Fé án hirðis.

Fé án hirðis.

Meira að segja þjóðkirkjan brást. Því þó að kirkjan hafi oft haft uppi mótmæli gegn græðgi og hroka samfélagsins í orði, þá naut hún einnig góðs af gjöfum og styrkjum og vináttu við féhirðina, útrásarvíkingana, auðmennina. Og tók þeim og skjalli þeirra oft fagnandi. Gleymum því ekki.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
15. apríl 2010

Við upphaf þeirrar vargaldar sem gengið hefur yfir íslenskt þjóðfélag undanfarin ár varð fleyg setningin “Fé án hirðis”.

Vísaði hún til peninganna sem sagðir voru bundnir í ríkisbönkunum þar sem enginn sinnti þeim. Þeir væru því eins og "fé án hirðis", bundnir á klafa ríkisins.

Boðskapur vargaldarinnar var að nú þyrfti að koma þessu fé í hendur hirða sem myndu annast um það sem sitt eigið, ávaxta það og efla, sjálfum sér og öðrum til heilla.

Öll vitum við nú hvernig sú saga endaði. Féð var leyst af básum ríkisvaldsins og komið í hendur “hirða” sem síðan sólunduðu því í eigin þágu – og skildu þjóðina eftir slippa og snauða.

Ástæðurnar fyrir því að svo fór eru auðvitað margar eins og skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið sýnir. Ekki verður fjölyrt um þær allar hér

En ætli ein af hinum veigameiri sé ekki sú að “hirðar” þjóðarinnar brugðust, og við urðum öll eins og “fé án hirðis”, fé sem hirðarnir nýttu í eigin þágu og yfirgáfu þegar úlfarnir þyrptust að.

Sama hvert litið er í þessari sorglegu sögu blasir við algert úrræðaleysi “hirðanna” andspænis úlfunum.

Fjölmiðlar, skólastofnanir, eftirlitsstofnanir, Alþingi, stjórnmálaflokkarnir og leiðtogar þeirra, forystumenn atvinnulífsins, launþegasamtökin, fjármálamennirnir, forsetinn, embættismenn.....allir brugðust.

Meira að segja þjóðkirkjan brást.

Því þó að kirkjan hafi oft haft uppi mótmæli gegn græðgi og hroka samfélagsins í orði, þá naut hún einnig góðs af gjöfum og styrkjum og vináttu við féhirðina, útrásarvíkingana, auðmennina. Og tók þeim og skjalli þeirra oft fagnandi. Gleymum því ekki.

Því er ég nú að velta þessu með hirðana sem brugðust fyrir mér að næstkomandi sunnudag fáum við að heyra textann úr Jóhannesarguðspjalli um góða hirðinn sem hljómar svona:

(Jesús sagði):

Ég er góði hirðirinn.

Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.

Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.

Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá.

Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn.

Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.

 

Þarna talar Jesús beint inn í atburði líðandi stundar hér á Íslandi. Leiguhirðarnir, féhirðarnir, flýðu og yfirgáfu sauðina þegar stund úlfsins, vargöldin, rann upp. Vargurinn tvístraði hjörðinni og hremmdi féð - sauðina -samfélagið. Enda ekki við öðru að búast. Féhirðarnir hugsuðu aðeins um eigin gróða, gættu sauðanna aðeins fyrir borgun og var ekki annt um samfélagið– tóku ekki ábyrgð á eigin gerðum.

Og taka hana ekki enn.

Andspænis þessum stendur Jesús.

Góði hirðirinn.

Hann sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.

Okkur.

Við höfum ekki fylgt honum lengi sem þjóð.

Við hlustuðum ekki á rödd hans.

Við eltum með glýju í augunum leiguhirðana – þeir reyndust allir falsspámenn.

Er ekki kominn tími til að flykkjast undir merki góða hirðisins?

Eða viljum við halda áfram að vera fé án hirðis?