Já, ég skipti máli

Já, ég skipti máli

Hvað er þá þetta með eldsvítið og eilífar þjáningar hinna fordæmdu?

Við í kirkjunni mælum dagana með svolítið öðrum hætti en gengur og gerist. Fyrir það fyrsta þá teljum við einkum sunnudaga og aðra hátíðsdaga, en síður hina hversdagslegu. Og svo byrjar árið ekki fyrsta janúar, heldur fyrsta sunnudag í aðventu. Það er einmitt næsti sunnudagur. Nú er því runninn upp síðasti sunnudagur kirkjuársins, nokkurs konar gamlársdagur í kirkjunni. Í stað þess að skjóta flugeldum á loft með hávaða og fyrirgangi þá lesum við um heimsendi og hina efstu daga. Sannarlega er lýsingin myndræn þar sem mannsonurinn kemur í dýrð sinni og hóparnir standa frammi fyrir konunginum. Þar er þeim skipt í tvo flokka – hina réttlátu og hina ranglátu.

Endalok

Já,Endalokin sveima yfir þessum degi. Guðspjallið fjallar um það þegar tíminn er á enda runninn og við sjáum fyrir okkur eins konar dómstól þar sem gjörðir manna er vegnar og metnar. Hvar sem fólk stendur í hinu trúarlega samhengi þá er það óneitanlega svo að endalokin tengjast einhvers konar uppgjöri – dómi þar sem skilið er á milli góðs og ills.

Guðspjall þetta er reyndar svo magnað að það má nálgast á marga vegu. Það er sannarlega einn fegursti texta bókmennanna. Í einni andrá verða þessi ógnarstóru umskipti: þar sem hið æðsta rennur saman við hið lægsta. Þeir sem flokkaðir höfðu verið í hafra og sauði spurðu þennan almáttuga konung hvenær þeir hefðu gefið honum mat og drykk, vitjað hans í fangelsi, hýst hann er hann var utangarðs og klætt hann er hann var nakinn. Og hann svarar á þá leið að þeir hafi mætt honum í hvað eftir annað í lífi sínu, í hinum hungruðu og þjáðu, föngum og klæðalitlum. Allt sem þau gerðu einum hinna minnstu, það gerðu þeir hinum æðsta.

Þessi snöggu brigði hafa áhrif og það er eins og allar okkar forsendur og mælikvarðar á mannval hverfa eins og dögg fyrir sólu. Mannamunur er þurrkaður út. Fólkið sem neðst stóð á mælikvarða virðingar og lífsgæða var í raun birtingarmynd hins æðsta og mesta. Hvergi sjáum við þessi umskipti betur en á krossinum þar sem sonur Guð var píndur og þjáður, dó yfirgefinn og svikinn. Sannarlega mætast þar andstæðurnar og við stöndum eftir með gerólíka mynd af heiminum, náunga okkar og okkur sjálfum.

Minnsti og æðsti

Allar götur síðan hafa kristnir menn lagt það að jöfnu við guðstrú og guðsótta að sinna þörfum sinna minnstu systkina, það sýna störf kirkjunnar um víða veröld. En þar sem menn geta lotið höfði í lotningu fyrir fegurðinn sem býr að baki þessum boðskap, stendur eftir ein brennandi spurning – Hvernig á því stendur að hinir – þeir sem ekki mötuðu, fæddu og klæddu sína minnstu bræður og systur – hljóta hin verstu örlög? Já, þar er eldsvíti, grátur og gnístran tanna. En hver er boðskapur þessara orða? Er hann á þá leið að við eigum ekki að leggja lykkju á leið okkar framhjá hinum þurfandi – til þess að losna við hlutskipti hinna fordæmdu eins og því er lýst í textanum.

Mér hefur alltaf þótt sú hugsun ókristileg enda stangast hún á við þann grunntón fagnaðarerindisins að við verðum ekki hólpin fyrir verkin heldur trúna. Í Litlu Biblíunni er talað um að Guð hafi af elsku sinni sent son sinn í heiminn, til að hver sem á hann trúir myndi ekki glatast heldur hafa eilíft líf. Þar er ekki talað um að hver sem geri þetta og hitt munu komast í náðina, heldur er það afstaðan, trúin sem skiptir mestu máli.

Umbun og laun?

Enda bendir svarið sem hóparnir fá frammi fyrir hinum ógvænlega dómstól til þess að hinir hólpnu unnu ekki sín kærleiksverk í þeirri von að fá síðar fyrir þau umbun og laun. Nei, bæði hinir réttlátu og þeir ranglátu koma af fjöllum þegar þeir heyra af því hvað réði valinu. „Hvenær sáum við þig svangan og gáfum þér að eta?“ Við höfum aldrei gert nokkurn skapaðan hlut fyrir þig! Er það ekki þetta sem gerir lýsingu þessa svo magnaða? Jú, þeir voru aðeins að bæta hag náunga síns. Fyrir þeim lá ekki að ná sér í prik og viðurkenningu. Þetta var allt gert í nafni kærleikans.

Að endingu skiptir hann jú mestu máli.

Hvað er þá þetta með eldsvítið og hinar eilífu þjáningar hinna fordæmdu? Ef til vill leynist þar að baki ótti sem er ekki bundinn við þá sem trúa, heldur er hann almennur og fylgir öllu fólki. Já, hvað hugsa þau sem finna að lífið er senn á enda? Hvaða kenndir leika um huga þeirra sem vita að senn er tilveran ekki lengur fortíð, nútíð og framtíð – heldur aðeins fortíð?

Skipti ég máli?

Starfstéttir sem vinna með deyjandi fólki hafa fjallað um þær spurningar sem brenna á vörum þeirra sem hafa fengið þá fregn að ævi þeirra sé senn á enda. Þá spyr fólk og hugleiðir líf sitt. Rétt eins og í guðspjallinu, fer fram ákveðið uppgjör. Hvað hef ég gert á annarra hlut? Get ég fengið fyrirgefningu, lausn á því sem á mér hvílir? Þessi þrá er ekki bundin við trúað fólk en sannarlega er trúin okkur styrkur á slíkum stundum. Svo leitar fólk að því sem er því kærast og það spyr hvort það hafi varið mestum tíma með þeim sem skiptu það mestu máli. Síðasta spurningin er hins vegar sú sem fylgir hvað mestur áhersluþungi og það getur verið átakanlegt að leita svara við henni.

Skipti ég máli? Hafði líf mitt tilgang? Fyrir hvað verður mín minnst?

Á okkar síðasta degi

Endalokin kalla fram hinar stærstu spurningar og þetta eru spurningar sem við ættum öll að spyrja okkur, löngu áður en komið er síðkvöld í okkar lífi. Í guðspjallinu eru dregnar fram ógnvænlegar lýsingar af þeim andstæðum sem birtast eftir því hvert svarið er. Því hvað er það að skipta máli? Er það ekki framkoma okkar við náungann? Það er einmitt sá mælikvarði sem konungurinn setur á líf þeirra sem koma fram fyrir dóminn.

Já, við í kirkjunni eigum stundum aðra mælikvarða á hlutina en gengur og gerist. Nú er gamlársdagur á okkar tímatali og nýársdagur tekur við á sunnudaginn kemur, þeim fyrsta í aðventu. Og sumum kann að þykja sú mynd sem dregin er upp í guðspjallinu ógnvekjandi. En þegar á allt er litið er það hluti af því að vera manneskja að leggja dóm á verk okkar og huga. Svo þegar aðventan gengur í garð þá mætum við frelsara okkar í hverjum þeim náunga sem þarf á okkur að halda og leitar eftir aðstoð okkar. Afurðir okkar og framlag verða síðan til þess að við á okkar hinsta degi lítum um öxl og getum vonandi svarað spurningunni stóru, afdráttarlaust:

Já, ég skipti máli.