Ég hlýt að vera farinn að finna fyrir aldrinum. Þegar ég les yfir söguna af köllun Samúels þá set ég mig í fótspor hans Elí, öldungsins sem var að reyna að fá sinn nætursvefn en unglingurinn hélt áfram að ónáða hann.
Vakin af værum blundi
Við þekkjum þetta sjálfsagt flest. Þegar værð er komin á hugann á
síðkvöldi eða jafnvel um miðja nótt þá þurfum við skyndilega að leysa
knýjandi vandamál. Einhver er þyrstur, hleðslutæki finnst ekki,
efasemdir vakna um skólasókn að morgni vegna slappleika eða eitthvað
slíkt. Það reynir á þolinmæðina og stundum lýkur samræðum með þeirri
einlægu ósk, að æskufólk leysi sín vandamál eitt og óstutt. Sú varð
einmitt niðurstaðan í þessari köllunarfrásögn sveinsins Samúels sem er
inngangur að fyrra ritinu sem við hann er kennt. Og hún hefur að geyma
klassísk minni slíkra sagna.
Þarna er þrítekningin komin eins og er svo algengt í gömlum sögum. Þekkjum við ekki margar goðsagnir og þjóðsögur þar sem slík þrenning kemur fyrir? Grimmsævintýrin, með Gullbrá sem fann rétta diskinn og fletið í þriðju tilraun, Öskubusku sem passaði í skóinn eftir að systurnar tvær gerðu það ekki. Húsfreyja rataði á nafn Gilitruttar í þriðju tilraun og Biblían er auðvitað með fjölmörg viðlíka dæmi. Þarna er hinn aldni Elía vakinn upp af værum blundi í þrígang og ég hef hann grunaðan um að hafa einfaldlega viljað koma í veg fyrir að fjórða skiptið þyrfti hann að rumska með því að gefa sveininum Samúel þessa leiðsögn.
Já, sagan geymir andstæður – það er ekki bara elli og æska, svefn og vaka. Í innganginum er þessi hversdagslega yfirlýsing að um þetta leyti hafi sýnir verið fátíðar í Ísrael, svona rétt eins og tíðarfari væri lýst í íslenskri frásögn. Það tíðindaleysi mætir svo þessum atburðum sem voru ekkert dægurþras á þessum tíma. Nýr spámaður er kynntur til sögunnar og þessir spámenn höfðu mikilvægu hlutverki að gegna í hinu gamla Ísrael. Það skipti líka miklu máli hvaðan þeir fengu vald sitt. Önnur embætti í landinu sóttu umboð til konungs og lutu honum. Öðru máli gegndi um spámanninn. Hann varð að vera óháður og frjáls undan afskiptum þjóðhöfðingjans. Þess vegna mátti spámaðurinn lesa kóngi pistilinn þegar hann var kominn á villigötur, vann gegn þjóðinni, braut lögmálið sem allir áttu að lúta. Því skipti þessi köllun svo miklu máli eins og sagan lýsir. Einhver var valin úr fjöldanum, ekki sökum yfirburða og mannkosta – heldur varð það hlutskipti hans að áminna háa sem lága og beina á réttar brautir.
Guðspjallið sjálft er í þessum anda, en þar er kynntur til sögunnar hinn jaðarsetti Sakkeus, sá sem hafði sankað að sér auðæfum og naut engrar virðingar samfélagsins. Hann, af öllum, verður hinn útvaldi. Köllun hans hófst þar sem Jesús vildi snæða í húsi hans um kvöldið og þar með vekja hjá honum löngun til að endurskoða líf sitt og háttu. Hið félagslega réttlæti, velferð og umhyggja var einmitt kjarninn í boðskap spámanna og þarna er gefið til kynna að fólk geti tekið við því erindi og breytt lífi sínu á róttækan hátt.
Spámaðurinn og skáldið
Allar götur síðan er þetta leiðarljós í þeirri menningu sem byggir á
Biblíunni. Einhverjar skorður þarf að setja valdinu, hvaða nafni sem það
nefnist og það kemur í hlut spámannsins að sinna því verkefni. Þess
vegna varð þetta ónæði að nóttu til svo áhugaverður rammi utan um köllun
Saumúels. Þetta átti að verða ævistarf hans: að vekja hin værðarlausu
upp af værum blundi. Þetta var verkefni spámannsins.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hver hafi gegnt slíku hlutverki hér á Íslandi. Hvaðan hefur hann komið þessi beitti ásakandi tónn sem beinist gegn þeim sem öllu ráða, hvort heldur það eru embættis- eða auðmenn? Jú, við eigum ýmsar stéttir og hópa sem sinna því verkefni en í sögulegu ljósi held ég að megi draga fram einn flokk fólks sem hefur sérstöðu í því sambandi.
Eru ekki skáldin? Rétt eins og hinir biblíulegu spámenn þá koma þau fram í einlægni, standa gjarnan á jaðrinum, láta til sín taka og boðskapur þeirra getur verið beittur. Halldór Laxness helgar skáldverkið Heimsljós þessari hugsun. Ólafur Ljósvíkingur var hið íslenska skáld, hinn íslenski spámaður sem leiddi ljós himins inn í rökkurhúmið í kotinu, í óblíðri náttúru og enn harðari heim manna. Hann sýndi á skrokki sínum hversu margt var brotið í því samfélagi sem hann bjói í. Að lokum hvarf hann úr þeim myrka heimi og gekk inn í birtu jökulsins.
Hefðin lifir í menningu okkar og nýverið haut ljóðskáldið Haukur Ingvarsson bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Vistarverur. Tónninn er í senn spámannlegur og hversdagslegur en yrkisefnið er meðal annars beygurinn við hlýnun jarðar, þessa hljóðlátu ógn sem sækir að okkur. Hún er uppi í háloftunum, í djúpum hafsins, í jökulmassanum sem hopar frá ári til árs. En hún birtist jafnvel enn skýrar í fasi og háttu okkar sem virðumst með öllu ófær um að breyta því sem þarf að breyta. Því fylgir nagandi ótti og samviskubit sem lætur okkur ekki í friði.
Við erum í raun Sakkeusar okkar daga. Við tökum alltof mikið, eigum alltof mikið og vitum upp á okkur sökina. En við tökum ekki þeim sinnaskiptum sem karlinn gerði í guðspjallinu. Nei, við virðumst vera kyrfilega föst í mynstri daga okkar, erum hluti af einhverju samhengi sem meinar okkur sem samfélagi að vinna þau verk sem nauðsynleg eru á þessu sviði. Haukur dregur þetta fram með hætti skáldsins þar sem hann situr með hendur í skauti í sófanum heima og fiskabúrið í huga hans er í senn gruggugt og brothætt, eins og lífríkið sjálft:
ég er alsjáandi
á sófanum
heimaniðursokkinn
í eigin hugsanirsem hnita hringi um óljósan kjarna
eins og gullfiskar í glerkúpliþarf að hreinsa búrið?
er í vatninu grugg?
óvelkomið líf?vaxandi áhyggjur
lamandi aðgerðarleysiætli fiskarnir séu svangir?
gætu þeir lifað af í náttúrunni?
ætti ég að sleppa þeim lausum?ég segi það engum
en inní mér sökk skipég horfði á slysið
og reyndi ekki að bjarga neinumhlustaði á öskrin
það voru voðaleg læti
á eftir fylgdi mikil þögnkæfandi þögn
Hann ætlar að kafa niður að flakinu og spyr hvort hægt sé að hugsa sér íburðarmeiri grafhvelfingu: „það eru öll þægindi um borð“. En skipið var ekki á leiðinni neitt, „nema niður“. Skáldið kemur víða við, ræðir uppistöðulón sem drekktu vistsvæðum hreindýra, spyr hverju hann muni bjarga eftir að flóðið hefur fyllt geymsluna í kjallaranum hjá honum sem verður mögulega fjársjóður fyrir börn framtíðar – þar á meðal kassettan Bad með Michael Jackson! Einmana nashyrningurinn í dýragarðinum í Berlín verður eins og prestur í lítilli kirkju sem söfnuðurinn hefur svikið.
Við fáum Hauk í heimsókn hingað í Neskirkju þann 7. febrúar næstkomandi á Skammdegisbirtu þar sem hann ræðir bók sína og les upp úr henni.
Samúel, Sakkeus og Haukur
Mögulega renna nýjar hugsanir og ævafornar saman í þessum textum sem hér hefur verið fjallað um. Svefnfriður hins gamla Elí var ítrekað rofinn þegar hinn ungi Samúel fékk köllun sína, um miðja nótt. Það var forsmekkurinn að komandi tímum þegar spámaðurinn átti eftir að vekja fólk, raska ró þess og ýta við því á margvíslegan hátt.
Og svo er það hin kæfandi þögn sem nútímaskáldið ræðir er það hugleiðir stöðu okkar í sokknum heimi. Nútíminn predikar ekki og það gerir Haukur ekki heldur, ekki í þeirri merkingu sem ég held að hann setji í hugtakið. Lýsing hans hrópar þó á breytingu, sinnaskipti sem grundvallast ekki aðeins á aukinni þekkingu heldur siðviti. Við stöndum mitt á milli gæfu og ógæfu, „Alsjáandi í sófanum heima“ en með „vaxandi áhyggjur, lamandi aðgerðarleysi.“
Við erum Sakkeusar okkar daga, höfum sankað að okkur alltof miklu og vitum það innst inni. Í þeirri sögu var það heldur hvorki fyrirlestur né predikun sem breyttu karlinum. Það var þegar Jesús boðaði komu sína inn á heimili hans, í líf hans. Og minnir okkur á að umskiptin verða aðeins þegar við tökum á móti hinu nýja af öllu hjarta og allri sálu. Það hlutskipti býður mín þar sem ég sit í sófanum, niðursokkinn í eigin hugsanir.