Tími breytinga

Tími breytinga

Kristin trú hefur mótað mannlíf vestfirskra samfélaga sem og landsins alls. Jesús vissi að hann ætlaði lærisveinum sínum mikið hlutverk, að vitna um sig. Og hann varaði þá við að heimurinn myndi ekki alltaf taka erindi þeirra vel.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
20. maí 2012
Flokkar

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen

Snæfjallaströndin var böðuð geislum sólarinnar þegar ég fór að heiman í gær.  Ströndin bar nafn með rentu og Sléttan og mynni Jökulfjarðanna var einnig snævi þakið og bjart yfir að líta í sólskininu.  Ég hef haft Snæfjallaströndina fyrir augum mestan hluta lífsins en nú verður breyting á. 

Það voru líka breytingar í aðsigi hjá lærisveinum Jesú þegar hann talaði til þeirra forðum.  Við heyrðum lesið úr skilnaðarræðu Jesú frá altarinu áðan, en þar talar Jesús við lærisveinana og segir þeim frá því að innan skamms muni hann yfirgefa þá.  En hann ætlaði ekki að skilja þá eftir eina, heldur sendi hann þeim hjálpara, andann heilaga, sannleiksandann, eins og hann er nefndur í guðspjalli dagsins.  Sannleiksandinn mun vitna um Jesú og það eiga lærisveinarnir líka að gera. 

En hvað er það að vitna um Jesú?  Er það það að standa niðrá torgi og segja frá honum og eða trúarreynslu sinni?  Er það það að prédika með orðum eingöngu?   Að vitna um Guð hefur ekki bara með orð að gera.  Að vitna um Guð er að lifa lífinu þannig að það verði öðrum dýrmætt og laði fram hið góða og auki þeim styrk.  Og það er líka umhugsunarvert að þakklæti og Guð heyra saman, því þar sem þakklætið er, þar er Guð.  

Ég hef búið fyrir vestan mestan hluta ævi minnar og horft á Snæfjallaströndina nánast hvern dag í samtals 40 ár.  Snæfjallaströndin sést frá Ísafirði og líka frá Bolungarvík.  Sjónarhornið er ekki það sama en Ströndin stendur örugg og augu margra horfa á hana á degi hverjum.  Og þannig er það einnig með Guð.  Guð er.  Sá Guð birtist okkur í barninu í jötunni, í manninum á krossinum og við höfum greiðan aðgang að sögunum, sem fjalla um hann.  Þar lærum við hvernig við eigum að koma fram við hvert annað og þar lærum við hvernig við getum treyst á hann, trúað á hann.  Þar er grundvöll trúar okkar að finna, í bókinni góðu, sem liggur hér á altarinu í Neskirkju, sem og öðrum kirkjum landsins og í bókahillum flestra heimila á landinu.

Við byggjum samfélag okkar á kristnum gildum.  Það er umhugsunarvert að gildin sem fólk taldi fram á þjóðfundunum og vildi að mótuðu samfélag okkar voru kristin gildi.  Þannig er nú vitnisburður þjóðarinnar, þó ekki komi alltaf fram hvaðan gildin eru eða hver setti þau fram í upphafi.

Trúin hefur áhrif á líf okkar og kristin trú hefur áhrif á samfélag okkar vegna þess að við miðum við þau í allri lagasetningu og þjóðfélagsumræðu, án þess að nefna þau.  Þau hafa nefnilega mótað okkur.

Þegar ég hugsa til Ísafjarðar bernskuára minna þá hugsa ég um þau er mótuðu mig og lögðu grunn að lífi mínu.  Gerðu mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og stuðluðu að því að ég stend í þeim sporum sem ég er í í dag.  Það koma mörg andlit í huga minn og mörg nöfn.  Kennarar mínir og nágrannar.  Foreldrar mínir, systkini og fjölskylda.  Og þannig er það í lífi okkar allra.  Hugurinn hverfur til baka, til upphafsins, til þess sem var, því það hefur haft áhrif á það sem er. 

Í gær var ég á gangi í Bolungarvík.  Þá beygði rúta inn í götuna.  Ég leit í áttina til hennar og sá nokkur andlit sem ég kannaðist við frá Ísafirði.  Þarna voru á ferð fyrrum fermingarbörn, sem komu saman vegna fermingarafmælis, sennilega 50 ára fermingarafmælis, ef ég hef reiknað rétt.  Þau veifuðu og ég veifaði á móti og hugsaði til þeirra sem voru stór þegar ég var lítil.  En nú er aldursmunurinn svo til enginn.  Og ég hugsaði til þess hvernig Kirkjan tengir fólk og gefur tilefni til samveru því á hverju ári koma fermingarárgangar saman og gleðjast og rifja upp gamla tíma.  Og það sem er svo umhugsunarvert er að þegar árgangarnir hittast þá þarf ekki að vera að útskýra ýmislegt um leið og rifjað er upp, því allir skilja og hafa upplifað svipað á æskuárunum.  Það þarf ekki að hafa langan formála að sögunum því grundvöllurinn er hinn sami.  Ísafjörður æskuáranna, allt á sínum stað.

Og þannig er það með trúnna.  Þau sem eiga trú vita hver grundvöllurinn er og þess vegna þarf ekki að útskýra hann.  Við sem erum kristinnar trúar lítum til Jesú, sem er fyrirmynd okkar, frelsari og leiðtogi.  Lítum til hans sem talaði við fólkið, sem hlustaði á fólkið, sem framkvæmdi, læknaði og líknaði.  Í fótspor hans göngum við og berum þannig trú okkar vitni.  En við erum eins og farartækin.  Við þurfum eldsneyti til að geta haldið áfram.  Við köllum það andlega næringu.  Við vitum að enginn lifir án næringar.  Andleg næring er ekki síður nauðsynleg en líkamleg næring.  Hana fáum við m.a. þegar við komum saman í nafni Jesú eins og hér í Neskirkju í dag.

Sunnudagurinn í dag er eins og tómarúm í þeirri samfellu sem í kirkjuárinu er, að því leytinu til að hann er á milli uppstingningardags og hvítasunnu.  Í 40 daga og nætur birtist Jesús lærisveinum sínum og fylgjendum eftir upprisuna, sem við minnumst á páskum.  Þeir dagar eru kallaðir gleðidagar í kirkjunni.  Hann varð uppnuminn til himins eins og við minnumst á uppstigningadag og fram kemur í trúarjátningunni sem við förum með í hverri messu.  Áður en Jesús steig upp til himna fól hann lærisveinum sínum ákveðið hlutverk.  Þeir áttu að fara út um allan heim og prédika fagnaðarerindið öllu mannkyni.  Lærisveinarnir voru ekki aðeins þeir 11 sem eftir voru heldur erum við öll lærisveinar og höfum öll þetta hlutverk að boða í orði og í verki.  Við höfum mismunandi náðargáfur sem við eigum að nota, eins og postulinn segir í bréfi sínu, sem lesið var úr áðan. 

Við boðum trú okkar þegar við kennum barni bænir og vers.  Við boðum trú þegar við sýnum öðrum kærleika í verki.  „Hafið brennandi kærleika hvert til annars“ segir Pétur postuli í bréfi sínu, sem lesið var úr hér í dag.  Við boðum trú þegar við sinnum okkar daglegu skyldustörfum af trúmennsku og heiðarleika.  Því trúin er ekki geymd í skúffu í kommóðu og tekin fram þegar eitthvað bjátar á eða okkur líður illa.  Trúin fylgir okkur alla daga og gefur okkur kraft til að takast á við verkefnin og að muna eftir fjölskyldu okkar og vinum.  Þegar við erum meðvituð um að með okkur gengur Jesús, hinn upprisni frelsari og ber byrðar lífsins með okkur.

Lærisveinar Jesú voru hryggir þegar hann sagði þeim að hann myndi fara frá þeim.  En hann sagðist ekki skilja þá eftir eina.  Hann myndi senda þeim huggara, sannleiksandann.  Samt sem áður var dauði Jesú þeim mikið áfall en hann birtist þeim eftir upprisuna en hvarf þeim síðan og þess minnumst við á uppstingningardag.  Og svo liðu 10 dagar og þá gerðist undrið.  Andinn sem Jesús talaði um að hann myndi senda, kom. „Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru“ segir í Postulasögunni um atburðinn þann.  Andinn sameinaði og veitti skilning og kraft til að fara út í heiminn og sinna því erindi sem þeim var falið.  Og þannig er það enn í dag.  Jesús stóð við sitt.  En mikið tilfinningarót hlýtur að hafa verið á lærisveinunum þessa 10 daga á milli uppstigningadags og hvítasunnu.  Sennilegt er að þeim hafi fundist þeir vera einir og yfirgefnir með það hlutverk sem þeim hafði verið falið.  En eftir hvítasunnuna breyttist allt.  Þeir fengu hugrekki til að sinna sínu hlutverki.

Við lifum eftir hvítasunnu og við lesum texta guðspjallanna og Postulasögunnar eftir hvítasunnu.  Lesum þá með þeim augum að allt hafi ræst sem sagt var.  En þannig var lærisveinunum ekki innanbrjósts.  Þeir lifðu mitt í atburðunum.  Og þannig er það oft í lífi okkar.  Við erum ýmist gerendur í núinu eða heyrum í núinu um það sem var og það varpar oft ljósi á okkur og líf okkar, því við erum öll tengd.  Við erum öll uppalin í ákveðnu samhengi ekki bara gagnvart fjölskyldu okkar og vinum heldur líka gagnvart því samfélagi sem við komum frá.

Ísafjörður mótaði okkur.  Mannlífið, fjöllin, hafið.  Allt þetta hafði áhrif sem fylgja okkur enn í dag.  „Er það hafið eða fjöllin sem að laða mig hér að eða er það kannski fólkið á þessum stað?“ orti Óli popp á Flateyri.  

Kristin trú hefur mótað mannlíf vestfirskra samfélaga sem og landsins alls.  Jesús vissi að hann ætlaði lærisveinum sínum mikið hlutverk, að vitna um sig.  Og hann varaði þá við að heimurinn myndi ekki alltaf taka erindi þeirra vel.   „Þeir munu gera yður samkunduræk“  segir hann í guðspjallinu.  Það er eitt það erfiðasta sem fólk lendir í að vera útskúfað úr samfélagi.  Það er sárt og erfitt.  Þess vegna sendi Jesús lærisveinunum  heilagan anda sinn til að viðhalda kraftinum til að vitna og framganga í kærleika.  Til að hjálpa þeim að feta í sporin hans og mótast til myndar hans þannig að þeir væru færir um að reynast öðrum vel eins og Kristur sjálfur.

Það er sístætt verkefni okkar allra.  Þannig hef ég litið á þjónustu mína í Kirkjunni, að hún bæri Kristi vitni og væri fólki til hjálpar og styrktar.  Þannig mun ég áfram leitast við að feta í sporin hans, sem ég kynntist sem barn á heimili mínu og í kirkjunni minni.  Hans sem ég vil hafa sem leiðtoga lífs míns, fyrirmynd og Guð.  Á hann mæni ég í lífi mínu og þjónustu og veit að hjálpararinn er kominn, sannleiksandinn, sem sendur var á stofndegi kirkjunnar, hvítasunnunni.  Megi hann gefa okkur öllum æðruleysi, kjark og vit, í dagsins önn, jafnt á hversdögum sem hátíðum, í einkalífi og starfi.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.

Textar dagsins:

Lexía: Esk. 37:26-28;  Pistill: 1. Pét. 4:7-11;  Guðspjall: Jóh. 15:26-16:4.