Að gera vilja Guðs

Að gera vilja Guðs

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.

Guðspjall: Matt 7.15-23

Nýja Ísland.

Ég er nýkominn af slóðum Vestur Íslendinga í Norður Dakóta og Manitoba ásamt kór og organista Digraneskirkju. Við sungum meðal annars á 17. júní við styttu Jóns Sigurðssonar í Winnipeg við hátíðlega árlega athöfn, þar sem ávörp eru flutt, bæði af fjallkonunni og ráðherra frá Íslandi. Við messuðum einnig í íslenska söfnuðinum í Lundar. Það var mikil upplifun að sjá þá staði sem Íslendingar fluttu til 1873 og síðar. Dugnaður, áræðni og hetjuskapur einkenndu frumherjana. Við ferðuðumst meðal annars um strönd Winnipegvatns sem fékk nafnið Nýja Ísland. Þangað flutti stór hópur Íslendinga og stofnaði nýlendu. Þau fluttu um haust. Þeirri ferð hefur verið gerð góð skil í Híbýlum vindanna, bæði bók Böðvars Guðmundssonar og leikgerð Þórhildar Þorleifsdóttur. Sá draumur endaði með skelfingu. Böðvar lætur trúarleiðtogann Móse vera þann spámann, sem miklu réði um ferð Íslendinga. Hann var táknmynd spámanns sem leiddi afvega. Í dag halda afkomendur Íslendinga í uppruna sinn og heiðra minningu hins íslenska arfs á ýmsan hátt bæði á alvarlegum og léttum nótum. Annar leiðtogi, séra Páll Þorláksson, naut mikillar virðingar, þó hann nyti ekki almennrar lýðhylli vegna trúarskoðana sinna. Hann taldi rétt að þeir sem flyttu til nýja landsins réðu sig í vist til að læra réttu handtökin og á landið. Þeir sem fylgdu ráðum hans voru m.a. Stephan G. Stephansson. Segja má að séra Páll hafi verið ráðhollur spámaður þó um hann hafi gustað. Frumherjunum er sýnd mikil virðing á slóðum Vestur Íslendinga og það er merkileg upplifun að hitta einstaklinga af þriðju kynslóð sem tala góða íslensku. Lexía dagsins flytur okkur alvarlegan boðskap Jeremía um spámenn, sem fluttu boðskap sem ekki var frá Guði. Það er mikil ábyrgð að vera trúarlegur leiðtogi.

Að gera vilja Guðs

Þegar ég var ungur prestur olli guðspjall sunnudagsins mér töluverðum heilabrotum. Hvað meinti Jesús eiginlega með því að segja, að þeir einir fengju að komast inn í himnaríki sem gerðu vilja föður hans á himnum? Ætlaði hann virkilega að hafna þeim sem boðuðu í hans nafni og gerðu jafnvel kraftaverk í hans nafni? Til að fá svarið varð ég að reyna að komast að því hver væri vilji föðurins á himnum.

Nokkur atriði hafa orðið mér til hjálpar. Svarið var ekki eitthvað eitt, heldur nokkur, og langar mig til að deila þeim með þér áheyrandi góður. Ég fann að Biblían hafði svarið, í annan stað fann ég það í lífi Jesú, ég fann það í skírninni og loks geymdi bænin svarið.

Svarið í Biblíunni

Ég fann að Biblían geymdi svarið. Það kann að vera að einhverjum þyki of mikið að ætla að leita í allri Biblíunni að svari við því, hver sé vilji föðurins. En hið gleðilega er að í fermingarfræðslunni kennum við einmitt um eitt lykilvers, sem kallast litla Biblían. Hún hefur eins og nafnið bendir til að geyma kjarna Biblíunnar. Versið hljóðar svona: “Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Í þessu versi finnum við vilja Guðs. Í elsku sinni gaf Guð okkur son sinn til þess að við kæmust inn í himininn fyrir trú á hann. Biblían er mikil bók að vöxtum og varð til á afar löngum tíma, eiginlega er hún bókasafn með marga höfunda. En hún hefur að geyma boðskap, sem allar kristnar kirkjur í heiminum eru sammála um að sé aðalatriði kristinnar trúar. Það er boðskapurinn um Guð, Jesú Krist, líf hans, dauða og upprisu. Þá skiptir ekki máli hvaða kirkjudeild um er að ræða, hin lútherska, kaþólska, anglíkanska eða hvítasunnukirkjurnar. Hér erum við ekki að tala um neinn lítinn hóp, meira en þriðjung mannkyns. Litla Biblían veitti mér svar.

Jesús sjálfur veitti svarið

Í öðru lagi sá ég að svarið við vilja föðurins var að finna í Jesú sjálfum. Það er vitnisburður Biblíunnar að Messías, Kristur, myndi koma og frelsa syndugt mannkyn. Í Gamla testamentinu er koman undirbúin, en í Nýja testamentinu kemur hann. Hann fæddist í Betlehem, ólst upp í Nasaret, en var krossfestur í Jerúsalem. Með orðum sínum og athöfnum sýndi Jesús að Guð var með honum og í honum. Boðskapur hans um guðsríki, kraftaverkin og lækningarnar voru sem Guð sjálfur væri meðal mannanna. Og síðast dauði hans og upprisa opnaði leiðina til Guðs fyrir mönnunum.

Þegar kom að því að vitna um sjálfan sig tók hann af öll tvímæli um hlutverk sitt. Nægja tvær tilvitnanir í því efni: „ Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ og „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“ Hér gefst okkur svar hans, skýrt og ljóst. Vilji föðurins er að við trúum á hann. Hann er leiðin inn í himininn, til Guðs. Svarið fólst í að taka Jesú Krist trúanlegan, orð hans og verk.

Skírnin gaf svar

Þriðja atriðið sem ég sá að veitti svar við vangaveltum mínum var skírnin. Trú er ekki aðeins fólgin í orðum, heldur einnig í verkum. Það er hluti af trúnni að bera barn til skírnar. Það er fátt fallegra og meira hrífandi en að vera við skírn. Skírnin er eitt af því sem Guð vill. Eftir upprisuna gaf Jesús lærisveinunum skýr fyrirmæli um var að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum, skíra þá og kenna þeim. Við í lúthersku kirkjunni skírum ungbörn. Skírn í lútherskri kirkju er gjöf frá Guði. Hún byggist á því, að vegna þess að Guð hefur elskað mennina frá upphafi manns og heims og frelsað þá, þá bregðast kristnir menn við með því að bera börnin til skírnar. Þeir bíða ekki eftir því að barnið verði fullorðið, heldur færa Guði það, til þess að barnið fái strax að njóta náðar Guðs í skírninni. Í Títusarbréfi segir: „En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.“  ( Tít. 3.4-7) Þegar við færum Guði barn í skírn, þá erum við að játast undir vilja Guðs með líf okkar mannanna. Fyrir náð erum við réttlætt og í voninni erum við erfingjar eilífs lífs. Skírnin veitti mér svar við spurningunni um vilja Guðs. Bænin gefur svar.

Að lokum fann ég svarið í bæninni. Það að ég bið, segir að ég trúi. Hvort sem trú mín er veik eða sterk, lítil eða stór, þá fer ég með bænirnar mínar. Í signingunni og bæninni erum við að fela okkur Guði, himneskum föður okkar. Bænin er sterkasta trúarjátning sem kristinn maður á. Við biðjum ekki til steina eða einhvers sem ekki getur svarað. Við biðjum til persónulegs Guðs, sem heyrir, elskar og tekur við okkur í ævarandi elsku. Um það vitnar öll Biblían og andi Guðs staðfestir það eins og var lesið í pistlinum í Rómverjabréfinu: „Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn.“ Við erum í vilja Guðs þegar við biðjum og köllum Guð föður.

Guði sé lof hve margir Íslendingar kunna signinguna og bænir og fara daglega með þær. Í hvert sinn, sem við biðjum, þá er Guð nálægur okkur í anda sínum. Honum er annt um okkur hvert og eitt, og andi hans vitnar með okkar anda að við erum Guðs börn. Við játum trúna er við kennum litlu barni að biðja:

Nú er ég klæddur og kominn á ról, Kristur Jesús veri mitt skjól. Í guðsóttanum gefðu mér, að ganga í dag svo líki þér.

Eða amman sem fer með kvöldbæn ásamt barnabarninu játar trú á Jesú:

Leiddu mína litlu hendi, ljúfi, Jesú, þér ég sendi, bæn frá mínu brjósti sjáðu, blíði, Jesú, að mér gáðu.

Innra með okkur fáum við stundum þá staðfestingu, að Guð elskar okkur og að við erum eftir allt, börn Guðs. Sumir virðast eiga meiri vissu en aðrir og það er vel. Aðrir treysta því sem þeir hafa lært og numið og áralöng reynsla kennir þeim að má byggja á, ef til vill án mikilla tilfinninga. Börnin nema anda Guðs og helgi. Þeim þykir gott að biðja og syngja söngva sunnudagaskóla kirkjunnar. Kennum þeim versin og bænirnar, sem við lærðum sem börn.

Kæru foreldrar, afar og ömmur og góðir skírnarvottar. Það verður ekki nógsamlega brýnt fyrir okkur, að við sem kristnir forráðamenn berum ábyrgð á trúaruppeldi barnanna okkar. Barna- og unglingastarf kirkjunnar er stuðningur við trúaruppeldið. Nýtið ykkur það og leiðið börnin ykkar til kirkju. Standið vörð um kristinfræðikennslu í grunnskólum. Hluti af þeirri kennslu er að fara með börn af leikskóla og grunnskóla í kirkju á aðventunni. Þeir sem vilja slíka fræðslu burt eða hindra hana brjóta 18. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Þar segir, „...að allir skulu frjálsir ... til að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með kennslu, tilbeiðslu, guðsþjónustum og helgihaldi.“ Kristin trú er trú meirihluta þjóðarinnar. Það er ekki lóð á vogarskálar umburðarlyndis að vilja hindra eðlilega fræðslu um trúarbrögð í kirkjum eða heimta að allt trúarlegt víki vegna sinna eigin barna. Mannréttindayfirlýsingin tekur af allan vafa. Standið því vörð um réttindi ykkar.

Með því að skoða litlu Biblíuna, líf Jesú, skírnina og bænina, sá ég að þar var að finna svör við því hver væri vilji Guðs. Trúin á Guð, son hans Jesú og samfélagið við hann er greinilega hluti af svarinu. Megi Guð styrkja þig í trúnni, voninni og kærleikanum. Mig langar til að enda á því að vitna aftur í pistil dagsins: „ En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists“ Í trúnni verðum við börn Guðs, þess vegna getum við með gleði beðið og sungið:

Ó, Jesús bróðir besti og barnavinur mesti, æ, breið þú blessun þína á barnæskuna mína.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.