I
Fyrir viku (11.1.) heyrðist ný rödd í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu. Þar kom sálfræðingurinn Einar Baldursson sem starfað hefur í Danmörku í 35 ár og er sérfræðingur í þjóðarsálfræði. Er hann ræddi stöðu mála í samfélagi okkar vöktu athygli mína ummæli hans um fórnina og nauðsyn hennar í þjóðlífinu. Hann tók dæmi af fyrirtæki sem mætir áföllum, felmtri slær á starfsmenn þess og spurningin vaknar hverjum sé um að kenna. Ef forysta fyrirtækisins kveðst enga ábyrgð bera þá skapast tortryggni. „Hver getur þá borið ábyrgð?” spyr fólkið og fer að draga sig til hlés í ótta við að ábyrgð og sök kunni að falla á það. Við slíkar aðstæður varar Einar við að skapandi hugsun taki að þverra innan veggja fyrirtækisins. Ræddi hann mikilvægi þess að horfast í augu við nauðsyn fórnarinnar, og talaði m.a. um fórn hins vammlausa. Þegar einhver hefur axlað ábyrgð hverfur óttinn úr starfsliðinu og hægt er að skapa umræður. Þannig vill hann meina að þegar stjórnandi eða embættismaður taki pokann sinn þurfi það ekki endilega að vera til merkis um sök hans heldur miklu fremur skilaboð og viðurkenning á því að til sé eitthvað sem heiti almannahagsmunir sem standi ofar einstaklingshagsmunum. Þegar réttir aðilar axla ábyrgð myndast rými fyrir skapandi hugsun. Í stað þess að orkan fari í reiði, óvissu og tortryggni geta menn byrjað að huga að lausnum og beint orku sinni inn á jákvæðar og gagnlegar brautir. Í máli Einars kom fram að slík fórn væri óhjákvæmileg núna í þeim aðstæðum sem Íslensk þjóð býr við.
II
Það er ekki oft sem maður heyrir menn nota fórnarhugtakið í opinberri umræðu og ég held að það tengist þeirri sterku tilhneygingu okkar að vilja helst þagna þegar kemur að kjarna máls. Fórnin liggur lífinu við hjartastað. Sá sem kann skil á gildi hennar og eðli er lánsamur en tíðarandinn mun seint fá skilið þátt hennar í lífinu.
Í fyrradag hættu tveir slökkviliðsmenn og annar ungur karlmaður lífi sínu er upp kom eldur í húsi við Klapparstíg. Um tíma var talið var ung kona væri þar í hættu stödd sem blessunarlega reyndist ekki. Allir lögðu þeir sig í mikla hættu og mun tæpt hafa staðið með slökkviliðsmennina en fórnarlundin rak þá áfram. Þessir ungu menn eiga heiður skilinn. Fórnarlund og hetjulund eru náskyldar dyggðir og samfélag manna sem ekki býr yfir slíkum eigindum þegna sinna er illa statt. Fregnin af fórnfýsi þeirra vekur von og tjáir okkur þá samvitund að lífið sé nokkurs virði. Ef þú hugsar um þitt eigið líf og spyrð hverjir hafi fórnað sér og sínu fyrir þig, þá vona ég að þú komir auga á fólk í sögu þinni og reynslu sem hafi fórnað til þess að þú mætir njóta lífsgæða. Var einhver sem lagði sína drauma til hliðar til þess að þú mættir ná þínum markmiðum? Gaf einhver vinnu sína, erfiði sitt, heilsu sína fyrir þig?
Um daginn áttum við hjónin nokkra daga undir jökli og nutum ægifagurrar náttúru þjóðgarðsins sem þar er nú orðinn. Við Þúfubjarg gengum við fram á fornar rústir þar sem ljóst má telja að menn hafi á fyrri öldum haft verstöð og stundað útræði. Þar sem við stóðum við löngu fallnar grjóthleðslur og skimuðum út á brimandi hafið við klettótta strönd laust niður þeirri hugsun að líkast til hefði einhver ættfaðir manns sótt þarna sjóinn við aðstæður sem í raun eru nútímamanni óskiljanlegar. Og hversu margir skyldu héðan hafa ýtt úr vör og hlotið vota gröf? hugsuðum við. Það gildir um okkur jafnt sem einstaklinga og þjóðfélag að við erum það sem við erum ekki síst vegna þeirra fórna sem færðar hafa verið. Já, m.a.s. sjálf lífkeðjan er keðja fórnar ef út í það er farið.
Fórnin liggur lífinu við hjartastað.
III
En hvað kemur fórnin guðspjalli dagsins við? Er það ekki rindillinn Sakkeus sem leikur aðalhlutverkið í dag? Sá náungi var ekki beinlínis fórnandi manngerð og hefði seint verið valinn í slökkviliðið í Jeríkó því þau sem þekktu hann hefðu ekki þorað að treysta því að hagsmunir íbúa brennandi húsa væru í forgrunni hjá honum er á hólminn væri komið. En Sakkeus hafði nú samt komist í valdaaðstöðu og gerst embættismaður fyrir rómverska setuliðið. Og það fylgir sögunni óbeint að hann hafi makað krókinn í embætti. Frá því er greint að Sakkeus hafði klifrað upp í tré til þess að tryggja sér útsýni er Jesús nálgaðist borgina. Hinn gírugi embættismaður sat uppi í tré en almenningur stóð þar undir er Jesú bar að. Við skulum staðnæmast við þessa mynd. Í raun má segja að Sakkeus sé táknmynd græðgi og sérhagsmuna en fólkið undir trénu sé táknmynd öfundar og reiði. „Í dag ber mér að dvelja í húsi þínu!” mælti Jesús eins og við munum, og ef Gallup hefði gert skyndikönnun á vinsældum Jesú er hann gekk inn í hús tollheimtumannsins hefði hann skorað lágt. Það undarlega gerist eftir samtal þeirra tveggja að yfilýsing kemur frá Sakkeusi þess efnis að hann ætli að færa fórnir í því skyni að ná trúnaði og trausti samborgara sinna. Um sekt hans er ekkert fullyrt, bara um fórnina. „Helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.” Sakkeus lýsir yfir fórn sinni. Hann leggur frá sér völd - eignir eru völd - og lýsir yfir vilja til iðrunar. (Lúk. 19.9)
IV
Sakkeus var embættismaður. Oft er við heyrum hugtakið embætti þá tengjum við það valdi, en sé hugtakið skoðað kemur í ljós að embætti er dregið af orðinu ambátt. Á það hefur og verið bent að í okkar málvenju höfum við nefnt æðstu menn ríkisins ráðherra en á enskri tungu er talað um þjóna, “ministers”, til að nefna sama hlutverk.
Af guðspjöllunum má ráða að í augum Jesú hlaut embætti ætíð að vera ambáttarþjónusta. Er vinir hans mátust á um völd sín þá mælti hann eitt sinn: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ (Mark 10. 43-45)
Þannig undirstrikar Jesús að nýi sáttmálinn, nýja testamenntið, sé í eðli sínu ekki sáttmáli um hlýðni við lög og reglur heldur fórnarsáttmáli sem hafa skuli áhrif á breytni okkar. Kristin hugsun veit að fórnin liggur lífinu við hjartastað og það vald sem safnar sjálfu sér í stað þess að fórna sér verður á endanum ógnarvald. Þess vegna verður embætti að vera ambáttarþjónusta. Embættismaður ber embættið ætíð á persónu sinni og það er skylda hans að láta persónulega hagsmuni víkja fyrir almannaheill.
Spilling er alvarleg hvar sem hún birtist og sínu verri eftir því sem valdið er meira, tækin stærri sem spilltir menn hafa með höndum. Verst af öllu eru þó spillt stjórnvöld, spilltir embættismenn, spilltir almannaþjónar því almannavaldið varðar sjálfan samfélagssáttmálann sem ekkert þjóðfélag getur þrifist án. Nú ríður á í samfélagi okkar Íslendinga að stjórnvöld gangi fram með þeim hætti að trúnaður þeirra við almenning verði ekki dreginn í efa og heilindi þeirra verði öllum ljós. Sakkeus fórnaði völdum og gerðist reiðubúinn til iðrunar. Fórnin og viljinn til iðrunar liggur almannaheill við hjartastað.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Amen.
Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“ En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“ Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“ Lúk 19.1-10