Myndin af Hólum

Myndin af Hólum

Máluð mynd í gylltum ramma af Hólastað hangir á vegg inni á skrifstofu minni. Ég hef hana fyrir augum dags daglega. Hún er eftir lítt kunnan listamann, nær 60 ára gömul. Hólakirkja er þar hvítmáluð með grænu þaki og sömuleiðis skólinn.

Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.

Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.

Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki. Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. Matt 25.1-13

Máluð mynd í gylltum ramma af Hólastað hangir á vegg inni á skrifstofu minni. Ég hef hana fyrir augum dags daglega. Hún er eftir lítt kunnan listamann, nær 60 ára gömul. Hólakirkja er þar hvítmáluð með grænu þaki og sömuleiðis skólinn. Þetta er sumarmynd, tjáir gróandann, græni liturinn sterkur á húsþökum og náttúru.

Ég velti þessari mynd af og til fyrir mér, veit fyrir víst að kirkjan var hvítmáluð til verndunar steininum, sem er viðkvæmur, en þori satt best að segja ekki að fullyrða um græna litinn á þakinu, hvort sem það er skáldaleyfi listamannsins eða það hafi verið raunin, þar sem stundum var notað það málningarefni, sem til var á staðnum til sparnaðar á fjárhagslega þröngum tímum.

Allt er það nú aukaatriði fyrir mér. Það sem stendur upp úr hins vegar er bæði það hvernig myndin barst mér í hendur og þær minningar, sem hún vekur í huga frá því ég gekk hér um grænan staðinn nokkur sumur.

Þar birtast í hugskoti ófáir fróðleiksþyrstir ferðamenn, sem drukku merka sögu í sig, en sérstaklega þær dýrmætu stundir er ég aðstoðaði föður minn við þá helgiþjónustu, sem hann gegndi hér á staðnum, uns hann lét af þeirri þjónustu vegna veikinda.

Allt var það mér einstakur lærdómur, sem ég get helst þakkað Guði einum og þess vegna má ég í trú minni segja, að ég horfi ekki bara á fagran Hólastað í umræddu málverki, heldur jafnframt Guð sjálfan, sem á sér margvíslegar birtingamyndir.

Guð birtist m.a. í öllum þessum kæru minningum mínum frá Hólastað, Hann birtist í tilfinningum listamannsins, sem var víst ekki ein af stórkanónum í íslensku listalífi, en virðist hafa lagt alla sína alúð í verkið, og Guð birtist ekki hvað síst í þeirri góðu gjöf, sem í myndinni býr.

Þannig var að roskin kona, sem hafði sótt kirkju í Seljahverfi, þar sem ég þjóna nú sem prestur, kallaði mig á sinn fund. Ég mætti í heimsókn, fína kaffistellið prýddi stofuborðið, kaffiilmur, búið að taka málverkið niður af veggnum, allt vel undirbúið.

Hún bauð mér sæti, skenkti í bollann, sagði mér frá sér og hafði síðan góðan formála að því hvers vegna hún vildi gefa mér málverkið.

Hún var sumsé að sýna þakklæti sitt fyrir þá kirkjulegu þjónustu, sem hún hafði þegið í Seljakirkju, auk þess sem hún hafði heyrt af því hvernig ég tengdist Hólastað og gat sér þess vegna til, að ég bæri jákvæðar tilfinningar til staðarins, sem ég og geri.

Tilgátan var því rétt og sönn hjá þessari rosknu og lífsreyndu ekkju, sem á sér heimili í nánu nágrenni við kirkjuna sína.

Ég þáði og þakkaði, vissi að annað yrði neyðarlegt og jafnvel dónalegt í huga konunnar. Ég gekk út í bíl með stórt málverk og hugsaði sem svo að þetta væru hin raunverulegu laun í þjónustunni, þó ekki aðeins málverkið sem slíkt, heldur sá hugur sóknarbarns er að baki lá.

Ég brosti hringinn, þó með varúðarsvip og tilbúinn til svars, ef einhver færi að væna mig um að ræna heiðvirða ekkju.

Og nú hef ég þessa mynd fyrir framan mig, gróandinn í henni eflir trú og von í hjarta og lýkur upp þeirri hugsun að á eftir skugga þjóðaráfalls rennur upp bjartur tími nýrra tækifæra og nýrra gildishugsana, svona rétt eins og sumar leysir vetur af hólmi.

Og þessi mynd vekur ekki bara upp almenna bjartsýnisþanka, heldur er hún jafnframt skýr vitnisburður um mikilvægi þess að vera vel vakandi fyrir þeirri þjónustu, sem sóknarbörn og fleiri börn þurfa á að halda og hvað kirkjan skiptir miklu máli í því samhengi, þessi umrædda heimsókn til gjafmildrar ekkju sýndi það á ákveðinn hátt og sannaði. Hún var með góðri gjöf að þakka fyrir þjónustu kirkjunnar sinnar.

Talandi um að vera vakandi. Kristur var ekki allskostar ánægður þegar lærisveinarnir gátu ekki vakað með honum eina stund í garðinum forðum þegar að kreppti.

Meyjarnar féllu í svefn og helmingur þeirra missti af veislunni, ljós slokknuðu sökum skorts á forsjálni.

„Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur,“ segir Kristur og bætir við, „verið þér og viðbúin því, að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“

Eins og lífið sjálft kemur Kristur okkur stöðuglega á óvart með orði sínu og atferli, allt er það óútreiknanlegt, hver hefði t.a.m. trúað því að gangur hjálpræðissögunnar yrði eins og hann varð, sjálfur Frelsarinn dó, úr varð nýtt líf óháð tíma og rúmi. Það þarf vökulan huga til þess að meðtaka slíka sögu og merkinguna á bak við hana alla.

Hver hefði svo sem trúað því í allri uppsveiflunni og hagsældinni, að dag einn færi allt bankakerfi Íslands eins og það leggur sig á höfuðið. Féllum við í svefn, er líka hægt að missa alla þolinmæði og forsjálni í velgengninni? Nei, við getum ekki gert ráð fyrir hlutunum. Það sem við getum gert er að vera vakandi í þjónustunni.

Vakandi fyrir þjónustunni við Guð og við náunga okkar og þörfum hans, alltaf og ekki hvað síst á þessum tímum, er knýja okkur til breyttra lífsviðhorfa, sem fela það í sér að ekki er allt sjálfsagt og sjálfgefið.

Þetta geta reyndar verið mjög hollir tímar, sem minna á þá staðreynd að lífið sjálft og allt sem það geymir er fengið að láni og sú stund rennur upp þegar þú þarft að gera reikningsskil og láta frá þér það sem þú hefur eignast hér á jörðinni. Þess vegna máttu vita að ekkert er fast í hendi.

Hins vegar erum við ekki að tala um það að ekkert komi í staðinn, að allt þitt strit sé til einskis. Kristur hefur búið þannig um hnúta að orð hans verið óhrædd eiga sér styrka stoð, brúðguminn Kristur býður þér til eilífrar veislu.

Sú veisla er þegar í boði, það er að þjóna honum, fylgja honum, orði hans og anda, það er að vera vakandi fyrir boði hans, og allt gerir það að verkum að þú eignast að eilífu þau lífsgæði, sem trúin, vonin og kærleikurinn eru.

Kristur bendir þér á að vaka og vinna fyrir hann, tileinka þér forsjálni og þolinmæði, svo þú verðir sannur þátttakandi í veislunni stóru og það fram yfir gröf og dauða.

Eðli málsins samkvæmt liggur það fyrir að vilji maður ekki þiggja boð eða taka þátt í því, verður það hverri manneskju önnur og jafnvel neikvæðari upplifun en annars. Á þessu er Kristur að vekja athygli með merkilegri dæmisögu um tíu meyjar.

Trúfesti, árvekni og þolinmæði. Dæmisagan er harkaleg: „Sannlega, sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.“ Það er óhætt að segja að þessi orð veki okkur til meðvitundar, það er líka tilgangurinn með þeim, „vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“

Í þessari áminningu felst einmitt svo djúpur kærleikur og sömuleiðis djúpur skilningur á mannlegu eðli. Af hreinni væntumþykju okkur til handa er það vilji Guðs sonar að við séum öll farsælir þátttakendur í þeirri stóru veislu, sem það er að vígja honum hjarta sitt í trúareinlægni.

Það er eins með trú og annað í lífinu að skuggi getur hæglega fallið á þegar við erum farin að sökkva okkur ofan í hluti, sem mölur og ryð eyðir, þætti sem svo auðveldlega kalla fram tilfinningar græðgi og valdsýki, nokkuð sem svæfir allar þær dyggðir, sem Kristur kennir í umræddri dæmisögu.

Við höfum sömuleiðis verið minnt á það með þeirri miklu efnahagsdýfu, sem þjóðin stendur nú frammi fyrir. Það er nefnilega erfitt að vera vitur eftir á, það veit Drottinn, því hann þekkir mennskuna eins og handarbakið á sér, hann sem hefur rannsakað hjörtu okkar.

Og þá komum við aftur að grundvallarþætti þess, sem heldur okkur vakandi í öllu því sem lífið hefur upp á að bjóða og það er þjónusta, það er sú vitund að við erum ekki ein í heimi hér, sú vitund að meginhlutverk okkar er að gefa af okkur.

Það er segin saga að það að reyna eitthvað annað leiðir okkur aftur inn í græðgisveröld eiginhagsmuna. Já, sagan hefur sýnt það margsinnis, við sjáum það á sögu þjóðar, við sjáum það á sögu Hólastaðar, þar sem miklir andans menn, trúmenn og leiðtogar eins og Jón biskup Arason féllu fyrir sterkri löngun í völd og lönd. Það er enginn undanþeginn, leiðin er afar stutt yfir í blinda sjálflægni og eiginhagsmunagæslu.

Þess vegna er þjónustuhugtakið innan kirkju sem utan svo gríðarlega mikilvægt og fellur m.a. vel að þeirri samstöðu og samkennd, sem margir hvetja íslensku þjóðina til þess að sýna á þrengingartímum og allt gott um það að segja, þó svo að ekki megi gleyma þeirri ábyrgð og þeim skyldum, sem þar að auki felast í þjónustunni, við öll þurfum að svara fyrir og gera upp hvort sem um er að ræða velgengni eða þrengingar á lífsleið.

Já, fyrrnefnt hólamálverk á skrifstofu minni birtir í huga mér gróandann, vonina og mikilvægi þjónustunnar, þeirrar þjónustu sem heldur okkur vakandi frammi fyrir Guði og mönnum í margvíslegum aðstæðum lífsins.

Faðir minn sr. Bolli Gústavsson minnir m.a. á þessa þjónustu í prédikun, sem birtist í prédikunarsafninu Lífið sækir fram, en sú bók leit dagsins ljós fyrir um ári síðan á afmælisdegi hans 17. nóvember 2007.

Hann minnir þar á þá þjónustu, sem kirkjan veitir á veigamiklum stundum í lífi fólks, þegar fjölskyldan kemur saman, gleðst saman, syrgir saman, þar sem fólk er áþreifanlega minnt á þau huglægu lífsgæði, sem mölur og ryð geta aldrei eytt og láta okkur virkilega finna fyrir tilveru okkar, fyrir okkur sjálfum og þeirri kennd að þykja vænt um og því að eiga eða hafa átt svo mikið í og með samferðafólki og ástvinum.

Prédikunin var flutt þegar Goðdalakirkja hér í Skagafirði var vígð eftir endurgerð á 1. sunnudegi í aðventu árið 1995:

„ Guði þakka hjón, sem hér hafa unnið heilagt heit fyrir augliti Drottins og hlotið blessun hans. Þau skynjuðu þá von, sem veitir æðri gæði en nokkur maður er fær um að gefa.

Hér við heilagt altari vakir sú blessun eins og milt ljós, sem gott er að ganga inn í, og styrkir það band kærleikans, sem í upphafi var bundið.

Margir hafa hingað komið með kross á herðum sér, þunga byrði, sem mennskum augum er hulin. En Guð þekkir sína og náðarfyrirheit hans rætist, veitir þeim styrk og kjark, sem heyra sér heilsað með þessum orðum: „Komið til mín, allir þér, sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“

Og á öðrum stað segir í sömu prédikun: „Blessaður sé sá, sem kemur í nafni Drottins! Þann lofsöng eiga foreldrar að kenna börnum sínum. Hann skal hljóma frá einni kynslóð til annarrar, berast yfir láð og lög, já frá hafi til hafs og fullkomnast að lokum í hinni himnesku Jerúsalem.“

Brúðguminn kemur, Drottinn kemur. Hann kemur með lítið ljós, er lýsir lífs míns stutta skeið, það er ljós sem dafnar við það að þjóna í víðustu merkingu þess orðs þ.e. að gefa af sér öðrum til heilla og lærdóms.

Við uppskerum þakklæti og þar af leiðandi hvatningu til þess að halda áfram sömu braut, það var í það minnsta mín upplifun þegar ég gekk út úr húsi ekkjunnar með hólamálverk í gylltum ramma forðum.

Hið sama þakklæti kemur upp í hugann nú þegar ég hugsa til þeirrar þjónustu, sem faðir minn innti af hendi og ég varð vitni að. Hún var í senn Drottni til dýrðar og skjólstæðingum til vegsemdar, að ógleymdri fjölskyldu hans, sem ber hlýjan hug til hans alla daga og til þeirra helgu staða sem hann sat og þjónaði, þ.á.m. til Hólastaðar. Hér þjónaði hann sem vígslubiskup í um áratug.

Sérstökum þökkum vil ég koma á framfæri til núverandi vígslubiskups Hr. Jóns Aðalsteins Baldvinssonar og annarra staðarmanna, sem kölluðu til þessarar hátíðarsamkomu, það er sómaverk föður mínum sannarlega til heiðurs.

Hins vegar veit ég það að trúmaðurinn sr. Bolli Gústavsson hefði á svona degi tekið undir þakkarkveðju danska klerksins og skáldjöfursins Kaj Munk, þegar hann eitt sinn tók við viðurkenningu. Þá sagði Munk: „ Þakkið ekki mér, þakkið Guði.“

Þeim sama Guði sé dýrð, syni hans Jesú Kristi og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.