuð í leit okkar að betra lífi, lífsfyllingu og ríkulegum tilgangi. Ritningin talar til okkar í dag sem fólks, er hungrar og þyrstir eftir því sem gefur lífinu gildi og fyllir það tilgangi.

Í lexíunni er sálin sögð vera eins og hind sem þráir að drekka af vatnslindunum. Postulinn brýnir fyrir söfnuðinum í Rómaborg að lifa verðugu og guðrækilegu lífi. Þar greinir hann á milli sannrar guðsdýrkunar og svo háttsemi þessa heims. Er það ekki ámóta hvatning og ómar svo víða þessa dagana?

Guðspjallið fjallar um leitandi fólk. Í þessu tilviki hafa söguhetjurnar glatað því sem er dýrmætast í lífi þess og æða nú um í angist sinni. Í anda þess sem fyrr er sagt getum við sett okkur í spor þeirra Maríu og Jósefs. Hvað vakir fyrir þeim? Jú, þau eru pílagrímar í borginni helgu Jerúsalem og á leiðinni heim átta þau sig á því að Jesús er týndur. Þetta er martröðin mikla, barn er horfið í mannþrönginni og foreldrarnir varpa öllu frá sér til að geta fundið það og endurheimt. Þessi örsaga sem guðspjallamaðurinn Lúkas geymir af Jesú á sínum ungdómsárum hefur ýmsar víddir. Hér verður hún túlkuð sem lýsing á fólki sem telur sig hafa glatað því sem er því kærast og leitar þess nú í dauðans ofboði.

Sýning Kristjáns Steingríms

Landið helga, er vettvangur þessara frásagna. Þegar Kristján Steingrímur Jónsson, myndlistarmaður tók að sér það verkefni að halda hér málverkasýningu sem myndi prýða sali torgsins yfir jólin þá má segja að hann hafi gerst pílagrímur. Hann fór í sína Jórsalaför eins og kristnir íslendingar á miðöldum nefndu það er þeir sóttu heim borgina helgu. Í anda jólanna þá vitjaði hann borgarinnar Bethlehem þar sem „er barn oss fætt” eins og segir í textanum. Hann náði sér í sand af jörðinni og fór svo inn í fæðingarkirkjuna þar sem hann stóð innan um fjölda pílagríma. Fólk mændi upp á minnisvarða og ýmsa merka reiti í þessum helgidómi. Kristján Steingrímur leit niður fyrir fætur sína og sótti mylsnu sem lá þar á gólfinu.

Er heim kom, vann hann málningu úr sandinum en mylsnuna setti hann í víðsjá og dró upp á blað það sem blasti þar við augum. Ég nefni hann í eintölu sem er þó ekki alls kostar rétt. Hann var ekki einn á þessari ferð. Eiginkona hans, Hrefna Birna Björnsdóttir festi gjörninginn á filmu og við fáum að horfa á brot af þeirri upptöku, nú að lokinni messu.

Við sem erum svo lánsöm að eiga erindi hingað svo gott sem daglega og verjum hér alveg örugglega langflestum birtustundum sólarhringins, í það minnsta um þetta leyti árs, getum ekki annað en látið hugann reika um listina sem prýðir veggina. Verkið, „Jörð” kallar fram ýmsar hugrenningar. Hvað er efni? Hvað er jarðvegur? Ef staður er helgur og nátengdur leit mannsins að tilvist og tilgangi – hvað þá með moldina sem eru undir fótum fólks, sandinn sem fýkur um göturnar og frjókornin sem berast með rykinu inn á gólf.

Himnesk jörð

Pílagrímar forðum daga leituðu hins efnislega þegar þeir fóru um merka staði. Hið jarðneska hefur alla tíð haft sérstakan sess í hugum kristinna manna. Í Hómilíubókinni sem geymir predikanir frá miðöldum er því haldið fram að öll höf jarðar geymi vígt vatn, fyrst Kristur var skírður upp úr ánni Jórdan. Hún rennur jú út í sjó og samlagast þar því ótæpilega vatnsmagni sem í úthöfunum er.

Auður djúpúðga, kristna landnámskonan hafði þetta í huga þegar hún mælti svo fyrir um að hún yrði jarðsett í flæðarmálinu. En þá voru engir grafreitir með vígðri mold á Íslandi. Þegar Lúther, síðar meir, fjallaði um þær athafnir í kirkjunni sem stóðu undir því að vera sakramenti – náðarmeðal manns í leit hans að Guði – þá taldi hann það nauðsynlegt að eitthvert efni tengdist því helgihaldi. Þess vegna eru skírn og altarisganga sakramenti í lútherskri kirkju en öðrum athöfnum s.s. prestsvígslu, iðrun og fermingu var hafnað.

Efnið hefur einhverja sérstöðu í þessu samhengi. Þessi stærri verk sem Kristján Steingrímur vann úr sandinum í Bethlehem eru nánast glampandi gyllt, eins og hátíðarhökullinn sem við prestar skrýðumst á jólum.

„Jörð”, er yfirskriftin og ferðalagið sem við fáum að fylgjast með í broti úr heimildaupptöku Hrefnu, minnir sannarlega á för pílagrímsins sem forðum daga lagði allt í sölurnar til að geta vitjað hinna helgu staða. Ferðasaga Nikulásar Bergþórssonar ábóta í Munkaþverárklaustri frá miðri 12. öld hefur til að mynda varðveist. Hún kallast Leiðarvísir, eða Borgarskipan og er vafalítið hugsuð fyrir þá sem vildu feta í fótspor hans. Það mætti ætla að í lýsingum sínum á borgum og áfangastöðum væri að finna ýmsan fróðleik sem nútíminn myndi fagna – en sú er ekki endilega raunin. Nikulás greinir eingöngu frá því hvað er að finna þar af helgum munum. Hann sagði frá því hvar væri að finna hárlokk úr Jóhannesi skírara, nögl af Kristi að ógleymum flísum úr krossinum. Allir sóttust auðvitað eftir gralinu helga sem sagt er frá í frásögnum af síðustu kvöldmáltíðinni. Ítalskir fornleifafræðingar munu hafa verið að störfum uppi á hálendi Íslands samkvæmt langsóttum heimildum um að bikarinn sé þar að finna!

Þessir helgu munir voru staðfesting á því hvers virði það samfélag var sem hafði þá í sinni vörslu. Þeir tengdust í raun miklum auði. Við getum leikið okkur að þeirri hugsun að í nútímanum sé þessu ekki svo ólíkt farið. Státar Barselóna-borg ekki að Messi og Suárez? Er ekki Ronaldo í Madrid, Salah í Liverpool og þeir Pogba og de Bruyne í Manchester? Neymar í París og Lewandovskí í München? Eru þeir ekki viðfang dýrkunar í dag og óskaplegir fjármunir tengjast nöfnum þeirra? Ekkert er nýtt undir sólinni.

Í leit sinni að æðri tilgangi hefur maðurinn stundum hafið upp til skýjanna það sem mögulega er ekki þess virði. Ég leyfi mér að túlka safn Kristjáns Steingríms á jarðvegi og frjókornum frá Bethlehemborg sem ákveðið andsvar við þessari hugsun. Hann horfir niður fyrir sig, þar sem okkar dýrmætustu verðmæti er að finna. Jörðin sjálf er vettvangur lífs okkar og daga. Fagnaðarerindið greinir frá atburðum sem gerðust þar. Guð gerðist maður og Kristur leið þrautir, fann til, gladdist, varð þreyttur og vafalítið hefur hvítur sandurinn í landinu helga stundum byrgt honum sýn þegar hann þyrlaðist undan fótum mannfjöldans.

Við erum pílagrímar

Öll erum við pílagrímar. Við leitum hins góða, reynum að forðast það sem brýtur niður og dregur okkur frá hinum æðri markmiðum. Það er ekki sjálfgefið að við finnum það sem við leitum að. Jósef og María leituðu Jesú í dauðans ofboði. Frásögninni lýkur á lágstemmdum hætti þar sem Jesús situr með ritninguna í höndunum í sjálfum helgidómnum. Sögur Biblíunnar eru ekki ósvipaðar listaverkum sem hvetja okkur til að spyrja og leita sjálf svara. Sú leit er sístæð og það er mikilvægt að við bindum ekki enda á hana með yfirborðslegum svörum eða einhverjum sleggjudómum. Í sögunum býr jú svo margt sem gerir mennskuna dýrmæta. Þær eru eins og frjókornin sem þvældust um gólfin í fæðingarkirkjunni og listamaðurinn dró upp á pappír er heim var komið. Í þeim felst máttur til frekari vaxtar.

Við í Neskirkju viljum vera vettvangur fyrir slíka leit. Eins og torgið sem hýsir verkin hans Kristjáns Steingríms, bjóðum við fólki að koma til samtals og íhugunar um þau æðri gildi og þá pílagrímsför sem líf hins leitandi manns er, allt frá vöggu til grafar.