Veldu svo þann sem að þér þykir verstur

Veldu svo þann sem að þér þykir verstur

Sakkeus er manneskjan sem missti sjónar á því hvað er að vera manneskja. Hann er fíkillinn sem er hefur ekki stjórn á aðstæðunum, hvað þá sjálfum sér og fíknin getur verið sterkari öllum öðrum hvötum.

Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“ En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“ Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“ Lúk 19.1-10

Ég veit ekki með ykkur en ég er svolítið ringlaður á þessu öllu. Enginn gerir þær kröfur til stjórnmála og efnahagslífs að þar sé allt klippt og skorið, allar línur skýrar og einfalt mál að taka afstöðu. En nú er eins og umhverfi þetta sé ekki aðeins margbrotið og flókið, það hringast upp í eina órekjanlega flækju. Þræðirnir fléttast út og suður og sökin, ábyrgðin og sektin liggur ekki hjá einum hópi heldur ótal mörgum. Stjórnmálamenn, fyrirtæki, bankar – virðast hafa fundið einstigið niður í dýpstu myrkur, rækilega studd af fjölmiðlum, háskólum og þeim ýmsu sjóðum sem lögðu þessum hrunadansi stuðning.

Bretarnir hjálpuðu svo ekki til með þessum hörkulegu aðgerðum sínum en við erum, held ég, hætt að segja þeim að við séum ekki hryðjuverkamenn. Ástandið er orðið slíkt að við getum ekki einu sinni leyft okkur að gera þá að blórabögglum hversu hentugt sem það nú væri.

Dómararnir dæmdir

Eitt af því fáa sem enginn skortur er á þessa dagana, er sjálf umræðan. Umræðuefnin eru ótakmörkuð. Aldrei eru lengur vandræðalegar þagnir þegar fólk kemur saman og víst mætti fylla marga doðranta með því sem bloggað verið og skrifað um gang mála þessa síðustu mánuðina. Og ég segi ekki miklu meira um það hér og nú. Nei, ég eyði ekki þessum mínútum á fallegum sunnudagsmorgni í að bera í þann bakkafulla læk.

Nei, við skulum verja tímanum okkar í það að horfa til framtíðar. Ekki í því skyni að ráða í rúnir atvinnulífs og stjórnmála, heldur til þess að ræða það hvernig við sjálf hyggjumst bregðast við á þessum dögum – með það í huga að sá dagur rennur upp að við verðum ekki lengur í hlutverki dómaranna, eins og nú. Vel má vera að þeir tímar komi að við verðum í hlutverki þeirra sem dæmd verða. Hvað gerðum við þegar á móti blés? Hver voru okkar viðbrögð þegar áföllin dundu yfir og undirstöðurnar riðuðu til falls? Vel má vera að afkomendur okkar hafi engu minni áhuga á því að vita þetta heldur en að komast að því hverjir áttu sökina á því hvernig fór.

Hvers er þörf ef við ætlum að standa örugg frammi fyrir þeim dómi? Þurfum við tæknilega þekkingu? Þurfum við fræðimenn? Þarf slynga ráðgjafa og góða almannatengla? Ég held að þjóðin hafi aldrei haft annað eins mannval á þeim sviðum eins og undanfarin ár. Þá ætti spurningin að svara sér sjálf. Nei við þurfum augljóslega eitthvað sem a.m.k. kemur þessu til viðbótar.

Sakkeusar okkar daga

Guðspjall dagsins geymir lærdóm sem talar til okkar skýrum orðum og á einkar vel við í því umhverfi okkar sem hér hefur verið lýst og fjallað um. Sagan af Sakkeusi geymir eina hliðina enn á dýpt Krists og innsæi í mannlegt eðli.

Ef hún væri skrifuð á okkar dögum fjallaði hún varla um opinberan starsfmann sem hafði það hlutverk að innheimta skatt af borgurunum. Ég er nokkuð viss um að Sakkeusar á Íslandi samdráttar og kreppu komi úr öðrum geira. „Veldu svo þann sem þér þykir verstur“, getum við sagt og úrvalið er mikið. Því Sakkeus er fulltrúi græðginnar sem er jú orkan sem skapar gróðann. Hann er manneskjan sem missti sjónar á því hvað er að vera manneskja. Hann er fíkillinn sem er hefur ekki stjórn á aðstæðunum, hvað þá sjálfum sér og fíknin getur verið sterkari öllum öðrum hvötum. Jafnvel móðurástin getur þurft að láta undan. Fyrir vikið leggur greiðir hann hátt verð fyrir auð sinn og velsæld. Siðferðið sjálft verður undir meðan þetta háttarlag stýrir gjörðum hans.

Þetta er söguhetjan. Hann var yfirtollheimtumaður í þessu umhverfi þegar meðalævin var helmingur af því sem er í okkar samfélagi og hver matarbiti gat skipt sköpum fyrir líf fólks og framtíð. Hann var embættismaður hins erlenda valds og sá til þess að fé rynni frá fólkinu til Rómar. Sakkeus sat við hliðið og heimti fé fyrir keistarann en hann bæti ofan á álögurnar slatta fyrir sjálfan sig. Þetta var tvöföld synd í augum rétttrúaðra gyðinga enda sögðu þeir hann bersyndugan. Hann syndgaði með opinberum hætti – í allra augsýn. Nei, engar auglýsingastofur eða markaðsfræðingar voru honum til ráðgjafar og létu allt líta vel út um tíma. Synd Sakkeusar fór ekkert á milli mála.

Augu Krists

Sagan fjallar þó ekki um þann mennska harmleik og það hvernig Sakkeus blessaður varð fórnarlamb óhefts fjármagns, svo vísað sé í orðalag okkar daga. Sagan segir frá því að Kristur horfði á hann allt öðrum augum en allir hinir gerðu. Kristur leit þennan litla mann, sem sat uppi í tré og fylgdist með honum. Jú sama sjónin blasti við honum og öðrum – sjálfsagt hefur þetta verið svolítið skondið að sjá. En augun hans voru næmari og sáu miklu lengra. Fyrir Jesú var Sakkeus vissulega syndugur en hann var að sama skapi fórnarlamb. Undir yfirborðinu bjó dýrmæt sál, sköpun Guðs sem er svo óendanlega mikilvæg að þar má ekkert glatast.

Það sem er svo áhugavert í fari Krists er það hvernig hann gefur allt aðra sýn á aðstæðurnar heldur en aðrir gerðu. Og um leið fangar hann kjarna málsins. Guðspjallið fjallar um játningu, iðrun sem leiðir til fyrirgefningar. En áður en að því kemur þá gerist það að Kristur sýnir ógæfumanninum inn í eigið hugskot. Augu hans horfa á hann og greina það sem græðgin hafði flekkað. Um leið og hann kemur auga á það gengur Sakkeus inn í sjálfan sig og tekur sinnaskiptum.

„Mannssonurinn er kominn til þess að leita að hinu týnda og frelsa það“ Segir Kristur og vísar til þess að syndin og allt það sem leiðir af veginum, er í raun og veru nokkuð sem afbakar hina sönnu og góðu sköpun. Starf hans felst í því að finna það og endurheimta.

Dómur eða sáttmáli

Niðurstaðan verður eins konar sáttmáli. Nýtt upphaf á nýjum forsendum þar sem menn gangast við misgjörðum sínum, viðurkenna hvað gert hefur verið og taka sinnaskiptum. Þetta er eitt það stórkostlegasta sem lífið býður upp á. Og sagan geymir ýmis dæmi um slíkt hátterni þar sem hinir brotlegu mæta þolendum sínum og viðurkenna ódæðisverkin. Þetta gerðu menn í Suður Afríku meðal annars að frumkvæði biskupsins Desmont Tutu. Refsingin var ekki aðalmálið, heldur viðurkenningin sem svo leiddi til sáttmála. Hvert horfðu menn? Aftur á bak? nei ekki nema að takmörkuðu leyti. Aðallega horfðu menn fram á veginn og vildu gera allt hvað þeir gátu til þess að búa til betra og réttlátara samfélag.

Forsendan fyrir því er sú sannfæring að í hverjum manni búi eitthvað gott. Guðspjallið minnir okkur á það að kristin trú snýst ekki aðeins um það að við trúum á Guð. Hún snýst líka um það að Guð trúi á okkur. Og hún minnir okkur á það með siðaboðskap sínum og lærdómi að við eigum að hafa trú á okkur sjálfum og náunga okkar. Ekki missa trúna á hið góða í manninum! Sjáið hvað hægt er að gera.

Hlutverk okkar

Þessi skilaboð flytur guðspjall dagsins okkur, hér mitt í allri ringulreiðinni. Og við skynjum það vonandi að hlutverk okkar er annað og meira en að dæma, hvort sem menn eru bersyndugir eða kunna að fela það sem illa hefur verið gert. Nei, réttlætið er vissulega nauðsynlegt, en ekki endilega refsingin. Mikilvægari eru sinnaskiptin, viðurkenningin, iðrunin og svo endurheimt hins týnda.

Horfum fram á veginn, ágætu kirkjugestir. Leiðum hugann að því hversu mikilvægur prófsteinn ófarir sem þessar eru á einstaklinga og samfélög. Og spyrjum okkur að því hvernig við hyggjumst mæta þessari áskorun. Hvernig ætlum við, hvert og eitt, að takast á við þann veruleika sem okkur er búinn? Í þeim efnum þarf öðru fremur skýra fyrirmynd, dýrmæta sýn á náungann og ómetanlegan boðskap sem minnir okkur á það að við erum dýrmæt hvert og eitt, hvernig svo sem aðstæðurnar leika okkur.