Að sjá okkar eigin ljós

Að sjá okkar eigin ljós

Við sjáum sjaldnast það sem er að gerast hér og nú, í miðjum vanmætti og ótta. Fólk sem er heiðarlega að basla við það að vera manneskja í dag, en myrkrið er bara of mikið og þess vegna er betra að draga sig í hlé frá öllu, beygja sig í álúta stöðu en að mæta varnarleysinu með tvær hendur tómar.

Við getum ekki lifað í veruleika sem hefur verið túlkaður fyrir okkur. Slíkur veruleiki færir okkur ekki von. Hluti af óttanum er að byrja að hlusta fyrir okkur sjálf. Að nota okkar eigin rödd. Að sjá okkar eigin ljós

(Hildegard frá Bingen. Lausleg þýðing sdm)!

Við þekkjum flest hér inni sögurnar af því þegar Jesús læknar fólk – kraftaverkasögurnar úr guðspjöllunum. Þetta eru frásagnir sem eru stór hluti af lífi Jesú, sem aðgreina hann frá okkur mannfólkinu og undirstrika guðdóm hans og eðli. Þetta eru einnig sögur sem mörg okkar eiga hvað erfiðast með að kaupa, sem við eigum hvað erfiðast með að trúa þegar vanmáttur og efi leika aðalhlutverkin í okkar lífi og fá okkur jafnvel til að efast um nálægð Guðs á þeim tímum sem myrkrið umlykur okkur sjálf og við náum ekki að finna ljósið, sjá birtuna, því það sem við þráum innst inni á þessum erfiðu stundum, er að finna áþreifanlega fyrir Guði, að hann grípi beint inn í aðstæðurnar og sýni sig á undraverðan hátt. Þó er það oftar þannig að fjarlægðin verður áþreifanlegri í þessum aðstæðum en nálægðin

Þessar kraftaverkasögur fjalla um allskonar fólk, blint á sál og líkama, holdsveikt, lamað og svo er ein saga sem Lúkasarguðspjall geymir og fjallar um konu sem hafði verið sjúk í 18 ár, hún var kreppt, bogin inn í sjálfa sig og alls ófær að reisa sig upp. Jesús sér hana þar sem hann er að kenna í samkunduhúsinu og kallar til hennar og segir við hana: Kona þú ert laus við sjúkleik þinn! Hann leggur síðan hendur yfir hana, snertir hana og um leið réttir hún úr sér og gengur burt, lofar Guð og er laus við það sem hefur hrjáð hana allan þennan tíma.

Það sem er merkilegt við þessar sögu og aðrar sama efnis er það sem er ósagt. Við vitum það reyndar sjálf að þegar við göngum bogin, þá sjáum við ekki lífið í kringum okkur. Við sjáum ekki sólarupprásina eftir dimma nóttina, við sjáum ekki glitið í augum náungans sem verður á vegi okkar, við sjáum ekki tækifærin sem eru allt um kring. Við getum ekki horft fram á við og ekki upp á við, lögun likamans er alltaf álút.

Við vitum ekki hvað hefur komið fyrir þessa konu, það er aldrei sagt, hvað hún hefur gengið í gegnum og hvað hún hefur upplifað. Skömm er eitt af því sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um þessa konu. Skömmin sem er færð til okkar utan frá og skrifar sína sögu gegnum aðgerðir og orð þeirra sem við mætum á lífsleiðinni, fjölskyldum okkar, félagslegu samhengi eða jafnvel í gegnum trúarlegar stofnanir og með hverjum staf dregur okkur niður, gerir okkur álút þannig að á endanum höfum við ekki burði til að horfa í augum á þeim sem verða á vegi okkar.

Það sem Jesús er að gera í svo mörgum af lækningafrásögunum, er að skila skömminni til baka, þangað sem hún á heima. Þess vegna mætir hann svo mikilli mótstöðu þeirra sem eru hluti af kerfi og regluverki samtímans. Hann er að segja við okkur að skömmin getur verið líkamleg líkt og andleg. Hún gerir okkur kreppt, hún beygir okkur. Hún er veruleiki sem hefur verið túlkaður fyrir okkar hönd, af þeim sem vilja vita betur en við hvað er best fyrir okkur og um leið hvaða staða í samfélaginu tilheyrir okkur.

Þessi kona sem Jesús mætir er táknmynd fyrir þau sem er hafnað á hverjum degi vegna þess að það er eitthvað í fari þeirra sem við viljum ekki kannast við, finnst óþægilegt eða rangt. Hún er táknmynd bæði fyrir þau sem ytra kerfið hafnar og bara fyrir þau, sem á hverjum degi er einhvers staðar úthýst vegna vanmáttar í samskiptum og undarlegrar þarfar okkar að þurfa alltaf að vera við stjórn, jafnvel þó að slíkt komi niður á þeim sem við mætum í lífinu vegna þess að við viljum ekki eða getum ekkihorfst í augu við það sem, athafnir okkar eða athafnaleysi gera manneskjunni sem við mætum.

Við lifum i samfélagi sem hampar þeim sterku. Við sjáum alls konar sögur af fólki sem hefur tekist á við erfiða hluti en hefur sigrað í eitt skipti fyrir öll. Það er sannarlega gott og gilt. En við sjáum sjaldnast það sem er að gerast hér og nú, í miðjum vanmætti og ótta. Fólk sem er heiðarlega að basla við það að vera manneskja í dag, en myrkrið er bara of mikið og þess vegna er betra að draga sig í hlé frá öllu, beygja sig í álúta stöðu en að mæta varnarleysinu með tvær hendur tómar. Og þegar mannleg tengsl eru fjarlæg, er Guð fjarlægur og einmanaleikinn verður líkamlegur og skömmin áþreifanleg.

Ég hef þá staðföstu trú að Jesús sé að bregðast við þessu í þessum sögum af kraftaverkunum. Hann er að sýna okkur hvað það er að vera manneskja, hvað við þurfum að gera til að gera heiminn og tilvist hvers annars örlítið betri á hverjum degi. Hann er að sýna okkur hvað gerist þegar við sjáum hvert annað, þegar við áttum okkur á því að dýrmæti okkar er fólgið í veru okkar, andlegri og líkamlegri en ekki í aðgerðum okkar eða þeim aðstæðum sem við kunnum að finna okkur í á ólíkum tímabilum í okkar lífi.

Guð ákvað að gerast manneskja í Jesú Kristi, hann gekk inn í mannlegan, holdlegan veruleika til að skila skömminni til baka og reisa okkur við. Og um leið sagði hann okkur: Gerið það sama. Dæmið ekki. Horfið út fyrir ramman, ekki ákveða fyrir annað fólk hvernig líf þess er eða persóna þess er. Ekki túlka veruleikann fyrir náungann, heldur gangið inn í hann og spyrjið: Hvernig líður þér í dag? hvað ertu að ganga í gegnum, er eitthvað sem ég get gert til að gera þér lífið bærilegra. Við erum nefnilega á sama báti, samferða í nándinni og þjáningunni.

Þegar við lifum svona, þá verður svo miklu auðveldara að rétta úr sér, ganga bein í baki, horfast í augu, gangast við eigin mistökum og gjörðum, sjá tækifærin og sólarupprásina eftir langa nótt. Sjá sitt eigið gildi. Þá skapast traust og samfélag og um leið verður auðveldara að lifa, jafnvel þó við séum vanmáttug og varnarlaus. Guð verður um leið nærri á svo marga vegu og fjærlægðin ekki eins knýjandi og áþreifanleg.

Að lifa á þennan hátt krefst kjarks, vegna þess að hluti af óttanum er einmitt fólginn í að byrja að hlusta fyrir okkur sjálf. Að nota okkar eigin rödd. Að sjá okkar eigin ljós.

Í því liggur mesta vonin og stærsta kraftaverkið!

(Hugleiðing flutt í æðruleysismessu í Akureyrarkirkju 18. september)