Eitt það nýjasta í netheimum í dag er Facebook og ég er ein af þeim sem ákvað að útbúa mér síðu. Um daginn var ég á flakki um síðuna og velti fyrir mér hvernig það væri ef Guð væri með einnig með síðu á Facebook. Ég yrði ógurlega stolt ef einn daginn biðu mín skilaboðin: „Þú hefur fengið eina beiðni um vin. Guð óskar eftir að þið verðið vinir“. Svo er valið mitt að samþykkja eða hunsa beiðnina. Það væri vissulega notalegt að hafa Guð þarna á vinalistanum og styrkja tengslin.
Guð hefur fyrir svo löngu síðan sent vinabeiðni sína um allan heim og hann slær öll met hvað varðar vinafjölda. Mörg eru í reglulegum og góðum samskiptum við hann en hjá einhverjum er Guð kannski eins og gamall skólafélagi sem við sáum á hverjum degi í mörg ár en höfum tapað niður samabandinu þar til hann minnir á sig á Facebook. Um leið og við sjáum skilaboðin frá honum brosum við og segjum innra með okkur: „Já, ég man eftir honum, hann var alltaf svo fábær, traustur félagi og notalegt að eiga hann að.“ Nú er tækifæri að efla tengslin á ný.
Samskipti okkar við Guð geta verið margs konar. Stundum mætti alveg skoða þau í líkingu við þau samskipti sem ráða ríkjum á Facebook. Þar höfum við tækifæri til að tjá okkur og segja í fáum orðum hvað við erum að gera og fá viðbrögð, viðurkenningu. Einn daginn erum við ekki upp á okkar besta og setjum á síðuna: ,,Er hálf niðurdregin” og viðbrögðin láta ekki á sér standa, ótal skilaboð sem ýta okkur áfram í gegnum daginn. Næsta tilkynning verður kannski á þessa leið: „Hef gaman af lífinu“ og um leið hafa aðrir það með okkur og við brosum því okkur finnst gott að vera til.
Einmitt þannig getum við átt samskipti við Guð, í stuttum bænum, stuttum andsvörum, vörpum við hugðarefnum okkar til Guðs. Guð tekur þau að sér og vitiði til við fáum viðbrögð, kannski á allt annan hátt en við áttum von á en þau leiða að lokum til góðs. Við vörpum tilfinningum okkar fram til Guðs, hann viðurkennir þær allar og hjálpar okkur að vinna úr þeim, fá betri sýn á hlutina og við höldum sterkari áfram.
Facebook vinir okkar senda sín á milli alls kyns gjafir eða boð á hina ýmsu viðburði eða búa til hópa um sameiginleg málefni. Á sama hátt gefur Guð okkur stöðugt af gjöfum sínum. Einn daginn kæmi á skjánum: „Guð hefur sent þér beiðni um að taka á móti kærleika.“ Þú samþykkir eða hunsar. Þessar gjafir Guðs eru m.a. von, hugrekki, gleði, hlátur, friður, trú og traust, listinn er endalaus af kraftmiklum gjöfum hans. En samþykkjum eða hunsum? Auðvitað þiggjum við þessar gjafir með þakklæti og ættum senda eitthvað af þeim tilbaka á vini okkar og þau sem við þekkjum ekkert en teljum eiga þessar gjafir skilið.
Guð hefur kallað þig með nafni, samþykkt vinabeiðni þína og boðið þér í ríki sitt. Komdu og njóttu návistar hans, uppörvunar og gleði. Þiggðu í auðmýkt, gefðu öðrum með þér, láttu boðskapinn berast, bjóddu fleiri vinum að taka þátt í gleðinni, friðnum. Tilboð hans stendur núna og að eilífu, það er auðvitað á engan hátt háð nettengingu. Það á milli þín og hans; þiggðu, njóttu og gefðu í bæn og þjónustu!