Hveitikorn, þekktu þitt.

Hveitikorn, þekktu þitt.

Við þurfum að vera læs. Geta lesið Ritninguna með meiri andagift heldur en við lesum leiðarvísinn með Ikea-mublunum; þótt sá leiðarvísir geti reyndar stundum reynt á skilning manns og hafi sjálfsagt skilið fleiri en mig eftir með einhverja þá smíð sem þurfti að taka aftur í sundur og byrja uppá nýtt. En svo má spyrja: Er bara ekki allt í lagi að taka skilningsgáfu manns til kostanna svona annað slagið og láta hana hafa eilítið fyrir hlutunum? Til að það gangi upp þurfum við stundum að efast um það sem við töldum okkur vita áður. Það er nefnilega kallað þroski þegar við tökum hlutina til endurmats og vonandi dýpkar það skilning okkar á hinstu rökum tilverunnar.

Biblíudagurinn 2022. Dómkirkjan.

 

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Maður er nefndur Noah Harari; ísraelskur sagnfræðingur, víðkunnur af skrifum sínum og athygliverðum hugmyndum um þróun mannsins og hvert mannkyn stefni. Eitt af því sem hann segir frá lýtur að því hvernig hveitið, þessi auma planta sem upphaflega óx á litlu svæði þar sem Tyrkland og Sýrland koma saman - breytti heiminum. Ræktun þess festi búsetu mannsins og breytti samfélagsgerð mannanna svo um munaði. Svo sem ekki ný sannindi en hann setur það í nýstárlegt samhengi.

 

Það var sem sé vegna þessarar jurtar að maðurinn hætti flakkinu og fór að helga allan tíma sinn að hugsa um hveitikornið; vökva það, verja fuglum og skordýrum og meira að segja ef kornið skorti næringu þá bar maðurinn að því skít og annan áburð. 

         Frítími mannsins varð minni og fæðan einhæfari. Kostirnir fyrir manninn sem tegund jukust reyndar; manninum fjölgaði og t.a.m. þurfti minna land fyrir hvern einstakling honum til viðurværis, þannig að sem tegund hafði maðurinn það betra; en að mörgu leyti var líf einstaklinganna flestra nokkuð verra eftir, að mati Hararis. 

 

Hagnýting hveitisins skipti því sköpum fyrir manninn.

 

En í þessu ljósi er ef til vill réttara að segja að í raun var það ekki maðurinn sem hagnýtti sér hveitið, heldur hveitið sem gerði manninn sér undirgefinn! 

Hveitiakrarnir núna ná yfir svæði sambærilegt og 5x UK.

 

Hafi hveitið stefnt að heimsyfirráðum þá fékk það góðan þjón í manninum til þess.

 

Þannig að í stað þess að lifa „frá munni til handar;” laus við áhyggjur af veraldlegum eigum umfram það sem maðurinn gat borið á sjálfum sér; þá varð maðurinn að „afla sér brauðs síns í sveita síns andlitis.” 

 

---

 

Hljómar kunnuglega? Var það ekki með þessum orðum sem Guð rak manninn út úr Eden og ofurseldi hann puðinu?

 

Sú skoðun hefur heyrst að sagan af syndafallinu, brottrekstri Adams og Evu úr Eden, sé einmitt frumstæða minningin um upphaf akuryrkjunnar. 

 

Skemmtileg pæling sem ég ætla svo sem ekkert að gera meira með en segi þetta þó til að benda á hvernig frásagnir Ritningarinnar koma víða við sögu og hvað hún geymir í raun margar táknmyndir eða frum-myndir af sögu mannsins; ekki endilega hinni sagnfræðilegu sögu heldur tilvistarlegu; þeirri sem fjallar um samband manns við aðra menn, sjálfan sig og Guð.

 

Ég deili ekki sömu skoðun og Harari, að það hafi verið mistök að stunda akuryrkju þó ekki væri nema vegna þess að þá  hefðum við  farið á mis við æði margt sem til siðmenningar horfir. Hvernig hefði Bach þrifist í safnarasamfélagi eða Hómer eða Hóras? Snorri Sturluson eða Shakespeare? En það er reyndar alveg rétt sem Harari segir; að þegar þessir hlutir eru komnir af stað, þá er engin leið til baka. Það var aldrei kostur að hætta við akuryrkjubyltinguna.

 

Þannig er það oft með byltingar, sem margar eru jákvæðar -  og

svipað gerist þegar guðríkið er prédikað. Í það minnsta fékk kristnin slíkan viðang að heimurinn varð ekki samur.

 

---

 

         Í dag höldum við uppá Biblíudaginn og er guðspjallið um sáðmanninn er ir hveiti.Sumt féll í grýtta jörð og náði ekki rótfestu og visnaði þar af leiðandi, auk þess sem ýmislegt hamlaði vexti þess, en annað bar góðan ávöxt og margfaldaðist. Þessi texti táknar vitaskuldað fræin eru orð Guðs sem prédikað er og birtist okkur í ritningunni. Jarðvegurinn er hins vegar mannfólkið, við sjálf, sem erum eins og gengur misjafnlega móttækileg fyrir áhrifum orðsins.

         

----

 

Það er ekki laust við að síðustu tvær aldir hefur nokkuð verið sótt Ritningunni og kristinsdómnum, ekki síst með því að reyna að sýna fram á að hún sé ekki sjálfri sér samkvæm og þar með sé kristindómurinn markleysa.

 

Biblíunni er ekki ætlað að svara öllum þeim spurningum sem kunna að vera lagðar fyrir hana. 

Hún hefur ekki öll svörin.

En hún hefur kannski svörin sem skipta þig mestu máli. Um tilvist þína, merkingu og tilgang.

 

Auðvitað verður Biblían óskiljanleg við kunnum ekki að lesa hana; ef við vitum ekki hver málefnin eru sem Ritningin veitir svar við; við þurfum líka að vera læs á fleira en bókstafinn

         Fundamentalisminn, eða bókstafstrúin sem kom fram sem andsvar við uppgötvunum í líffræði og náttúruvísindum almennt fyrir einum 150 -200 árum lagði áherslu á að Biblían væri algerlega óskeikul í öllum efnum og líka með hvaða hætti heimurinn varð til.

 

Það getur verið reglulega vandræðalegt að fylgjast með mönnum sem eru á þessari línu, reyna t.d. að troða júratímabilinu og tertíer tímabilinu inní 7 daga sköpunarsögu Biblíunnar með skóhorni, þó það sé ljóst að það gengur ekki upp nema með því að sníða af hæl og tá. 

 

Menn nálguðust sjaldnast ritinguna á þennan hátt á fyrri öldum í sögu kristninnar; hún bar skilaboð sem snertu manninn á annan hátt; menn leituðu eilífra sanninda sem snertu eilíft líf og heill mannsins þessa heims og annars.

 

Um blinda bókstafstrú sem aðeins sér bókstafinn en fer á mis við andann, má segja það sem Shakespeare leggur í munn Ríkharði 3: Þegar vitringurinn bendir á tunglið þá horfir flónið á fingurinn.

 

Við þurfum að vera læs. Geta lesið Ritninguna með meiri andagift heldur en við lesum leiðarvísinn með Ikea-mublunum; þótt sá leiðarvísir geti reyndar stundum reynt á skilning manns og hafi sjálfsagt skilið fleiri en mig eftir með einhverja þá smíð sem þurfti að taka aftur í sundur og byrja uppá nýtt. 

 

En svo má spyrja: Er bara ekki allt í lagi að taka skilningsgáfu manns til kostanna svona annað slagið og láta hana hafa eilítið fyrir hlutunum? Til að það gangi upp þurfum við stundum að efast um það sem við töldum okkur vita áður.

Það er nefnilega kallað þroski þegar við tökum hlutina til endurmats og vonandi dýpkar það skilning okkar á hinstu rökum tilverunnar. 

 

Einnig má gera að umtalsefni þá hugsun, að búið sé að strika Guð út úr jöfnunni og lífi manns ef maður trúir því að Miklihvellur sé hið sennilegasta upphaf heimsins. Eins og hvort útiloki annað og ef maður hikar við að viðurkenna 3000 ára heimsmynd þá sé maður jafnframt orðinn trúlaus; trúi ekki á Guð og sé um leið ofurseldur vísindahyggju.

 

Ennfremur hefur verið bent á að það megi velta því fyrir sér hversu þessar eilífu spurningar um upphaf heimsins séu trúarlegar; eins og  spurningin sem flestir spyrji sig á dánarbeðinum sé hvort Guð hafi skapað heiminn. Ætli þyngri spurningar brenni ekki á manni þá, eins og þær hver sé tilgangurinn með þessu öllu saman og hvort maður lifað því lífi sem maður vildi; hvort tilvera manns hafi verið manni sjálfum og öðrum til góðs. Og kannski sú hvort Guð hafi líf manns í hendi sér, verndi og skýli.

Frekar en að maður sé að velta því fyrir sér gamla brandaranum um það hvort Guð geti skapað svo stóran stein að hann geti ekki loftað honum. 

 

Á hinn bóginn virðist krafan stundum sú, að ef maður trúir því að Guð sé til og hann sé höfundur lífsins og að vilja hans sé að finna í Ritningunum, þá verði maður um leið að viðurkenna fávisku sína og einfeldningshátt; kunni engin skil á tækni og vísindum og hrærist í heimi sem lúti öðrum lögmálum en hjá viti bornu fólki. Fyrir mitt leyti má Guð hafa skapað heiminn á hvern þann hátt sem honum þóknast. Mér er nóg að vita að á bak við heiminn er hugsun og herra sem lætur sér annt um mig.

 

Biblían er Orð Guðs til þess að hafa góð áhrif á líf þitt. Gefa von andspænis harmi og dauða. Gefa gleði og hugarró. Fullvissu um að líf þitt sé dýrmætt, því þú sért í Guðs mynd ger, eigir neista hans í þér og megir vinna hans verk hér á jörð.

         Það er ekki út í bláinn að trú, von og kærleikur eru sérstaklega dregin út sem hinar kristnu dyggðir, því þær fela í sér kjarna kristninnar og fjalla einmitt um þann boðskap sem ritningin á að miðla. Trú og trausti á þann Guð sem er höfundur lífsins, von sem nær út yfir gröf og dauða; kærleikur til Guðs sem birtist í elsku til náungans, en er jafnframt viðbragð þitt við elsku Guðs gagnvart þér. 

 

Og sem betur fer hefur Ritningin og kristinn siður fengið að hafa áhrif á þjóðlíf og viðhorf almennt.

Mér er mjög minnisstætt þegar austurrískur munkur, dr. Georg Braulik kom hingað til Íslands árið 1993 og hélt fyrirlestur eina kvöldstund við Guðfræðideild háskólans. Efni fyrirlestrarins var samanburður á lagabálkinum í Devteronomium eða fimmtu Mósebók, og svo Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna hins vegar. Niðurstaðan var sú, að svo að segja allt það sem tekið er fram í Mannréttindayfirlýsingunni á sér stoð í þessum lagabálki sem er orðinn töluvert á þriðja þúsund ára gamall.

 

Það er eitthvað.

 

Mikilvægi Ritningarinnar verður seint ofmetið. Þegar Lúther hóf sína baráttu fyrir siðbót innan kirkjunnar studdist hann við fyrst og fremst við ritninguna; frægt er þegar hann sagði eftir að hafa verið beðinn að draga ásakanir sínar til baka, að hann gæti það ekki þar sem samviska hans, bundin af orði Guðs leyfði það ekki. Rétt er að ítreka þetta: Bundin af orði Guðs. Því ekki fann hann þetta upp hjá sjálfum sér, heldur studdist hann við Ritninguna, þó að ástæðuna megi finna í því að páfakirkjan hafði sveigt þær fáu biblíuþýðingar, sem þeir leyfðu og skýringar sínar við þær, að þeim erfikenningum sem þeir töldu mikilvægari en kristna trú sem væri grundvölluð aðeins á Ritningunni. 

Á mannamáli heitir þetta að kirkjan vildi ekki tapa þeim völdum sem hún þegar hafði. Þegar Luther talar um sola scriptura, eða að ritningin ein sé mælikvarðinn þá þarf líka að setja þau orð inní sitt sögulega samhengi, s.s að þegar kirkjan vildi binda samvisku mannanna með kenninsetningum sínum og almennri forræðishyggju, þá benti Lúther á það að þess sæi nú ekki alltaf stað í Ritningunni sem að þeir kenndu; og það orð væri dýrara en hinna jarðnesku drottna.

 

Upp frá þessu fóru Biblíuþýðingar að skipta afar miklu máli svo fólk gæti sjálft komist að því hvaða boðskap Ritningin hefur að geyma. Og víst er að hún hefur haft gríðarleg áhrif. Því hafa valdhafar óvinveittir kristninni kveikt á og bannað hana; og það ekki í grárri fortíð, heldur er þetta enn að gerast. 

         Það kann að hljóma undarlega á okkar upplýstu öld, en staðreyndin er sú að sennilega hafa kristnir menn aldrei sætt öðrum eins ofsóknum og einmitt nú.

 

Áttum okkur á því – og þetta skiptir máli varðandi það hvernig við lesum ritninguna – að Lúther leit svo á að Ritningin talaði ekki síst til innri veruleika mannsins; samvisku hans en ekki nema að takmörkuðu leyti því sem lýtur að ytri veruleika hans; þar eigi ekki t.a.m. að leita að því hvernig þjóðfélaginu sé stjórnað  - hlutverk furstans sé fyrst og fremst að viðhalda réttlátu þjóðfélagi, en það út af fyrir sig hefur ekkert hjálpræðisgildi.

 

 

Biblíufélagið:

Ég vil líka fá að vekja athygli ykkar á starfi Biblíufélagsins; þessa elsta starfandi félags á Íslandi. Biblíufélagið sinnir mikilvægu verki sem er að sjá til þess að Biblían sé aðgengileg öllum og að sjá til þess að hún sé þýdd reglulega á það mál sem samtíminn krefst.

 

Heimasíða þess er biblian.is en á þeirri síðu má finna mikinn fróðleik; amk. fjórar Biblíuþýðingar, þ.e. texta Guðbrandsbiblíunnar, Viðeyjarbiblíunnar, þýðinguna 1981 og svo hina nýja aldamótaþýðingu, auk mannakorna og biblíulestra, auk ýmiss konar fræðslu og ítarefnis.

Þá eru mörg rit Biblíunnar komin á Storytel auk þess sem hún er aðgengileg í Biblíuappinu; sérstaklega er gaman að geta þess að væntanlegt er Biblíuapp fyrir börn. 

--

 

Biblían er mikilvægt rit. Hún hefur að geyma ríkulegan vitnisburð um kærleika Guðs til manns og sköpunar; mikla speki og þar er skyggnst djúpt í mannlegt eðli og tilveru hans í samfélagi við aðra og undir augliti eilífðarinnar.

 

Vissulega er líka í henni að finna þunga texta og myndir af guði sem mörgum þykja framandi; af hefnigjörnum og refsandi guði. 

 

Og það er erfitt; en gleymum því ekki að margt af því sem þar er ritað eru upplifanir fólks af lífi sem er ekki alltaf sanngjarnt og minnir okkur ef til vill á að lífinu verður ekki lifað eftir excelskjali. En þegar lífið er ósanngjarnt þá er mörgum tamt að kenna guði um. 

 

Auk þess sem menn á ýmsum tímum hafa nú stundum talið sig þurfa að taka upp þykkjuna fyrir almættið og leyft sér að fara illa með samborgara sína í nafni Guðs. 

Sem að sjálfsögðu er misbrúkun.

 

Leyndardómurinn um bölið og hið illa verður hins vegar ekki leyst í hér í fáeinum orðum; og sjálfsagt aldrei.

En hugsanlega segir það líka eitthvað um okkur sjálf, hvaða textar Ritningarinnar það eru sem við staðnæmumst við.

 

 

Mikilvægi Ritningarinnar liggur líka í almennu læsi á vestræna menningu; þegar sagan um Kain og Abel verður mönnnnum gleymd, þá falla setningar eins og „Á ég að gæta bróður míns" flatar á trýnið. 

         Það er skaði. 

 

Biblían er mikið dýrmæti og áhrif hennar mikilvæg.

 

Ég bið að svo megi verða um framtíð alla.

 

 

Dýrð  sé Guði...