Að breyta og bæta

Að breyta og bæta

Framundan er spennandi og vonandi frjór tími í skipulagsmálum kirkjunnar. Nýtt frumvarp að þjóðkirkjulögum verður lagt fyrir prestastefnu í sumar og síðan kirkjuþing í haust. Í tengslum við það þarf að ræða, móta og ákvarða ýmsar starfsreglur um skipulag kirkjunnar.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
13. febrúar 2012

fra-minjasafninu-a-skogumlitil.jpgEr einhvern tíma bakkað þegar menn hafa gert mistök?” Þessi spurning hljómaði á fundi kirkjufólks nú í vikunni. Við þekkjum vissulega mörg dæmi úr eigin lífi og í viðbrögðum stofnana og hreyfinga, að leiðréttingar mistaka eru gerðar seint eða jafnvel alls ekki. Form og starfshættir í kirkjunni eru þjónar fagnarerindisins. Fyrirkomulag stofnunar er ekki markmið heldur meðal. Eigum við að þora að bakka ef bæta má kerfi og vinnulag?

Á Suðurlandi hefur þremur prófastsdæmum verið steypt í eitt stórt. Á kjörmannafundum vegna biskupskjörs á Selfossi, í Skálholti og á Stokkalæk kom margt merkilegt fram. Af samtölum og viðbrögðum á fundunum hefur mér orðið betur ljóst, að nokkrar skipulagsbreytingar í kirkjunni síðustu ár hafa ekki heppnast að öllu leyti. Dæmin á Suðurlandi vísa líka til breytinga annars staðar á landinu.

Hvernig getur prófastur stýrt starfi á svæði, sem nær vestan frá Reykjanesi og austur fyrir Höfn í Hornafirði? Raunar þyrfti sá prófastur að vera losaður undan sóknarprestsstarfi. En svo er ekki á Suðurlandi né í öðrum prófastsdæmum. Sparnaðarleiðir urðu eiginlega útgjaldatilfærsla. Og ég spyr hvort ekki þurfi þor og þrek til að bakka með skipulagsbreytingar sem ekki skila sem skyldi.

Framundan er spennandi og vonandi frjór tími í skipulagsmálum kirkjunnar. Nýtt frumvarp að þjóðkirkjulögum verður lagt fyrir prestastefnu í sumar og síðan kirkjuþing í haust. Í tengslum við það þarf að ræða, móta og ákvarða ýmsar starfsreglur um skipulag kirkjunnar. Samstarfssvæði er einn angi þessa stóra máls. Skilgreina þarf stöðu vígslubiskupa mun betur en hefur verið gert. Að mínu viti þarf að efla stöðu þeirra til að nýta þá betur í þjónustu kirkjunnar.

Staða biskupsembættisins er einnig í mótun og létta þarf af biskupi ýmsum störfum við framkvæmdastjórn kirkjunnar til að biskupinn nýtist betur sem trúarlegur leiðtogi og hirðir. Störf og stöðu prófasta þarf að endurskilgreina. Stærð og rekstur prófastsdæma þarf að endurmeta. Og það er ekki sjálfgefið, að ef vígslubiskupar eru efldir rýrni hlutverk prófasta eða öfugt. Prófastar mega gjarnan eflast sem verkstjórar að skandinavískri mynd og vígslubiskupar eiga vera fullvirkir tilsjónarmenn í kirkjunni.

Þorum við að skoða ferla og laga? Árangursmat þarf að verða eðlilegur þáttur í lífi og starfi kirkjunnar. Þegar starfsreglur eru settar þurfa að vera til ferlar til mats. Þegar reynsla er komin af nýjum starfsreglum þarf að skoða árangur. Kirkjuþing hefur sýnt að það þorir að endurskoða ákvarðanir sínar þegar gallar koma í ljós. Mín reynsla af kirkjuþingsmönnum er að þar er öflugur hópur sem metur mikils gæði í ferlum, starfsreglum kirkjunnar og skilvirkni kirkjustarfs og nýtingu fjár.

Ég heyri að Sunnlendingar vilji opinskáar umræður um skipulagsgalla og breytingar. Ég vil heyra ábendingar og virða til eflingar. Þegar mistök hafa verið gerð er betra að bakka en þrjóskast við og spóla. Kirkjan á að vera sóknarkirkja, kirkja á ferð.