Kúnstpásur

Kúnstpásur

Fátt eykur meir á áhrifamáttinn en það þegar tónskáldið nemur staðar eitt andartak – gerir svolitla kúnstpásu þar sem eyru okkar opnast og við fyllumst eftiræntingu fyrir því sem að höndum fer.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
20. desember 2007

Aðventuhugvekja í Keflavíkurkirkju Flutt 9. desember 2007

Gleðilega hátíð ágætu gestir. Já, við segjum gleðilega hátíð þótt hátíðin sjálf sé ekki hafin. Hún er aðeins í undirbúningi. Við erum að búa okkur undir jólin en sá tími er á margan hátt einstakur. Undirbúningstíminn hefur einhverja töfra. Þegar ljósadýrðin, fyrirhyggjan, náungakærleikurinn og allt það annað gott sem við viljum sýna og láta af okkur leiða á þessum tíma – blandast eftirvæntingunni verður til æði mögnuð blanda. Hið ókomna hefur nefnilega í sér nokkuð sem snertir okkur öll.

Framtíðarsýn

Við höfum jú hæfileikann til þess að horfa fram á við og íhuga þá atburði sem ókomnir eru. Lífið er satt að segja uppfullt af þessari iðju okkar, að horfa fram til hins ókomna. Í fréttatímum er vísað til misgóðra fræðimanna sem segja okkur til þá hluti og eru fá svið mannlífsins þar undanskilin, viðskipti, íþróttir, stjórnmál að veðrinu ógleymdu. Hér í Keflavíkurkirkju höfum við unnið hörðum höndum að því að skipuleggja framtíðarstarf safnaðarins. Við verjum hluta dagsins í dag í að brjóta heilann um morgundaginn og aðra þá daga sem ekki eru enn runnir upp.

Og hér fögnum við því að senn koma heilög jól með öllu því sem þeim fylgir. Við njótum krafta þessara ágætu listamanna sem hafa með tónlistinni opnað skilningarvit okkar og hugskot fyrir hátíðinni sönnu sem framundan er. Þetta er ekki ósvipuð iðja og hefur í raun sama tilgang: þar sem við horfum til framtíðar og setjum okkur í viðeigandi stöðu fyrir hana.

Hápunktur í tónlist

En tónlistin gefur okkur líka vísbendingu um það hvernig við getum undirbúið okkur fyrir stórfengleg tíðindi. Snjallir listarmenn kunna að semja verkin og flytja þau þannig að áheyrendur eru með einhverjum hætti undirbúnir fyrir það sem í vændum er. Stígandi, upptaktar og undirleikur eru gjarnan notuð þegar að þessu kemur – og allt vinnur þetta að því að gera hápunktinn ennþá stórfenglegri og eftirminnilegri.

Kúnstpásur

Áhrifaríkast er þó þegar notaðar eru þagnir í þessu skyni. Fátt eykur meir á áhrifamáttinn en það þegar tónskáldið nemur staðar eitt andartak – gerir svolitla kúnstpásu þar sem eyru okkar opnast og við fyllumst eftiræntingu fyrir því sem að höndum fer.

Þetta megum við líka gera. Við ættum að gefa okkur andartök í dagsins önn þegar jólin nálgast þar sem við nemum staðar og íhugum líf okkar og hlutverk. Þetta er raunar hinn upphaflegi andi aðventunnar – jólaföstunnar – að gera okkur kleift að undirbúa hjarta okkar og huga fyrir það að taka á móti Kristi á fæðingarhátíðinni. Og þetta held ég einmitt að sé einn lykillinn að því að undirbúa jólin. Auðvitað fylgir því mikill erill og stúss – sem í sjálfu sér getur verið hið besta mál. En þar inn á milli mega gjarnan koma tímabil þar sem við undirbúum okkur andlega fyrir jólin. Við tökum svolitlar kúnstpásur áður en háu tónarnir eru slegnir.

Guð gefi okkur öllum gleðilega hátíð.