Sjóðheit reynslusaga um fermingarfræðslu

Sjóðheit reynslusaga um fermingarfræðslu

Í júníhefti Víðförla skrifaði ég þanka um fermingarfræðslu. Þar sagði ég frá því að til stæði að hafa fimm daga fermingarnámskeið í lok ágúst. Nú er því lokið og mun ég segja frá því sem þar fór fram.
fullname - andlitsmynd Sigurður Grétar Sigurðsson
25. september 2002

Í júníhefti Víðförla skrifaði ég þanka um fermingarfræðslu. Þar sagði ég frá því að til stæði að hafa fimm daga fermingarnámskeið í lok ágúst. Nú er því lokið og mun ég segja frá því sem þar fór fram.

Það voru glöð börn úr sex prestaköllum sem héldu af stað í Vatnaskóg mánudagsmorguninn 26. ágúst sl. Þetta voru börn úr Breiðabólsstaðar-, Melstaðar-, Prestsbakka-, Skagastrandar-, Þingeyrarklausturs- og Sauðárkróksprestaköllum. Samtals voru þetta 103 börn sem er býsna stór hópur. Aðstaðan í Vatnaskógi er reyndar þannig að þessi fjöldi er ekkert mál.

Markmiðið með svona löngu námskeiði var að ná krökkunum út úr hversdagstaktinum, taka úr þeim mesta nýjabrumshrollinn og ná þeim inn í góðan takt með góðum anda og höfða þannig til upplifunarþátta hvað varðar fræðslu, helgihald og samveru. Þótti okkur þessi markmið nást býsna vel.

Dagskráin var þannig: Á mánudeginum var komið í hádegismat og síðan var frjáls tími þann daginn, með kaffi vitanlega og kvöldmat. Þegar ég tala um frjálsan tíma á ég við að ýmis tilboð eru í gangi, s.s. bátar, íþróttir, gönguferð, kassabílar, borðtennis, íþróttahús, fótbolti o.fl. sem heillar unga krakka. Þetta var gert til að veita þeim ærlega útrás fyrir mikla orku. Eftir kvöldmat var kvikmyndin Jesús (frá 1979) í styttri útgáfu sýnd en hún fylgir Lúkasarguðspjalli. Í kjölfar hennar var kvöldvaka á léttum nótum með söng og gamanmálum auk þess sem stutt hugleiðing var í lokin sem var eins konar inngangur að fræðslu námskeiðsins. Þá var kvöldkaffi auk þess sem boðið var upp á bænastund í kapellu fyrir þá sem vildu. Næstu fjórir morgnar, þriðjudags- til föstudagsmorgnar, voru eins að því leyti að vakið var kl. 08.30, morgunverður kl. 09.00, morgunstund með öllum kl. 09.30. Á henni var mikið sungið auk þess sem inngangur að efni dagsins var fluttur. Í innganginum var notað myndrænt efni enda öll aðstaða til slíks í sal Gamla skála. Síðan var krökkunum skipt í fimm hópa sem báru nöfn guðspjallamannanna auk Postulasögunnar. Kenndar voru þrjár 45 mín. langar kennslustundir með frímínútum á milli. Hver prestur kenndi einum hópi þann morgun og öðrum hópi næsta morgun og svo koll af kolli. Þegar upp var staðið höfðu allir fimm prestarnir sem kenndu hitt fjóra af hópunum fimm. Hópunum var skipt þannig að tveir hópar voru fyrir stúlkur og þrír fyrir drengi. Kom það vel út.

Eftir hádegi og fram til ca. 17.30 var frjáls tími þar sem boðið var upp á ýmis tilboð eins og fyrr sagði. Mjög vinsælt var að fara á báta og fengu krakkarnir meira að segja tækifæri til að vera á tuðru sem hékk aftan í mótorbátnum.

Mörg busluðu í vatninu enda ennþá sumar. Einn daginn var farið í drullugöngu og lýsir heitið því best hvernig þau voru þegar þau komu heim. Þá var einnig boðið uppá sundferð einn daginn.

Kl. 17.30 á þriðjudeginum völdu þau einn af þremur álíka stórum hópum. Einn hópurinn fór í stuttmyndagerð þar sem þau unnu með valda biblíutexta og bjuggu til stutta kvikmynd sem miðla átti boðskap textans. Það var mjög skapandi og skemmtileg vinna. Annar hópurinn, sagnaslóðahópur, fór að Hallgrímskirkju í Saurbæ og fræddist um sr. Hallgrím Pétursson og störf hans. Þriðji hópurinn hét „Ég er frábær“ og var þar farið yfir einn hluta úr sjálfstyrkingarefni fyrir unglinga. Tókst starf allra þessara hópa mjög vel.

Á þriðjudagskvöldið var síðan poppmessa þar sem fylgt var lesmessuformi fjölskylduguðsþjónustu en sungnir léttir og fjörugir söngvar auk þess sem tvö fermingarbörn og einn prestur mynduðu hljómsveit í nokkrum laganna. Eftir kvöldhressingu var aftur boðið upp á bænastund í kapellu fyrir þau sem vildu.

Á miðvikudeginum var messa kl. 17.30. Það var messa með gregortóni, klassísk guðsþjónusta þar sem einstakir messuliðir voru útskýrðir og tónið kennt. Var hún í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Börn lásu lestrana. Þau tóku virkan þátt í athöfninni, sungu vel og fylgdust með. Kl. 20.00 á miðvikudagskvöldinu kom Beyene, sem er mörgum að góðu kunnur, á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Fyrst var skoðað myndband frá Eþíópíu sem sagði frá kristniboði og hjálparstarfi. Síðan var hópnum skipt í tvennt þar sem annar helmingurinn sat og ræddi við Beyene og hinn helmingurinn fór í poppkornsveislu. Í þeirri veislu voru tvær skálar. Önnur innhélt 20% af poppinu en hin 80% af poppinu. Krakkarnir drógu miða sem skipti þeim í tvo hópa, annan frá Íslandi en hinn frá Eþíópíu. 80% krakkanna tilheyrðu Eþíópíu og fengu að borða 20% af poppinu en 20% krakkanna tilheyrði Íslandi og gæddi sér á 80% af poppinu. Þetta var mjög áhrifaríkt og fróðlegt að fylgjast með þeim upplifa ranglætið og ósanngirnina með þessum hætti. Síðan var skipt þannig að báðir hópar ræddu við Beyene og fengu poppveislu.

Á fimmtudeginum kl. 17.30 var farið í ratleik sem kallast áttfætlan og margir þekkja sem sótt hafa fermingarnámskeið í Vatnaskógi. Kl. 19.00 var hátíðarkvöldverður með veislumat og í kjölfarið af máltíðinni var hátíðarkvöldvaka. Þar var skoðuð myndbandsupptaka af námskeiðinu sem innihélt ýmislegt úr frjálsa tímanum auk stuttmyndanna úr stuttmyndahópnum. Vakti það mikla kátínu og gleði. Síðar um kvöldið, eða kl. 23.00, var haldið í Hallgrímskirkju þar sem við áttum saman taize-messu. Söngvana höfðum við æft á morgunstundinni þannig að þeir komu ekki á óvart. Stundin var sérlega vel heppnuð og færði með sér djúpan frið og sterka upplifun.

Eftir hádegi á föstudeginum var svo stutt kveðjustund þar sem allir kvöddust og héldu heim á leið. Vikunni var lokið. Hún var fljót að líða og gekk í alla staði mjög vel. Hóparnir smullu sérlega vel saman og voru vægast sagt alveg eins og hugur manns. Blessunin jókst dag frá degi og allir fóru glaðir og vel nærðir heim til sín, börnin jafnt sem við prestarnir.

Það hefur færst í vöxt að kirkjur taki fermingarfræðsluna á stuttum tíma með góðum törnum. Þetta námskeið var liður í því. Í raun fórum við yfir efni haustmisserisins auk margra annarra þátta sem komust til skila á svona námskeiði. Að vera með þeim allan sólarhringinn, þetta langan tíma, gefur einnig möguleika sem ekki er unnt að ná annars staðar. Þetta var sérlega vel heppnað og kjörið fyrir aðra presta að skoða svona möguleika. Velkomið er að veita nánari upplýsingar og ráðgjöf. Þið getið sent mér tölvupóst á siggigre@mi.is ef þið viljið.

Með von um Guðs blessun inn í alla fermingarfræðslu landsins.