Friður á jörðu og velþóknun yfir mönnunum

Friður á jörðu og velþóknun yfir mönnunum

Margir kvarta undan jólastressi og umbúðum jólanna og er það þá trúlega vegna þess að við höfum gert þau of glingursleg. Spurningin er þá hvort eitthvert samband sé milli þess jólaheims sem við búum til og þess raunverulega heims sem við lifum í.
fullname - andlitsmynd Úlfar Guðmundsson
21. desember 2006

Söngur englanna á jólanóttina.  "Friður á jörðu."  Síðan eru liðin tvö árþúsund en því miður erum við langt frá þessu marki.

Menn tala gjarnan um myrkar miðaldir og hafa það í flimtingum að kirkjunni sé um myrkrið að kenna.  Því fer þó fjarri og sannlega var ljós kirkjunnar oft það eina sem sást á miðöldum.  Varla hefur nokkur öld verið myrkari í heimi hér en sú sem síðast leið.  Reynt hefur verið að tengja trúarbrögð og styrjaldir  og hafa vantrúaðir verið þar framarlega í flokki.  Vissulega virðist það stundum við fyrstu sýn en ef betur er að gáð sýnir sig að ýmis konar veraldlegir og pólitískir hagsmunir eru undirrótin miklu fremur en trúarbrögð.

Nú á dögum hafa Íslendingar  skoðað hver aðild þeirra sé að styrjöldinni í Írak.  Það er gott að hugsa um það og einsýnt er fyrir okkur þessa litlu þjóð að best er fyrir okkur í framtíð að taka okkur stöðu friðarmegin.  Það hafði biskup Þjóðkirkjunnar og fleiri  kirkjuleiðtogar áréttað áður en haldið var af stað.

Enn ber það til um þessar mundir að heimurinn sem Guð elskar, mannkynið sem hann vill lækna og frelsa, býr við öryggisleysi, ótta og ófrið.  Jú þannig var það hjá Jósef og Maríu.  Þau gengu til Betlehem við erfiðar aðstæður.  Enn er það svo þrátt fyrir alla okkar velmegun þá hefur desember að þessu sinni fært okkur slys og sorgir. Það er okkur enn hvatning til að huga að boðorðinu:  "Þú skalt ekki mann deyða"  og hrinda í framkvæmd þeim vegabótum sem nauðsynlegar eru til að koma í veg fyrir alvarleg slys.  Sannlega biðjum við þess einnig að jólaljósið lýsi alls staðar hvernig sem á stendur.  Jólin þurfa að gefa okkur þá gleði sem getur brosað í gegn um tárin.

Margir kvarta undan jólastressi og umbúðum jólanna og er það þá trúlega vegna þess að við höfum gert þau of glingursleg.  Spurningin er þá hvort eitthvert samband sé milli þess jólaheims sem við búum til og þess raunverulega heims sem við lifum í.

Fyrstu jólin voru engin glansmynd og var ekki ætlað slíkt hlutverk.  Þar var fátæk fjölskylda að takast á við erfiða tíma sem ekki sá fyrir endann á.  Mannssonurinn óx upp og átti hvergi höfði sínu að að halla.  Guð kallar enn á okkur til þess að framkvæma vilja Drottins Jesú Krists sem kom til að frelsa heiminn.  Hann birti Guð kærleika og friðar og sýndi það í verki.  Hann bannaði lærisveinum sínum að berjast og setti eyrað aftur á Malkus!  Kristin trú er friðarboðskapur, sem á að hafa áhrif á daglegt líf og gerir það að einhverju leyti.  Eitt eftirminnilegasta dæmið þar um er þegar hermennirnir í skotgröfum fyrri heimstyrjaldarinnar gerðu hlé á stríði sínu á jólanóttina.  Guð gefi að sá jólafriður breiðist út yfir alla daga lífsins.

Guð gefi þér kæri lesandi friðsæl og gleðileg jól.

Úlfar Guðmundsson.