Fjölmiðlar, lögregla og kirkja í netheimum

Fjölmiðlar, lögregla og kirkja í netheimum

Undanfarið hafa margir norskir og sænskir fréttamiðlar ákveðið að loka fyrir athugasemdadálka sína á netinu. Ástæðan er sú að margir hafa ritað niðrandi og jafnvel meiðandi athugasemdir í þessa dálka, oft undir fölsku nafni eða nafnlaust.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
12. ágúst 2011

twitter-logo.pngfacebook-logo.png Fjölmiðlar Undanfarið hafa margir norskir og sænskir fréttamiðlar ákveðið að loka fyrir athugasemdadálka sína á netinu. Þar hafa lesendur haft möguleika á því að rita athugasemdir við fréttir og greinar sem birtast á vefsíðum þeirra. Ástæðan er sú að margir hafa ritað niðrandi og jafnvel meiðandi athugasemdir í þessa dálka, oft undir fölsku nafni eða nafnlaust.

Margar þessarar athugasemda hafa vakið óhug þar sem niðrandi og fjandsamleg ummæli í garð múslima, útlendinga og ýmsa minnihlutahópa hafa verið látnar falla.

Án efa hafa hryðjuverkaárásirnar í Noregi fyrir stuttu orðið til þess að ummælin, sem þó hafa viðgengist nokkuð lengi, vekja meiri athygli nú en áður og fólk er að átta sig á að það ber að taka þau alvarlega.

Nú er umræðan um þetta mál í fullum gangi í bæði Noregi og Svíþjóð og sitt sýnist hverjum. Einn sænskur fjölmiðill hafur valið að fara þá leið að setja starfsfólk í það að fylgjast með þessum athugasemdum og svara þeim. Þau kanna einnig hvort fleiri en ein athugasemd komi frá sömu tölvu (sama IP númeri) þar sem töluvert er um að fólk skrifi svipaðar athugasemdir mörgum sinnum, undir ólíkum nöfum, til þess að láta líta út fyrir að hér sé um viðhorf margra að ræða. Ef þau verða vör við þetta, taka þau allar athugasemdirnar út nema eina, sem þau svara, og senda svo viðkomandi reglurnar er liggja til grundvallar.

Þetta er sjálfsagt eitthvað sem þarf að ræða vel, skiptast á skoðunum og reyna ýmsar aðferðir áður en sú heppilegasta eða þær heppilegustu finnast. Nokkrir fréttamiðlar hér á landi eru með opið fyrir athugasemdakerfi við fréttir s.s. www.eyjan.is og www.dv.is.

Lögregla Einnig hefur sænska lögreglan nú hafið umræðu um það hvernig hún geti fylgst nánar með og brugðist við því sem gerist á samskiptasíðum í netheimum. Stór hluti Svía, eins og Íslendinga, er með eigin síður á facebook og þar eins og annars staðar þar sem fólk kemur saman koma annað slagið fram hótanir og hegðun sem getur flokkast sem ógnandi og hættuleg. Það er reyndar ekki nýmæli að einstakir lögreglumenn eða lögregluumdæmi séu á síðum eins og facebook og twitter en hingað til hafa þær aðallega verið nýttar þess að fá upplýsingar frá fólki, auglýsa eftir vitnum.

Ekki er ólíklegt að hryðjuverkaárásirnar í Noregi hafi einnig þarna vakið lögregluyfirvöld af værum svefni þar sem árásarmaðurinn norski notaði m.a. facebook til þess að koma skoðunum sínum á framfæri.

Afskipti lögreglunnar af því sem gerist í netheimum er sannarlega viðkvæmt mál enda er friðhelgi fólks mikilvæg og að ekki er hægt að hefja njósnir á einkasíðum fólks.

Það sem lögreglan hefur áhuga á er að koma sér upp búnaði til þess að geta farið inn á síður þegar um alvarlegar hótanir í garð fólks er að ræða eða þegar ljóst þykir að fólk sé að setja fram skoðanir er brjóta gegn minnihlutahópum.

Kirkja

Ljóst er að við þurfum að hugsa ýmislegt upp á nýtt eftir tilkomu þessara samskiptamiðla. Nú nýta fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök þessa miðla til þess að koma boðskap og auglýsingum á framfæri. Sumt fer sannarlega vel og fallega fram og virðing fyrir náunganum í fyrirrúmi. Annað er á mörkum þess að velsæmis sé gætt og lögum fylgt.

Söfnuðir hér á landi hafa nú í ríkari mæli farið að nýta sér facebook og twitter til þess að kynna starfsemi sína, setja fram prédikanir og pistla og vera í samskiptum við meðlimi. Reynsla flestra sem nýta sér þetta er góð. Með þessum hætti er hægt að nálgast fólk á annan hátt og gera kirkjuna aðgengilegri fyrir fleiri. Hjá þeim söfnuðum sem eru á facebook hefur fólk m.a. nýtt sér síðurnar til þess að bóka viðtöl, sækja sálgæslu, lesa prédikanir, taka þátt í umræðu, fá upplýsingar um guðsþjónustur og annað starf safnaðanna.

Þjóðkirkjan hefur nýtt sér þennan miðil á uppbyggilegan hátt til þess að koma upplýsingum á framfæri og hefur þannig orðið sýnilegri en áður.

Þarna verða þó söfnuðir, prestar, djáknar, organistar, kirkjuverðir og allt starfsfólk safnaðanna að vera meðvituð um að þetta er að nokkru leyti opinbert rými og því er mikilvægt að við séum kirkjunni og sjálfum okkur til sóma þegar við tjáum okkur á þessum síðum.

Hingað til hefur þetta gengið ágætlega en við erum enn að fikra okkur áfram. Sumir söfnuðir hafa sett hér óformlegar eða formlegar siðareglur um hvernig best sé að koma fram á þessum miðlum en þau sem ekki hafa gert það ættu kannski að skoða það mál svo að engin/n misnoti þetta frelsi meðvitað eða ómeðvitað. Þjóðkirkjan hefur nokkrum sinnum staðið fyrir námskeiðum þar sem fjallað er um hvernig söfnuðir geti nýtt sér félagssíðurnar og vonandi verða þau haldin áfram.

Heimurinn hefur minnkað og auðveldara er að koma upplýsingum á framfæri og tjá sig opinberlega sem er yfirleitt gott en getur skapað hættur ef við vöndum okkur ekki.