Ný tækifæri

Ný tækifæri

Margir nota tækifærið nú, sem endranær við áramót, að byrja á einhverju nýju, lofa sjálfum sér einhverju um framtíðina, þá í flestum tilvikum til að bæta líf sitt á einn eða annan hátt, gera framtíðina betri.
fullname - andlitsmynd Íris Kristjánsdóttir
02. janúar 2010

Flugeldur

Ég heyrði einu sinni góða skilgreiningu á geðveiki. Það væri að gera eitthvað á nákvæmlega sama hátt, aftur og aftur, og vonast eftir mismunandi árangri í hvert skipti. Kannski er eitthvað til í þessari skilgreiningu. Margir nota einmitt þessa aðferð þegar þeir vilja breyta einhverju í lífinu. Þeir lifa í stöðugri von um að eitthvað breytist og batni en gera samt ekkert í því sjálfir, breyta engu hjá sér – ekki einu sinni við tímamót sem nú, við mót tveggja ára. Já, ótrúlegt en satt – þetta ár er um það bil að hverfa fyrir hornið og nýtt ár kemur þess í stað, svona eins og töfrað upp úr hatti.

Margir nota tækifærið nú, sem endranær við áramót, að byrja á einhverju nýju, lofa sjálfum sér einhverju um framtíðina, þá í flestum tilvikum til að bæta líf sitt á einn eða annan hátt, gera framtíðina betri. En staðreyndin er sú að flestir falla í sömu gryfjuna, gleyma þessum loforðum eða heitum áður en fyrsti mánuður ársins klárast.

Ætli við gleymum ekki jafn auðveldlega og eldra parið sem kynntist á hjúkrunarheimili. Þau urðu vinir og svo þróaðist sambandið enn frekar. Þau eyddu sífellt fleiri stundum saman og voru orðin afskaplega ástfanginn fyrr en varði. Eina nótt ákvað karlinn að fara á hnéskeljarnar í óeiginlegri merkingu, og biðja elskunnar sinnar. Hún varð afar glöð og svaraði bónorðinu játandi, geislandi af gleði. Morguninn eftir voru þau bæði í miklu uppnámi. Hann var miður sín því hann mundi eftir að hafa beðið elskunnar sinnar en mundi ekki hvort hún hafði sagt já eða nei. Hún var miður sín því hún mundi eftir því að hafa játað bónorði en hafði ekki hugmynd um hver það var sem bað hennar.

Það er því kannski ágætt að velta því fyrir sér hvort minnið okkar sé ekki í góðu lagi, hvort við ætlum okkur að gera eitthvað sérstakt svona í tilefni nýs árs eða hvort við ætlum bara að fljóta áfram í straumi hversdagsleikans og halda áfram á sömu braut. Það liggur auðvitað ljóst fyrir að það hefur ýmislegt gerst á þessu ári og því síðasta sem við vildum gjarnan gleyma og horfa aldrei framar á. Það liggur líka ljóst fyrir að þessir erfiðleikar eiga sér væntanlega framhaldslíf á því næsta, því miður – og því ekki undarlegt þó margir kvíði því sem er handan við hornið.

Þau eru mörg tækifærin og tilboðin sem við höfnum í lífinu. Má vera að líf okkar hefði tekið allt aðra stefnu ef við hefðum valið þetta nám en ekki hitt, sagt já við þessu boði en ekki hinu, fylgt þessari stefnu en ekki hinni – og hinn óbifandi sannleikur er sá að við höfum ekki hugmynd um hvert líf okkar hefði stefnt ef ákvarðanir okkar í fortíðinni hefðu verið öðruvísi. Öll getum við horft tilbaka og fundið eitthvað atvik sem vekur upp hugsunina: Bara ef ég hefði gert þetta öðruvísi. En trú mín er sú að við göngum engu að síður þann stíg sem okkur er ætlaður. Stundum er hann grýttur og erfiður, en stundum er hann hlaðinn rósum. Hvert og eitt atvik er mikilvægur hluti af hinu risa púsluspili sem mótar lífið okkar. Raunveruleiki lífs hins kristna einstaklings er að Drottinn fetar þennan lífsveg með okkur í fullri vitund um hvað á daga okkar hefur drifið og mun drífa. Hann hefur kallað okkur til lífs með sér til að bera ávöxt. Þessi ávöxtur tengist bæði lífinu með honum en einnig lífinu hér á jörð með öðru fólki. Sá ávöxtur sem dafna á í sambandi okkar við Guð er trúin á hann, traustið að hann sé til staðar og að boðskapur hans sé lífgefandi og styrkjandi. Ávöxturinn sem sprettur af samskiptum okkar við annað fólk tengist þessu einnig, það er okkar að láta trú okkar skína í gegnum framkomu, orð og gjörðir gagnvart öðrum. Þar á kærleikur Krists að vera fyrirmyndin, kærleikur hans til allra. Okkur gengur samt ekkert alltaf vel í þessu verkefni. Áburðurinn og regnið sem lífga á þessa ávexti við fá stundum ekki aðgang að okkur vegna ýmislegs annars sem truflar. Og satt best að segja þá finnst okkur við oft alls ekki vera nógu góðar manneskjur til að taka þátt í þessu mikla verkefni á akri Drottins.

Ég fann eina góða bæn venjulegs manns á netinu sem hann bað á nýju ári. Hún hljóðaði einhvern veginn svona: Góði Guð. Ég hef staðið mig vel á þessu nýja ári. Ég hef ekki talað illa um neinn, hef ekki misst stjórn á skapi mínu, ekki verið gráðugur, fúll, kvikindislegur, sjálfselskur eða sérhlífinn. Ég er mjög þakklátur fyrir það. En eftir fáeinar mínútur, kæri Drottinn, þá þarf ég virkilega á hjálp þinni að halda, svona um það bil þegar ég stíg fram úr rúminu á þessum nýársdagsmorgni. Amen.

Þetta er einmitt málið. Leiðin í áttina að því sem við vitum að er ekki rétt er bara svo afskaplega auðfarinn. Og áður en við vitum af höfum við fallið í sama farið sem við ætluðum að koma okkur upp úr, höfðum jafnvel strengt heit um að berjast gegn við ný tímamót í lífinu. Góðu fréttirnar frá Guði er að við fáum nýtt tækifæri til að breyta til ef viljinn er fyrir hendi. Við breytum ekki því sem fortíðinni tilheyrir en við höfum möguleika á að hafa áhrif á framtíðina. Það er okkar að hlúa að ávöxtunum sem okkur hafa verið falnir, gefa þeim næringu og sjá til þess að þeir nái fullum þroska. Þessir ávextir eru afurðir trúar okkar sem birtast í framkomu okkar við aðra og því hvernig boðskapurinn fær að hafa áhrif á orð okkar og gjörðir. Ég er alveg til í að fá enn eitt tækifærið frá Guði til að standa mig betur í þessu. Má vera að mér takist illa upp, en ég veit að þá er Drottinn til staðar til að reisa mig upp. Ég og við öll getum treyst því að hann er með til frambúðar.

Íris Kristjánsdóttir