Núvitundaríhugun, sjötti hluti: Að taka eftir án þess að dæma

Núvitundaríhugun, sjötti hluti: Að taka eftir án þess að dæma

Núvitundariðkun getur fært okkur nær stöðu náðarinnar, þar sem við sleppum tökunum á hvers kyns dómum, bæði yfir öðrum en ekki síður okkur sjálfum og aðstæðum okkar, og tökum á móti hverju andartaki sem gjöf lífsins, gjöf Guðs.
Mynd

Núvitundaríhugun, sjötti hluti: Að taka eftir án þess að dæma

Ég heilsa ykkur í Jesú nafni. Við erum hér til að æfa okkur í að iðka núvitund. Núvitund er ein leið til að þýða enska hugtakið mindfulness. Gjörhygli og árvekni eru orð sem líka hafa verið notuð. Orðasambandið vakandi vitund merkir líka um það bil það sama. Við beinum athyglinni að því sem er og því sem við skynjum einmitt núna, á þessu augnabliki, og lærum að vera meðvituð um líkama okkar, hugsanir og tilfinningar. Tilgangurinn er ekki að vera full af huga okkar eins og enska hugtakið gæti bent til, mind-ful-ness, heldur mind í merkingunni að taka eftir, veita fulla athygli.

Eitt af því fyrsta sem núvitundariðkun kennir okkur er að fella ekki dóma, vera ekki stöðugt að hafa skoðun á öllu, heldur leyfa hlutunum að vera eins og þeir eru, það sem þeir eru. Við munum eftir frásögunni af Adam og Evu í Paradís. Þau voru í sínum sæluheimi, í gleði augnabliksins eins og barnið sem ekki hefur lært að finnast þetta og finnast hitt um alla skapaða hluti heldur tekur á móti nýjum áskorunum sem gjöf og verkefni til að leysa í öruggum ramma traustsins.

Þá kom rofið, röddin sem sagði þeim að eta af skilningstré góðs og ills til að verða eins og Guð. Og þau tóku og átu, enda var tréð girnilegt til fróðleiks og fagurt á að líta. Eftir að hafa innbyrt ávöxtinn (það stendur hvergi að það hafi verið epli!) lukust upp augu þeirra og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þannig kom skömminn inn í heiminn, segir þessi djúpvitra saga okkur, skömmin og dómsýkin og sundrungin. Við köllum það synd.

Núvitundariðkun getur fært okkur nær stöðu náðarinnar, þar sem við sleppum tökunum á hvers kyns dómum, bæði yfir öðrum en ekki síður okkur sjálfum og aðstæðum okkar, og tökum á móti hverju andartaki sem gjöf lífsins, gjöf Guðs. Í þriðju Mósebók segir Guð nafn sitt vera: Ég er. Guð sem gefur okkur lífsandann er. Guð er – og því er ég hér.        

Við segjum saman:

Ég er – ég er hér

Ég er – ég er hér

Ég er – ég er hér

Við komum okkur fyrir í sætinu þannig að sem fæst hindri flæði lífsins um líkama okkar og veru, með iljar í gólfi og höfuð og háls í miðstöðu, hakan hvorki of langt niður né sveigð um of upp á við. Við lokum augunum, finnum fyrir stólnum sem við sitjum á og hvernig efnið í fötunum kemur við húðina. Gefum gaum að andardrættinum. Finnum hvernig loftið kemur inn um nasirnar, streymir niður í kviðinn og sömu leið til baka. Finnum áhrifin af andardrættinum án þess að breyta, bara finna. Getum við fundið súrefnið berast alveg niður í tær? Finnum við áhrifin fram í fingurgóma? En upp í höfuð?

Næst beinum við vitund okkar að innri reynslu, hugsunum, tilfinningum og líkamsskynjunum. Við munum frá því síðast að við getum skoðað hugsanir okkar á sama hátt og hljóðin sem berast úr umhverfinu. Þau og þær bara eru þarna og við veitum þeim eftirtekt, viðurkennum tilvist þeirra án þess að velta þeim frekar fyrir okkur, án þess að dæma. Við fylgjum þeim ekki eftir en leyfum þeim að vera.  

Skynjanir líkamans eru líka bara þarna. Við finnum smá seyðing hér og hita þar. Spennan sem sest oft að í kviði, brjóstholi og hálsi er þarna ef til vill. Við leggjum engan dóm á hana. Hún bara er. Við getum valið hvort við dveljum við líkamleg óþægindi eða ekki. Þau bara eru þarna og stundum gefa þau eftir þegar við tökum eftir þeim, án þess að beita kröftum eða reyna að breyta þeim.

Sama á við um tilfinningarnar. Þær eru oft afleiðing hugsana okkar. Það sem var, fortíðin, til dæmis í formi minninga sem við rifjum upp, kallar gjarna fram tilfinningar af ýmsum toga sem aftur leiða til mismunandi viðbragða og skynjunar í líkamanum. Það óorðna, framtíðin og dómur hugans um það sem gæti ef til vill orðið - eða ekki - getur sömuleiðis búið til tilfinningar sem hafa áhrif á líkamlega líðan okkar. Dæmi um þetta samspil hugsana, tilfinninga og líkamlegrar líðunar má finna í Davíðssálmum 31 og 16:

Miskunna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum stödd, döpruð af harmi eru augu mín, sál og líkami. En ég treysti þér, Drottinn, og segi: „Þú ert Guð minn.“

Ég hef Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar hnýt ég ekki. Fyrir því fagnar hjarta mitt, hugur minn gleðst og líkami minn hvílist í friði.

Aðstæður okkar, eða öllu heldur dómur, túlkun okkar á aðstæðunum, kalla fram hugsanir og líðan sem getur verið margvísleg. Við finnum til, í anda, sál og líkama, eða fögnum með tilvist okkar allri. Traustið til Guðs er Paradísarástandið, náðarstaðan. Eins og ungbarnið sem nýtur þeirrar náðar að treysta foreldrum sínum að fullu og öllu og þiggur þar með öryggistilfinninguna sem er handan góðs og ills, getum við hvílt örugg og fagnandi í æðrulausu trausti til Guðs sem gefur okkur lífsandann hvert andartak, já þetta andartak.

Við getum treyst, án þess að dæma okkur sjálfum eða öðrum í hag eða óhag, án þess að breyta því sem er einmitt núna heldur taka á móti því í þakklæti og þannig fengið kjarkinn til að breyta því sem er á okkar sviði að breyta. Kannski það eina sem við getum breytt sé okkar eigin afstaða til hlutanna sem eru bara það sem þeir eru. Þegar losnar um krampakennt tak dóma okkar yfir eigin tilveru og annarra, þegar ofurvald dæmandi hugans slaknar, koma næstu skref til okkar eins og af sjálfu sér. Þegar við viðurkennum það sem er, fáum við að vera það sem við erum.

Ljúkum stundinni með því að játast lífinu núna:

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér                                                                                                                          

Þríeinn Guð gefi þér æðruleysi, kjark og vit, að hjarta þitt fagni, hugur þinn gleðjist og líkami þinn hvíli í friði. Góðar stundir.