Ef einhver segir þér að elska óvini þína, en hefur ekki sjálfur átt óvini og verið hataður, þá er það einskis virði sem hann segir.
Ef einhver segir þér að biðja fyrir þeim sem ofsækja þig, en hefur ekki sjálfur verið ofsóttur, er það líka einskis virði.
Menn hafa gert sér í hugarlund margskonar guði sem sitja í hásætum á himnum, eða á fjallstindum, eða jafnvel sem guðdómlegir konugar, keisarar og flokksritarar – póæitískir guðir manna sumir - alvalda guði sem horfa á okkur mennina, setja okkur lög og reglur sem við eigum að hlýða, senda okkur heill sem við eigum að þakka eða harm sem við eigum að bera í hljóði.
Það er svo auðvelt fyrir hinn sterka að krefjast þess af öðrum að þeir eigi að bera þungar byrðar, hlýða og fórna sér fyrir heildina.
Það er svo auðvelt fyrir hinn ósæranlega að þola högg og árásir. Hvað veit hann um þjáningar okkar?
Ekkert!
Of margir guði hafa of mikil völd, of mikið vald spillir, bæði mönnum sem gerast guðir og konunglegum guðum heimsveldanna.
En svo hafa menn líka sagt frá guði einum sem gaf frá sér allt sitt vald, sem afkæddist konungstign og alheimsmætti, sem steig niður úr hásæti sínu og gerðist þjónn annarra.
Guði sem gerðist maður.
En ekki maður sem fæddist í ríkidæmi og með silfurskeið í munninum, í hringiðu valdsins og menningarinnar.
Heldur maður sem fæddist í fátækum, ómerkilegum afdal heimsveldis, afdal sem enginn hafði heyrt um, á horfinni öld sem öllum er sama um.
Menn sögðu að hann væri óskilgetinn, hann var hæddur í heimbæ sínum og flæmdur burt þaðan af þeim sem þekktu hann og ólust upp með honum.
Þegar hann gekk um á jörðu átti hann ekkert heimili og gat hvergi höfði sínu hallað.
Hann svalt með hinum hungruðu, grét með hinum sorgmæddu, þjáðist með hinum sjúku, borðaði með hinum útskúfuðu.
Menn kölluðu hann syndara, átvagl, drykkjumann, guðlastara.
Hann endaði líf sitt sem afbrotamaður á krossi.
Það tók hann nokkra klukkutíma að deyja á mjög kvalarfullan hátt. En fyrst var honum misþyrmt, hann var hýddur, afklæddur og hengdur nakinn upp á kross.
Engir englar björguðu honum.
Enginn himnar opnuðust.
Engar himnskar hersveitir börðust fyrir hann.
Enginn Guð greip inn í atburðarrásina.
Hann kenndi okkar að elska óvini okkar og hann átti sjálfur marga óvini.
Hann kenndi okkur að biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur – margir ofsóttu hann.
Hann kenndi okkur að fyrirgefa hvort öðru, og sjálfur fyrirgaf hann böðlum sínum, því þeir vissu ekki hvað þeir gerðu.
Þessi maður sem var tekinn af lífi í afdal Rómaveldis fyrir 2000 árum er sagður lifa hér og nú.
Hann er sagður hafa risið upp frá dauðum.
Auðvitað er það fullkomin heimska að halda slíku fram, brjálsemi!
En af því að hann sigraði dauðann og niðurlæginguna og þjáninguna og allt heila klabbið – þá er okkur borgið - ef við höldum í hönd hans!
Stríðið er ekki á enda í lífinu, systir, baráttan heldur áfram, bróðir, en þú ert ekki einn, ekki ein.
Hvað sem gerist, hvað sem við höfum gert, hvað sem við lendum í, hversu mikið sem við erum hrakin og ofsótt og smánuð og niðurlægð –
....þá er hann í okkur og við fáum að vera í honum.
Hann er Frelsari okkar. Við erum frelsuð fyrir hann.