Biblíudagurinn

Biblíudagurinn

Eitt er víst að frásagnir Biblíunnar eru þekktar meðal flestra þjóða og jafnvel þó þær séu margar hverjar orðnar 3-4 þúsund ára gamlar, vekja þær enn viðbrögð, hreyfa við fólki, jafnt ungum sem öldnum, svo mjög að fólk hefur á ólíkum öldum í ólíkum aðstæðum, séð ástæðu til þess að þýða frásagnirnar á móðurmál sitt
fullname - andlitsmynd Stefán Einar Stefánsson
12. febrúar 2012
Flokkar

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Biðjum saman bæn Hallgríms:

Vertu Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, Hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni. - Amen
Í dag er Biblíudagurinn, dagur sem sérstaklega er helgaður bókinni sem breytir heiminum. Það er 2. sunnudagur í níuviknaföstu sem hefur þennan sérstaka heiðurssess. Og ég leyfi mér að segja heiðurssess þó kannski fari ekki alltaf mjög mikið fyrir þessum degi í lífi okkar Íslendinga. Þó er hann kannski hin eiginlega bókmenntahátíð, því þær 66 bækur sem Biblían hefur að geyma eru margar hverjar taldar til merkustu rita bókmenntasögunnar – textar þeirra, jafnvel einstakir kaflar eða vers, eru þekktir og lesnir, sungnir, ígrundaðir og út af þeim lagt, í milljónum skipta um allan heim á hverjum degi, allt árið um kring. Hversu oft ætli orðin „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta“ séu lesin og sungin á hverjum degi? Eða hversu oft ætli bænin sem Jesús kennir: „faðir vor, þú sem ert á himnum“ sé beðin í hljóði eða upphátt. Eitt er víst að frásagnir Biblíunnar eru þekktar meðal flestra þjóða og jafnvel þó þær séu margar hverjar orðnar 3-4 þúsund ára gamlar, vekja þær enn viðbrögð, hreyfa við fólki, jafnt ungum sem öldnum, svo mjög að fólk hefur á ólíkum öldum í ólíkum aðstæðum, séð ástæðu til þess að þýða frásagnirnar á móðurmál sitt. Textarnir eru varðveittir á hinum fornu tungumálum hebresku og grísku og því hefur það einatt kostað mikla fyrirhöfn að vinna að þýðingu þeirra – en þó er það gert, þegar ekki er stuðst við yngri þýðingar textanna – og nú er svo komið að Biblían hefur í heild sinni verið þýdd á 459 tungumál.

Já í dag er bókmenntahátíð, en hátíðin þessi ristir þó dýpra en svo að tilurð hennar og tilgangur snúi aðeins að þeirri merku list sem bókmenntir þjóðanna er. Hún ristir dýpra vegna þess sem þessar tilteknu bókmenntir, þessar tilteknu bækur, 66 að tölu, sem bundnar eru í eina heild, vitna um hver og ein, hver á sinn hátt þ.e. um  þann Guð sem kristnir menn játa sem föður sinn og skapara himins og jarðar. Þær vitna um hann, vitna um hugsanir mannsins og glímu trúarinnar, þær vitna um það hvernig Guð frelsar heiminn. Dýpra getur eflaust enginn boðskapur rist og þess vegna ristir jafnframt djúpt sú hátíð sem helguð er textunum sem varðveita boðskapinn og vitna um trúna. Við skulum gleðjast yfir því að fá að lifa þessa hátíð og þó hún láti ekki mikið yfir sér hvað hið ytra byrði varðar, þá getum við gert hana að stórhátíð meðal okkar í dag. Það skulum við gera. Sáðmaðurinn Og á Biblíudaginn hlýtur ritningin sjálf að vera í öndvegi – hún talar til okkar alla daga, með sínum sérstæða hætti. Margir lesa hana og íhuga daglega eftir eigin höfði og leita í hana eftir því sem þurfa þykir, en kirkjan  heldur einnig utan um textana með sínum hætti og í hverri guðsþjónustu eru textar Biblíunnar fluttir og ígrundaðir með einu eða öðru móti. Það gerist ekki aðeins í messu sunnudagsins, heldur einnig í öðrum guðsþjónustum, eins og skírnum, fermingum, hjónavígslum og útförum. Og þá hefur kirkjan á grundvelli hefðar, ritskýringar og tilefnis, valið texta sem tala til okkar með afgerandi hætti.

Í dag hefur guðspjallstextinn að geyma dæmisögu Jesú sem hann segir lærisveinum sínum, að vísu í áheyrn fleiri einstaklinga, en dæmisögu sem hann ætlar þeim sérstaklega. Sagan er ætluð til þess að útskýra og með einhverjum hætti að segja til um það hvernig Guðsorði var, er og mun verða tekið af þeim sem það heyra. Dæmisagan byggir á litríku líkingamáli, þar sem sáðmaður er á ferð, hann dreifir fræi í akur sinn, með það að markmiði að uppskeran verði einhver – hver sem sáir vonar jú að uppskeran verði mikil, þó aðstæðurnar séu vissulega mis líklegar til árangurs.

Og þannig er það með flestan svörð, að þegar fræjum er sáð í hann, munu einhver fræanna spíra og verða annað og meira en fræið eitt, en það er þeim ekki öllum gefið og það af ýmsum ástæðum. Sumt  fellur í frjóa jörð við kjöraðstæður, annað fellur meðal þyrna þar sem hættur leynast og annað fellur á klöpp eða milli steina þar sem ekki er sérlega lífvænlegt. Og Jesús líkir orði Guðs einmitt við fræ, ótal fræ, jafn mörgum þeim hjörtum sem komast í tæri við orð Guðs og heyra það. Því orðið eitt hefur ekki markmið í sjálfu sér, heldur er það líkt fræi, sem ætlað er að vaxa og verða meira. Af orði Guðs á trúin að spretta og hún leiðir til náðar og náðin Guðs frelsar. Sáðmenn Íslands En orð Guðs hefur ekki borist um jörðina fyrir einskæra tilviljun eða án aðkomu mannlegs máttar. Orð Guðs hefur dreifst um milli manna í gegnum aldirnar og um álfur vegna þess að því hefur fylgt sannfæring um að sá sannleikur sem það ber með sér, þurfi og eigi að ná til allra, og raunar má í textum Biblíunnar finna skýra kröfu um að kristnir menn geri einmitt það, miðli orðinu og boðskap þess. Þannig líkur guðspjalli Matteusar á þessum orðum: Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Og þessi skipun, einmitt þessi, varð þess valdandi að meðal íslenskrar þjóðar hafa alltaf búið menn og konur sem tekið hafa hlutskipti sitt sem boðendur alvarlega. Þó ekki yrði þjóðin lögformlega kristin fyrr en árið 1000, vitna heimildir um kristið fólk í landinu allt frá fyrstu árum byggðar. Smátt og smátt öðlaðist kristinn siður mikilvægan sess og kirkjan festi rætur í landinu. Á öllum öldum hefur kirkjan síðan átt sína sáðmenn, sumir þeirra hafa sáð í víðfema akra og náð til fjölda fólks, jafnvel langt út fyrir eigið æviskeið, aðrir hafa af natni hlúð að minni ræktarsetrum, og sinnt þar ekki minna umverðri skyldu en þeir sem stórtækari hafa gerst í akuryrkjunni. Allir hafa þeir, sáðmennirnir, sinnt því boði sem áður var minnst á. Ganga má út frá því að allir hafi þeir þekkt til guðspjalls dagsins, í 8. kafla Lúkasarguðspjalls, og eflaust hafa þeir margir hugsað til þess, hver uppskeran að lokum yrði. Oft hefur viðfangsefnið reynst þungbært og mótdrægt, oft hefur árangurinn virst lítill og eflaust hefur einhver misst móðinn gagnvart hinu vandasama viðfangsefni. En sem betur fer hafa meðal íslenskrar þjóðar komið fram konur og karlar sem ekki hafa látið deigan síga og þeim tekist að halda orði Guðs lifandi meðal fólksins.

Einn þessara einstaklinga er talinn fæddur árið 1542 á Staðarbakka í Miðfirði. Nafn hans rís hátt í sögu okkar fámennu þjóðar, ekki fyrir það að hann skyldi lengst sitja biskupsstól á Íslandi, alls 56 ár, heldur fyrst og fremst fyrir það þrekvirki sem bókaútgáfa hans reyndist. Biskup varð hann við andlát Ólafs Hjaltasonar, fyrsta lútherska biskupsins á Hólum, en áður hafði hann m.a. sinnt prestsþjónustu að Breiðabólstað í Vesturhópi, þar sem hann kynntist hinni merku prentsmiðju sem þar var starfrækt. Prentsmiðjuna flutti hann að Hólum og hóf að prenta þar bækur  af ýmsum toga, fyrst og fremst guðsorðabækur en þó einnig önnur merkisrit.

 Mesta þrekvirkið var án efa þýðing og prentun Biblíunnar árið 1584, en sú bók er einatt kennd við biskup sjálfan – og kölluð Guðbrandsbiblía. Hún var fyrsta heildarþýðingin á íslenska tungu. Það er ólíklegt að við áttum okkur fyllilega á því hverslags kraftaverk þessi útgáfa var, gerð meðal minnstu þjóðar, norður í höfum, við erfiðar aðstæður - líkast til voru Íslendingar ekki fleiri en 50 þúsund á þessum tíma. Þó varð íslenskan, móðurmálið okkar, nítjánda þjóðtungan í heiminum sem eignaðist Biblíuna í heildarþýðingu. Það þýðir að 440 tungumál, hafa frá árinu 1584 komist í þann forréttindahóp, þ.e.a.s. ein þjóð að meðaltali hvert einasta ár frá þeirri stundu er Guðbrandur lauk verki sínu. Og er það ekki mögnuð staðreynd, segir það ekki eitthvað um það kraftaverk sem þessi bók er – og jú á sama tíma um ótrúlegt áræði sáðmannsins og biskupsins Guðbrands Þorlákssonar? Biblía Guðbrands var prentuð í fimmhundruð eintökum og var hverri kirkju landsins, samkvæmt konungsbréfi, skipað að eignast eintak af henni. Nú eru eintökin færri til muna en þó eru þó nokkur til.

Þessa dagana stendur yfir merkileg sýning, sem sjöundadags aðventistar hafa af myndarbrag sett upp um Biblíuna. Sýningin er í Hörpu, hinu glæsilega tónlistarhúsi við hafnarbakkann í Reykjavík. Ber sýningin yfirskriftina, Biblían í þrívídd, Rúmast Biblían í Hörpu? Þar eru meðal annars til sýnis elstu prentanir Biblíunnar á íslensku, og þar er að sjálfsögðu í öndvegi Guðbrandsbiblían sjálf. Eintökin sem til sýnis eru, eru í eigu Hins íslenska biblíufélags, sem haldið hefur utan um útgáfu og dreifingu hinnar helgu bókar, allt frá árinu 1815. Sýningin stendur til 16. febrúar og er opin alla daga. Það er fyllsta ástæða til að hvetja fólk til að líta þar við.

Og þá má einnig bæta því við að það eintak sem til sýnis er af biblíu Guðbrands er ekki síst merkilegt fyrir merkilega áritun sem finna má á titilsíðu bókarinnar. Þar er að finna eiginhandarskrift Halldóru Guðbrandsdóttur, dóttur biskups, en hún tók við stjórn á Hólastað eftir að faðir hennar missti heilsu. Var hún mikill kvenskörungur og hafði mikil áhrif um sinn tíma á Íslandi. Áritunin vitnar um gjafmildi Halldóru, því hina dýrmætu bók virðist hún hafa fært litlum dreng, aðeins fjögurra ára gömlum. Það hefur þótt rausnarleg gjöf, ekki síst þegar litið er til þess að eintak hinnar merku prentunar kostaði 2-3 kýrverð. En einhverju sinni er góður maður velti verðgildi bókarinnar fyrir sér, hafði hann samband við Landssamband kúabænda og fékk þá uppgefið að kýrverð í dag mætti áætla í kringum 200 þúsund krónur. Þær eru ekki margar bækurnar gefnar út í dag sem bera slíkan verðmiða og hvað þá tvöfaldan eða þrefaldan.

Guðbrandur vann mikið og gott starf og allar götur síðan hefur kirkjan verið undir áhrifum af útgáfustarfi hans, jafnvel þó oft hafi Biblían verið þýdd síðan og prentuð miklu oftar. En starfið nam ekki staðar með honum, það er sístætt. Og þó Biblíur hafi verið prentaðar í töluverðu upplagi á 16. 17. og 18. öld, urðu mikil hallæri á öndverðri 18. öldinni til þess að gæta tók mikils skorts á Biblíum og var svo komið um aldamótin 1800 að margar kirkjur áttu ekki sitt eintak af henni og urðu að fá lánaðar Biblíur þegar messað var. Heimildir víðar að, vitna um svipaða stöðu, bæði á Norðurlöndunum og annarsstaðar í norðanverðri Evrópu. Sú ömurlega staða varð til þess að Biblíufélag var stofnað í Bretlandi árið 1804 og eitt af fyrstu verkefnum þess var að koma ritningunni í hendur þeirra sem þjáðust vegna Napóleonsstyrjaldanna. Þetta félag óx og styrktist og áhugi vaknaði á því að hefja starfsemi áþekkra félaga í nágrannalöndunum.

Varð það m.a. til þess að ungur skoskur prestur, maður að nafni Ebenezer Henderson, starfsmaður Breska og erlenda biblíufélagsins, var sendur hingað árið 1814, m.a. með það að markmiði að stofna íslenskt biblíufélag en einnig að dreifa og selja íslenskar Biblíur og Nýja testamenti, sem prentuð höfðu verið í Kaupmannahöfn árin á undan. Hið íslenska biblíufélag var síðan stofnað í Reykjavík, nánar tiltekið í Aðalstræti 10, húsi sem enn stendur, þann 10. júlí árið 1815. Það var ekki fyrsta biblíufélagið sem Íslendingar höfðu aðkomu að, því rúmu ári fyrr var samskonar félag sett á fót í Danmörku og í fyrstu stjórn þess sátu tveir menn af íslensku bergi brotnir, þeir Grímur Thorkelín ríkisskjalavörður og Börge Thorlacius, þáverandi rektor Hafnarháskóla. Þeir voru sáðmenn, rétt eins og Ebenezer Henderson.

Félagið íslenska er elsta starfandi félag landsins og hefur enn sama hlutverki að gegna og það hafði við stofnun þess. Að vísu er ekki hægt að halda því fram að skortur sé á prentuðum Biblíum í landinu, en enn er skortur á því að fólk gerist henni handgengið og að orð Guðs nái útbreiðslu um leið.

Ebenezer, þessi mikli áhrifavaldur, kom hér ungur maður eins og áður sagði og starf hans og uppörvun olli straumhvörfum í margháttuðu tilliti. Það birtist meðal annars í því að félagið sem stofnað var, heldur enn í dag utan um þýðingu og útgáfu Biblíunnar á íslensku. Það er vandasamt verk og það skiptir máli hvernig að því er staðið. Þetta félag starfar fyrir allt kristið fólk í landinu, hvar sem það skipar sér meðal trúfélaga og raunar teygir starfsemi félagsins sig lengra, út fyrir landsteinana, því um árabil hefur félagið lagt fjármuni til útbreiðslu og þýðingarstarfs í fjarlægum löndum. Með því vill félagið endurgjalda þeim sem sáu þann vanda íslensku þjóðarinnar, sem fólst í takmörkuðu aðgengi að Guðs orði og brugðust við. Nú vilja þeir sem notið hafa starfs þessa fólks, láta aðra njóta með.

Hvaða máli skiptir sáðið? En hvaða máli skiptir þetta starf? Hvers vegna ganga einstaklingar enn í hlutverk sáðmannsins. Það er vegna þess að þeir hafa notið þeirra forréttinda að skynja og jafnvel skilja að einhverju marki, hvað trúin og traustið til Guðs, hefur fært manninum. Í lexíu dagsins, þ.e. textanum sem lesinn var úr Gamla testamentinu hér áðan segir m.a.: Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur. Og ástæðan að baki þessari áskorun er einnig gefin upp: Hinn guðlausi láti af breytni sinni og illmennið af vélráðum sínum, og snúi sér til Drottins svo að hann miskunni honum, til Guðs vors því að hann fyrirgefur ríkulega.

Að sönnu falla fæstir í flokk sannkallaðra illmenna en margir eru hinir guðlausu. Og öll eigum við það sameiginlegt að breiskleikar búa innra með okkur – enginn er þar undanskilinn. Vissulega eiga þeir sér ólíka birtingarmynd, þ.e. breiskleikarnir, og lestirnir hafa mis alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinginn og samfélagið.

En getum við ekki öll með einhverju móti og á einhverjum tíma, tekið okkur í munn orð Páls postula er hann segir: Ég skil ekki hvað ég aðhefst. Það sem ég vil, geri ég ekki. hitt sem ég hata, það geri ég. Trúin er okkur þess vegna mikilvæg stoð og raunar lífsnauðsynleg. Fyrst og fremst er það af tveimur ástæðum, annarri hinni fremri. Það er að trúin frelsar, fyrirgefur og leysir okkur undan oki syndarinnar. Hitt er það að trúin og þá sérstaklega Guðs orð, veitir okkur leiðsögn í hverjum þeim aðstæðum sem upp kunna að koma og beina okkur inn á þann veg þar sem við fáum það gert sem okkur ber, og hverfum frá því sem við eigum ekki að gera. Orð Guðs, sáðið í guðspjalli dagsins, hefur þess vegna, óendanlega mikið gildi fyrir okkur, hvert og eitt. Það verður þó að hlúa að því og rækta, það verður að bera ávöxt. Þá staðreynd orðaði sr. Valdimar Briem, sálmaskáld og vígslubiskup vel, er hann sagði:

Eitt lítið frækorn, lágt í jörðu hvílir, það verður eik, sem veröld allri skýlir, Eitt lítið frækorn, sáð í mannsins hjarta, það verður eik með lífsins ávöxt bjarta. Eitt lítið frækorn, geymt í grafarbeði, það verður eik, sem vex í himins gleði.
 Gleðilegan Biblíudag