Ræða á alþjóðlegri bænaviku

Ræða á alþjóðlegri bænaviku

Það er mér bæði ljúft og skylt að flytja ykkur boðskap dagsins því eins og segir í Guðspjalli dagsins þá er andi Drottins yfir mér af því að hann hefur smurt mig.
fullname - andlitsmynd Ingvi Kristinn Skjaldarson
24. janúar 2019

Ég heilsa ykkur í dag á þessum drottins degi í Jesú nafni.

Það er mér bæði ljúft og skylt að flytja ykkur boðskap dagsins því eins og segir í Guðspjalli dagsins þá er andi Drottins yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.

Mörgum kann að þykja ég taka full djúpt í árina að taka mér í munn orð Jesú, en ég er þess fullviss að við sem játum með munni okkar að Jesús sé Drottinn og trúum í hjarta okkar, höfum anda Guðs yfir okkur og séum smurð og send.

Það er nefnilega þannig að þessi köllun er ekki þannig að það séu bara fáir eða nokkrir sem hafa hana. Það er nefnilega svo að hvert og eitt okkar sem eigum frelsi Guðs, höfum þessa sömu köllun. Ég fæ oft að heyra sem hermaður og foringi í Hjálpræðishernum, að við séum að vinna svo gott starf, af því að við séum að aðstoða þá sem höllum fæti standa í samfélaginu okkar. En skoðun mín er sú að hver og einn Kristinn maður hefur þessa sömu köllun.

Á dögum guðspjallsins höfðu Gyðingar reist sér synagógur þar sem þeir fóru vikulega og fengu fræðslu og uppörvun. Og í guðspjallinu fáum við að heyra að Jesús hafi gert það að vana sínum að fara þangað. Hann sem var sonur Guðs, þekkti lögmálið og spámennina, hann fann að hann þurfti að eiga samfélag við aðra, uppörvast í orðinu og kenna þeim sem minna kunnu.

Textinn sem Jesús las þennan dag má finna í spádómsbók Jesaja og ber yfirskriftina„Fagnaðarboðskapur um frelsi”. Þessi texti segir okkur að Jesús hafi komið til að uppfylla þennan spádóm Jesaja og það var það sem hann gerði. En Jesús skildi okkur eftir sem lærisveina sína til að feta í hans fótspor og halda áfram með það áætlunarverk sem hann byrjaði hér á jörðu. Það þýðir að þessi orð Jesaja, síðar lesin af Jesú sem sagðu þau hafa ræst með honum- halda áfram í okkur sem lifum á þessari jörð í dag árið 2019.

Það er okkar hlutverk kæru vinir að fylgja þeirri köllun sem við höfum sem kristnir menn og konur að flytja þennan fagnaðarboðskap um frelsi til þeirra sem þurfa á því að halda.

En takið eftir því kæru vinir að í yfirskriftinni í Jesaja segir ekki bara boðskapur um frelsi- heldur fagnaðarboðskapur um frelsi! Fagnaðarboðskapur!! Jesaja hélt að þessi orð ættu við um frelsun Ísraels frá Babylon sem fagnaðarár þegar allar skuldir skyldu greiddar og réttlæt viðskipti ættu við eins og talað er um í þriðju mósebók. En allir þessir textar benda á sama hlutinn að við eigum að lifa þannig í samfélagi okkar að allir geti átt sömu tækifæri.

Í þriðju Mósebók 25. kafla stendur: Þegar landi þinn lendir í kröggum og kemst ekki af í samfélaginu skaltu veita honum hjálp eins og aðkomumanni eða gesti svo að hann haldi lífi ykkar á meðal. 36 Taktu hvorki vexti né okurleigu af honum. Þú skalt virða Guð þinn svo að bróðir þinn haldi lífi í samfélaginu. 37 Þú mátt hvorki draga vexti frá peningaláni til hans né leggja okurleigu á matvæli sem þú lánar honum.

Já.. þetta er nú bara alveg skýrt í orðinu, hvernig við eigum að koma fram við þá sem lenda í kröggum og komast ekki af í samfélaginu okkar. Þessi verð eiga svo samhljóm í ritningarlestrum dagsins í 5. Mósebók og Rómverjabréfinu. Fyrir mér er þetta nokkuð einfalt. Við eigum að skjóta skjólshúsi yfir þá sem ekkert hafa og því miður á það við enn þann dag í dag. Við höfum hér fólk sem á hvergi höfði sínu að halla- fólk sem vegna fíknar sinnar og/eða veikinda á erfitt með að halda húsnæði, sefur á götunni, sama hvernig viðrar. Fjölskyldur þurfa að leita til ættingja vegna þess að launin eða bæturnar eru svo lágar að þær duga ekki til þess að greiða fyrir húsnæðið sem í boði er og ef þú ert “heppinn” þá getur þú hírst í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði sem uppfyllir ekki staðla um brunavarnir og aðra öryggisþætti. Á slíkum stöðum búa margir í dag, líka börn! Og svo eru það þeir sem hingað koma í leit að öruggum stað, öruggu landi! Fólk sem hefur flúið ömurlegar aðstæður, stríð og ofsóknir. Það fólk er líka samferðafólk okkar hér á þessari jörð og við sem höfum heyrt„Fagnaðarboðskapinn um frelsi” eigum að taka það alvarlega og sýna gestrisni.

Lykilorð kæru vinir þegar kemur að því að sýna samferðafólki okkar hér á jörðu samkennd og hlýju, hjálp í raunum og allt það annað sem Jesús lagði á okkar herðar að fylgja þegar hann skyldi eftir fordæmi sitt okkur til handa er gestrisni! Við megum aldrei setja okkur á svo háan stall að við sláum okkur á brjóst og segjum eða hugsum,„þetta á ekki við um mig- mitt líf er ekki svona”.

Í Hjálpræðishernum er gestrisni einmitt eitt af lykilorðunum þegar kemur að því að mæta fólki. Við viljum mæta fólki með gestrisni en um leið hafa í huga að í dag erum svo heppin að vera gestgjafar- en á morgun getur það breyst og við þurft á gestrisni annarra að halda!

Við eigum að gleðjast frammi fyrir Drottni! Við eigum að þakka fyrir að við getum veitt aðkomumönnum vernd og að við sem höfum eitthvað aflögu, getum stutt við þá sem búa við þrengri kost en við sjálf. En við skulum ekki gleyma því hvaðan við komum. Að fyrir aðeins 2-3 kynslóðum var ekki sama velsæld og margir búa við í dag. Við eigum að vera réttlát og ekki sýna hlutdrægni!

Ég hef þá trú að Guð hafi með sköpun sinni ekki óskað þess að í heiminum væri slíkur ójöfnuður og við búum við í dag. Hér á landi sjáum við þennan ójöfnuð í því hvernig fjöldi fólks sem vinnur láglaunastörf eða þiggur bætur vegna veikinda eða fötlunar nær ekki endum saman og hverjum mánuði fylgir streitan og útsjónarsemin því að greiða fyrir lífsnauðsynjar, og þurfa oft og tíðum að velja hvað skal greiða og hvað ekki.

Hversu gott væri að lifa í heimi þar sem jöfnuður ríkir, þar sem enginn þyrfti að lifa á ölmusu eða hafa áhyggjur af morgundeginum.

En þá komum við að orðum Páls í bréfi hans til Rómverja sem var lesið svo vel hérna áðan- Því brýni ég ykkur systkin- fylgið ekki háttsemi þessa heims en umbreytist með hinu nýju hugarfari og lærið að skilja hver vilji Guðs er. Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber

Svo talar hann um að við séum öll limir á sama líkama og að við séum öll mikilvæg í ríki Guðs. Þá er ekki spurt um stétt né stöðu, því í augum Guðs erum við öll jafn mikilvæg. Við höfum öll hlutverk í sköpunarverki hans, hann gerir ráð fyrir okkur hverju og einu þegar kemur að áætlunarverki hans. Vissulega erum við mismunandi og höfum mismunandi gjafir og gáfur- en við erum öll mikilvæg. Og við sem þegar höfum fengið Fagngaðarboð um frelsi- ættum að hafa andstyggð á hinu vonda og halda fast við hið góða. Vera ástúðleg og sýna virðingu og vera brennandi í andanum.

Þar fáum við staðfestingu á því að andi Drottins sé yfir okkur og það er hann sem smyr okkur til þess að leggja stund á gestrisni!

Kæru vinir- við skulum nota þetta nýja ár til þess að skoða okkur sjálf sem kristna einstaklinga og reyna að hugsa samfélagið okkar á nýjan hátt. Reynum að skoða það á þann hátt að það sé reisn fyrir hvern og einn sem er meðlimur í þessu samfélagi, að hver og einn fái þátttökurétt eftir eigin getu og reynum að nota árið til að auka jöfnuð í stað þess að vera í því að rétta ölmusu til þeirra sem einnig eru kallaðir, smurðir til þjónustu í ríki Guðs.

Náð sé með okkur og friður frá Guði föður okkar og drottni Jesú Kristi! Amen