I
Páskar eru hátíð vonar, trúar og bænar um eilíft líf. Boðskapurinn um upprisu lausnarans hrærir alla þá hjartastrengi mannsins, sem með einhverjum hætti enduróma af drauminum um eilífan veruleika handan grafar og dauða. Páskadagur er til þess ætlaður að ígrunda þennan draum og gaumgæfa, hvernig upprisusólin styrkir vonina, eflir trúna og gefur bæninni vængi til að fljúga á inn í himininn.
Frá örófi alda hefur maðurinn staðið andspænis ráðgátu dauðans í dýpstu íhugun. Greftrunarsiðir löngu liðinna kynslóða, sem uppi voru fyrir tugum þúsunda ára, vitna um eilífðarvon. Atferli þesssara ævafornu manna sýnir, að þeir hafa lifað við einhvers konar trú á líf að loknu þessu. Svo er að sjá sem sú trú sé manninum eiginleg og eðlislæg. Hún virðist beinlínis vera hluti af mennskunni - og þess vegna gengur vantrúarmönnum á öllum tímum svo illa að útrýma henni. Maðurinn, skapaður í Guðs mynd, gerir sér hugmynd um eilífani veruleika handan grafar og dauða. Sú hugmynd er hluti af tilvist mannsins á öllum öldum, samofin þeirri staðreynd, að við erum menn; eilífðarvonin er beinlínis mennska okkar, gerir okkur mennsk.
Við erum þannig til þess ætluð að lifa að eilífu. Sú upphaflega stefnumörkun fylgir manninum alla tíð, yfirgefur hann aldrei, heldur setur mark sitt á athafnir hans andspænis dauðanum ævinlega, hvar sem maðurinn fer leiðar sinnar undir sólunni. -
Þessi almennu sannindi eru áréttuð á hverjum páskum, og líka þegar við stöndum yfir moldum látins samferðamanns. Margs konar aðstæður gera það þannig að verkum, að við í einn tíma ígrundum eilífðarvonina með eindregnari hætti en í annan. Aldrei er hún okkur fjarri með öllu.
Hinu er síðan ekki að neita, að í önnum virkra daga gefum við okkur oft ekki tíma til að hugsa um eilífðina.Í stað trúar sækir efinn að okkur. Þessi staða kemur upp í fyrra bréfi Páls postula til Korintumanna. Páll hafði áður átt í margvíslegum örðugleikum með söfnuð kristinna manna í Korintuborg. Sjálfur hafði hann grundvallað þennan söfnuð og leitt hann fyrstu sporin. En þegar postulinn skrifar bréf sitt, er bersýnilega komin upp þræta í Korintuborg um upprisuna sjálfa: "Hvernig geta nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp?" Þannig spyr Páll og knýr síðan á um gildi upprisutrúarinnar fyrir kristna menn.: "Ef ekki er til upprisa dauðra" segir hann," þá er Kristur ekki heldur upprisinn. En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt predikun vor, ónýt líka trú yðar. Því að ef dauðir rísa ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn. En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eru þá enn í syndum yðar, og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir. Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna. - Þessi orð eru upphaflega rituð handa kristnum mönnum í Korintuborg. En þau koma vissulega að notum kristnum mönnum á öllum öldum og einnig okkur, sem hér höfum safnast saman til páskamessu í dag. Orð postulans minna okkur á, hve fánýt og tilgangslaus tilvera okkar væri, ef okkar ekki biði eilíft líf að loknu þessu.
Raunar sækja löngum að mönnum efasemdir um tilgang þessa lífs yfirleitt. Þegar við stöndum frammi fyrir ókiljanlegum slysum, sjúkdómum og óréttlæti heimsins, þá er ekki skrýtið þó við spyrjum, hvað valdi þessum ósköpum og veltum fyrir okkur tilgangi lífsins. Svörin liggja ekki á lausu. Það hafa þau aldrei gert og munu aldrei gera. En augljóst er, að markmið tilverunnar verða okkur tilgangslausari, ef við eingöngu gerum ráð fyrir lífi þessa heims, en höfnum eða vísum frá okkur framhaldstilveru handan grafar og dauða.
Víst þekkjum við það öll, að eilífðarvon okkar er misjafnlega vel lifandi. En hitt þekki ég líka af eigin reynslu, að eilífðartrúin er einasta svarið við þeirri ráðgátu, sem lífið löngum er okkur mönnunum.
Þessa heims er allt á hverfanda hveli, sjálfsmynd mannanna og veraldarinnar í upplausn og í brotum. Viljum við leita uppi varanlegan veruleika, hljótum við að svipast um á öðrum og áreiðanlegri vettvangi. Sá vettvangur er okkur boðinn, þar sem er eilífðin, ekki aðeins til trúar heldur líka sem niðurstaða röklegrar hugsunar um tilgang heimsins.
Þessi sannindi öll hafa löngum verið kristnum mönnum ofarlega í huga, þegar þeir hafa velt fyrir sér álitamálum tilverunnar. Páll postuli lét okkur heldur ekki ein eftir með efasemdirnar og heilabrotin. Þvert á móti bar hann fram efalausa fullyrðingu í bréfinu til korintumanna sem ég vitnaði í fyrr: "En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru". "Frumgróða" nefnir postulinn hinn upprisna Drottin. Jesús Kristur rís upp fyrstur manna. Hann er eins konar frumuppskera á eilífðarakri Guðs. Síðan koma hinir, sem á hann trúa, við öll, sem eigum hlutdeild í upprisu hans og göngum í föruneyti hans inn um hlið himnanna til eilífs veruleika í umsjá Guðs.
II
Við fengum hér fyrr að heyra lýsingu guðspjallamannsins Matteusar á páskaundrinu, atburðunum við gröf Jesú og reynslu kvennanna sem fyrstar heyrðu boðskapinn um upprisuna.
Upprisa Jesú er undursamlegast atburðurinn á ferli hans. Með upprisunni staðfestir Drottinn og áréttar öll þau kraftaverk, sem hann áður hafði unnið. Lúkasar guðspjall leggur sérstaka áherslu á þetta með tilvísun til píslarsögunnar: "Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi". Þegar menn velta fyrir sér sannleiksgildi upprisufrásagnanna sjálfra, verður þessi atvikaröð ofarlega á baugi. Lærisveinar Jesú trúðu á hann sem Messías .þ.e.a.s. sem hinn smurða konung Ísraels af ætt Davíðs, þann sem endurreisa skyldi sjálfstætt ríki Ísraelsmanna og hrífa þjóðina úr greipum Rómverja. Þessi trú beið herfilegt skipbrot, þegar Jesús var handtekinn, yfirheyrður, húðstrýktur og síðan krossfestur. "Vér vonuðum,að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael."
Þannig mælti einn af lærisveinunum eftir krossfestinguna fullur uppgjafar. Með lífláti Jesú hafði sú von brugðist, og draumur lærisveinanna var að engu orðinn. Ljóst er, að hefði gröf Jesú ekki verið tóm á páskadagsmorgunn og hinn upprisni ekki vitrast lærisveinum sínum næstu daga og vikur, hefði hreyfing þeirra leystst upp og kristin kirkja aldrei orðið til. Lærisveinarnir hefðu þá aftur horfið heim til átthaga sinna og tekið upp sína fyrri iðju, en leitast við að gleyma farandpredikaranum Jesú og hinum ólýsanlega ósigri hans.
Sú varð hins vegar ekki raunin. Þvert á móti tók hinn litlu hópur fylgismanna Jesú upp nýjan þráð. Í stað þess að leggja árar í bát hófu þeir að boða trú á hinn krossfesta leiðtoga sinn, héldu því fram af enn meiri einurð en nokkru sinni, að hann væri Messías, hinn smurði konungur Ísraels, sem leysa mundi ekki aðeins þjóð sína, heldur alla þá, er á hann tryðu. Þetta hefðu lærisveinarnir aldrei gert, ef ekki hefði komið til einhver atburður, sem sannfærði þá um mátt Jesú og sigur hans, þrátt fyrir ósigur krossfestingarinnar. Þessi atburður var uppprisan sjálf, sú staðreynd, að gröf Jesú var tóm að morgni páskadags og hann sjálfur vitraðist lærisveinunum næstu daga og vikur.
Tilvera kristinnar kirkju allt til þessa dags er sönnun fyrir upprisu Jesú Krists. Sú staðreynd, að við höfum safnast hér saman á páskadegi er enn einn vitnisburðurinn um, að Kristur er upprisinn.
III
Senn er veturinn á enda. Hann hefur verið okkur rysjóttur eins og gengur. Hitt vissum við í vetur sem æfinlega, að öll él birtir upp um síðir, að elska Guðs var í nánd, að kærleikskraftur hans bjó að baki hríðum og hretviðrum og hlaut fyrr eða síðar að verða myrkrum og frostum yfirsterkari. Senn rennur upp sumardagurinn fyrsti. Þá fögnum við komandi sumri með þeirri bjartsýni, sem hæfir betri stundum. Hér á eftir er öllum kirkjugestum boðið að þiggja heilagt sakramenti, líkama og blóð hins upprisna Jesú, samkvæmt því boði sem hann lét okkur eftir. Síðan göngum við fagnandi út í lífið á ný, vitandi að um tíma og eilífð erum við Guði falin.
Með þeim orðum felli ég talið að sinni. Guð gefi okkur öllum gleðilega páska í Jesú nafni. Amen.