Val á andlegum leiðtoga

Val á andlegum leiðtoga

Í mínum huga á biskup fyrst og fremst að vera andlegur leiðtogi. Hans hlutverk er að vera í góðum samskiptum við prestana og þannig sinnir hann líka sínu tilsjónarhlutverki. Hann á að hvetja, uppörva, hrósa og efla þau sem þjóna í söfnuðum landsins.
fullname - andlitsmynd Svanhildur Blöndal
14. desember 2011

Í starfi mínu sem prestur á dvalar- og hjúkrunarheimili er ég daglega í samskiptum við, heimilisfólk, starfsfólk og aðstandendur. Einmitt um daginn var sagt við mig: Nú eru spennandi tímar framundan. Ég brosti og sagði: Gott að heyra, en það leyndi sér greinilega ekki að ég var ekki viss um hvað hún ætti við. Konan hló þá og bætti við, ég er að tala um biskupskosningarnar sem eru framundan.

Í framhaldi af þessu samtali fórum við að ræða saman um biskupsembættið og hvaða eiginleika sú persóna sem valin er þarf til að bera? Það eru greinilega ekki bara prestar sem velta því fyrir sér.

Á kirkjuþingi sl. haust var samþykkt kosningafyrirkomulag sem gilda mun um tvennar biskupskosningar á þessu ári. Ég undrast, hvers vegna ekki var gengið frá því á þinginu að sameina sóknir, eins og lagt var til í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, áður en gengið verður til kosninga. Það myndi draga úr óvissu og skapa meiri festu. Æskilegra hefði verið að taka á vægi atkvæða sem nú er mjög ójafnt og óréttlátt.

Í mínum huga á biskup fyrst og fremst að vera andlegur leiðtogi. Hans hlutverk er að vera í góðum samskiptum við prestana og þannig sinnir hann líka sínu tilsjónarhlutverki. Hann á að hvetja, uppörva, hrósa og efla þau sem þjóna í söfnuðum landsins. Biskup þarf einnig að vera úrræðagóður og hugsa í lausnum. Taka á vandamálum sem upp koma hverju sinni af fagmennsku og festu.

Mér finnst mikilvægt að aðskilja veraldlegt og andlegt vald. Í okkar samfélagi er orðin mikil sérhæfing og sérfræðiþekking á ýmsum sviðum og því mikilvægt að nýta sér þá þekkingu, þar sem það á við. Eins og þau sem eru hjartveik leita til hjartalækna og þau sem halda bókhald snúa sér til endurskoðenda. Við förum til sérfræðinga af því að við teystum þeim. Á sama hátt eigum við sem störfum í kirkjunni að leita til sérfræðinga og þá er ég auðvitað að tala um það sem snýr að fjármálum.

Mér finnst ekki fara saman að biskup sé að sinna bæði fjársýslu og þar með veraldlegu amstri og síðan hinu sem á að vera aðal starf biskups þ.e. að vera trúarlegur leiðtogi hinnar Evangelísk-lúthersku kirkju í landinu.

Í samtali við kollega hef ég tjáð þá skoðun mína að biskup eigi fyrst og fremst að vera andlegur leiðtogi. Ég hef þá verið spurð: Á biskup ekki að hafa neina aðkomu að því hvert fjármunir kirkjunnar fara? Mín skoðun er: Biskup á ekki að taka þátt í daglegum rekstri og fjármálastjórn kirkjunnar. En vissulega hlýtur biskup að vera leiðandi í stefnumótun kirkjunnar til framtíðar þar á meðal þegar kemur að tekjum sem tryggja eiga að kirkjan geti sinnt sínu þjónandi hlutverki.

Gefum nýjum biskupi Íslands tækifæri til þess að helga sig óskiptan því mikilvæga starfi að vera andlegur leiðtogi okkar, sálusorgari og að standa jafnframt fremstur meðal jafningja.

Spennandi tímar eru framundan, eins og konan sagði, sem vildi ræða við mig um biskupskosningarnar. Ég horfi til framtíðar með nýjar væntingar og nýja von í hjarta. Margir hæfir einstaklingar úr prestastétt koma upp í hugann í þessu samhengi. Ég get ekki neitað því að mér finnast það vera sterk skilaboð til samtímans að við því embætti taki kona en það á eftir að koma í ljós hvort svo verði.