Trúin, réttlætið og samviska mannsins

Trúin, réttlætið og samviska mannsins

Gildi trúar og trúarstofnana fyrir einstaklinga og þjóðfélag hefur undanfarið verið mjög til umræðu og er víða tekist á um hlutverk og stöðu trúar og helgihalds á opinberum vettvangi
fullname - andlitsmynd Pétur Pétursson
13. desember 2011
Meðhöfundar:
Jónas Elíasson

Gildi trúar og trúarstofnana fyrir einstaklinga og þjóðfélag hefur undanfarið verið mjög til umræðu og er víða tekist á um hlutverk og stöðu trúar og helgihalds á opinberum vettvangi, ekki síst í skólum en einnig við táknrænar athafnir sem marka tímamót í lífi einstaklinga, samtaka, stofnana og þjóðar. Um leið kemur fram sú mýta eða goðsögn sem lifað hefur góðu lífi frá frönsku upplýsingunni um að hægt sé að aðgreina einkalíf og hið opinbera þegar um trú og trúarafstöðu er að ræða. Trúin er samofin þjóðfélaginu á margslunginn hátt enda byggir tilvist þess á grundvallartrausti sem er forsenda farsæls mannlífs og samskipta. Trúin á framtíðina er trú í víðum skilningi þess orðs. Söguleg og félagsfræðileg greining sýnir að fullyrðingar um slíka aðgreiningu trúar og samfélags eru annað hvort byggðar á misskilningi eða afneitun á fyrirbærinu trú, stundum af hálfu samfélagsmeðvitaðra sértrúarhópa sem kjósa að skilgreina trúarhugtakið sem þrengst.

Óháð persónulegri afstöðu hvers og eins og óháð misgjörðum einstakra leiðtoga sem sækjast eftir auði og völdum í nafni trúar má það ljóst vera að trúarbrögð varðveita lykla tákna til skilnings á siðferðilegri og sögulegri arfleifð sem menning og samfélag hvíla á. Þar er glímt við spurningar um ranglæti, þjáningu og dauða og þar prófar einstaklingurinn sjálfan sig frammi fyrir hinstu rökum tilverunnar með því að skoða sinn innri mann og ábyrgð sína óháð tímabundnum væntingum og hagsmunum. Í því sambandi er vert að huga sérstaklega að orðinu samviska. Samviskan er ekkert einkamál, þvert á móti er hún sammannlegt og trúarlegt fyrirbæri. Það er að fara yfir lækinn til að sækja vatn þegar menn stilla trúarbrögðum upp gegn félags- og náttúruvísindum og dæma þau úr leik.Kjarni trúarbragða er samofinn sögu mannsins frá upphafi en áðurnefnd vísindi eru vart meira en tveggja eða í mesta lagi þriggja alda gömul. Vísindaheimspeki og vísindasaga sýna auk þess að tengsl trúar og vísinda eru margvísleg og eru línurnar alls ekki eins ljósar og oft er látið í veðri vaka.

Ef við göngum út frá menningarheimi okkar og sögu þá er ljóst að hollusta við hagsmuni heildarinnar og grundvallargildi eins og sannleikur, réttlæti, kærleiki, mannhelgi og samstaða með þeim sem standa höllum fæti eru nátengd innrætingu boðskapar Jesú Krists eins og hann birtist í Nýja testamenntinu. Þessi grundvallargildi eiga kristnir menn m.a. sameiginleg með siðrænum húmanistum, guðleysingjum og efahyggjumönnum enda liggja margslungnir þræðir þarna á milli, ekki hvað síst varðandi mannhelgi, samfélagslega ábyrgð og tillitsemi við minnihlutahópa. Kærleiksboðskapur Jesú Krists á sér rætur í menningu og sögu fornþjóða við botn Miðjarðarhafs og hefur skilað sér til smáþjóðar í Norður-Atlantshafi fyrir tilstilli kristinnar kirkju sem hefur starfað hér í þúsund ár eða nánar til tekið allt frá því þegar landið fyrst byggðist. Þeir menn sem fyrst stigu fæti á íslenska jörð voru sendiboðar alheimskirkjunnar og þeir helguðu landið og tengdu verndarvætti þess við kristið táknmál. Eitt af því mikilvæga sem guðstrúin hefur lagt fram til menningar og farsældar þjóðfélagsins er afnám hefndarinnar, þ.e. þeirrar kvaðar sem hvíldi á fjölskyldum og ættum að hefna misgerða með beinum aðgerðum. Trúin á einn sannan Guð afnam hefndarskylduna því hefndin og réttlætið var og er Guðs eins. Áður var hefndin heilög skylda en hún var bönnuð og bannið gilti jafnt fyrir trúaða sem vantrúaða því að það byggir á algildu lögmáli. Guð gerði sáttmála við manninn og í umboði Guðs eru sett lög og dómar. Þegar öllu er á botninn hvolft hvíla mannréttindi réttarríkisins á þessum hugmyndum. Það er verkefni guðfræðinga og trúarbragðafræðinga að finna kjarna þessa boðskapar á ólíkum tímum og gera hann skiljanlegan í mismunandi aðstæðum. ÞEinnig er það hlutverk trúarleiðtoga eins og spámannanna forðum að minna þjóðina á þessi grundvallargildi og gagnrýna valdið þegar það er komið í andstöðu við hugsjónina um réttlátt samfélag þar sem andleg og efnisleg velferð þegnanna er í heiðri höfð.

Jónas Elíasson er prófessor í verkfræði við H.Í. og Pétur Pétursson er prófessor í guðfræði við sama skóla.