Öskuský yfir Eldmessutanga

Öskuský yfir Eldmessutanga

Orðtakið að sjá ekki handa sinna skil, fékk sína eiginlegu merkingu í huga fólks. En öllum þessum erfiðleikum hafa íbúar mætt með miklu æðruleysi og sýnt sem aldrei fyrr hvað í þeim býr. Enda er þetta sú sveit á Íslandi sem þekkir áhrif eldgosa býsna vel og er henni í raun í blóð borin.

Grímsvötn ash cloud

„Guð er oss hæli og stykur, örugg hjálp í nauðum. Því óttumst vér eigi þótt jörðin haggist, og fjöllin steypist í djúp hafsins þótt vötnin dynji og ólgi þótt fjöllin riði af ofsa þeirra.“ Sálm. 46

Þetta hefur verið erfið vika. Ekki var fyrr orðið ljóst að ekkert yrði af auglýstum heimsenda vestan úr Ameríku, en jörð tók að skjálfa og Grímsvötn í kjölfarið að gjósa. Ég get vart gert mér í hugarlund þá miklu erfiðleika sem íbúar Skaftárhrepps og nærliggjandi sveita hafa mátt þola þessa daga, þar sem myrkur var um miðjan dag og yfir þessa fallegu og grösugu sveit rigndi ösku. Orðtakið að sjá ekki handa sinna skil, fékk sína eiginlegu merkingu í huga fólks. En öllum þessum erfiðleikum hafa íbúar mætt með miklu æðruleysi og sýnt sem aldrei fyrr hvað í þeim býr. Enda er þetta sú sveit á Íslandi sem þekkir áhrif eldgosa býsna vel og er henni í raun í blóð borin. Návistin við Kötlu, frásagnir þeirra sem mundi myrkrið sem fylgdi gosinu 1918 hafa lifað með fólkinu, að ekki sé minnst á Skaftáreldana sjálfa 1783-84.

Sú saga er ljóslifandi á Kirkjubæjarklaustri og sveitum þar í kring og vitnisburður náttúrunnar sjálfrar þar einnig einstakur. Hraunbreiðan mosavaxin, Eldmessutanginn og síðan Minningarkapellan um sr. Jón Steingrímsson við hinn forna kirkjugarð. Hann boðaði til messu þegar hraunið úr Lakagígum nálgaðist Kirkjubæ. Íbúar flúðu inn í litlu kirkjuna sína og báðu Guð almáttugan að lina þjáninguna og stöðva hraunið. Og þegar messunni lauk og gengið var vestur að Systrastapa var ljóst, að hraunið hafði stöðvast meðan messan var sungin og Drottinn Guð ákallaður í bæn.

Enn á ný er beðið. Við biðjum til þess sama Guðs og íbúar austur á Síðu og í Landbroti báðu, þegar Lakagígar opnuðust eða Katla ruddu úr sér. Við biðjum til hans og treystum á miskunn hans og mildi. Því jafnvel þó jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávar, er Guð okkar hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Honum getum við ávallt treyst og megum leita í styrk hans og halda okkur fast við hann, sem hefur bæði í sögulegu samhengi og í persónulegri reynslu okkar sýnt, að hann er traustsins verður. Hann bænheyrir, hann hjálpar. Hann ryður burt öskuskýi og framkvæmir enn á ný furðuverk á jörðu. Treystum því.

Ljósmyndin með pistlinum er af öskuskýinu. Myndina tók Matt Riggot.