Horfðu þá inn í frumuna

Horfðu þá inn í frumuna

Ef þú hefur einhvern áhuga á að trúa á Guð – horfðu þá inn í frumuna.

Sú staðreynd að við erum með þessa öflugu tölvu inni í hverri einustu frumu sem er í stöðugu samtali við umhverfi sitt er í raun undur og furða. Og í hjarta hennar eru DNA kjarnsýrurnar sem eru sjálfar öflug vél – kraftmikið tölvuferli. Fólk hugsar um DNA sem línulegan kóða en það er með kóða í kóðanum og þannig koll af kolli. Ef þú hefur einhvern áhuga á að trúa á Guð – horfðu þá inn í frumuna.

 

Ég þreytist ekki á að fylgjast með alþýðufræðurum úr heimi raunvísinda. Við lifum á tímum þar sem þekkingin vex og dafnar með slíkum hraða að engin dæmi eru um slíkt í sögunni. Þökk sé netinu getum við lesið og hlýtt á speki úr öllum áttum.


Undur og furða

 

Upphafsorðin hér á undan eru höfð eftir Garry Nolan sem er prófessor við læknadeild Stanford háskóla og fæst einkum við það sem á erlendum tungum kallast micro-biology eða öreinda líffræði. Ég hlýddi á viðtal við hann sem hægt er að nálgast á streymisveitum og þegar hann lét þessi orð frá sér fara tók taugakerfið mitt við sér og örugglega eitthvað af erfðaefninu líka.

 

Staðreyndin er nefnilega sú að á tímum mikillar þekkingar og fordæmalauss aðgengis að henni – streyma yfir okkur alls kyns hugmyndir, straumar og stefnur og þá er nú ekki verra ef höfundar og hugsuðir geta státað af prófessorsstöðu við virtan erlendan háskóla eins og raunin er með téðan Garry Nolan.

 

Á tímum slíkrar ofgnóttar getur mögulega farið svo að við hættum að undrast – ekkert kemur okkur lengur á óvart. Við verðum tortryggin og kaldhæðin, á hugann myndast eins konar sigg eins og kemur í lófana á fólki sem sinnir erfiðum störfum. Við getum jú alltaf fengið fréttir úr öðrum áttum og svo er einhver ósammála síðasta ræðumanni.


Vaninn lamar

 

Hér hlýddum við einmitt á boðskapinn úr guðspjalli dagsins sem talar á sinn hátt inn í þær aðstæður. Þar er fjallað um það hvernig Kristur flytur boðskap sinn. Hann lýsir viðtökunum sem orð hans fá og bendir á að því fari fjarri að erindi hans, sem kristnir menn kalla fagnaðarerindi, falli í frjóa jörð. Óhætt er að segja að hér hafi orð Jesú spádómsgildi bæði fyrir þá tíma þegar hann og lærisveinar hans unnu störf sín og svo allar götur allt fram til okkar daga.

 

En hvers eðlis er þetta orð sem Jesús líkir við sáðkorn? Hvað getum við sagt um þá trú sem hann boðaði og hefur verið flutt af vörum ótal predikara í gegnum kynslóðirnar.

 

Í samhengi upphafsorðanna getum við sagt að trúin sé ákveðið form af undrun – sem fléttast saman við auðmýkt og þakklæti yfir þeim gjöfum sem skaparinn færir okkur. Þar held ég að hún mæti vísindunum – í lotningunni fyrir töfrum heimsins og viljanum til að líta öðrum augum það sem fyrir ber. Sköpunarverkið, alheiminn, náunga okkar og okkur sjálf.

 

Andstæður trúarinnar og andstæðingar eru margvíslegar eins og Jesús sýnir fram á í textanum.

 

Fætur vegfarenda kremja hluta þess og þarna kemur hópur af fuglum sem gæða sér á sáðkorninu. Það sem ekki kemst í tæri við gróðurmoldina þornar upp og skrælnar í sólinni og verður lífvana eins og sandkorn. Þyrnar kæfa sumt af því sem fellur þótt það nái tímabundnum vexti.

 

Hvað á hann við með þessu? Jú er það ekki skeytingarleysi vanans sem varnar því að orðið fái rótfestu og næringu? Stundum erum við svo djúpt sokkin í amstur hversdags og hvunndagsþanka okkar að við missum sjónar á hinum æðri gildum og verðmætum. Fæturnir, fuglarnir og þyrnarnir eru allt það sem draga okkur frá þeim háleitu markmiðum sem trúin vill að við stefnum að.


Sjálfs-elska

 

Við ræddum þessi markmið okkar í fermingartíma í gærmorgun. Við töluðum um það hvað það væri sem Guð vildi að kapp okkar beindist að. Svarið kom úr orðum Jesú sjálfs sem hafði einmitt verið inntur eftir því hvert af boðorðunum tíu væru mikilvægast. Hann svaraði með því að benda á kærleikann: Það væri hlutverk okkar í þessu lífi að elska – að elska Guð sem gefur okkur lífið, náttúruna og tækifærin, og að elska náunga okkar.

 

Þetta köllum við tvöfalda kærleiksboðorðið og en ég benti fermingarbörnunum á að boðorðið væri eiginlega þrefalt. Því mælikvarðinn á umhyggju okkar til náungans er kærleikurinn sem við berum til okkar sjálfra.

 

Já, einn mikilvægasti þáttur trúarinnar birtist í því hvernig við horfum á okkur sjálf. Stærsta áskorunin er, held ég, sjálfs-elskan. Og þá meina ég ekki eigingirni eða hrokafulla sjálfsmynd. Nei, sjálfs-elskan birtist í gerólíkum þáttum. Þau sem bera ást í eigin garð gera einmitt kröfur til sín sjálfra og vanda sig áður en þau bregðast við áreiti heimsins.

 

Trúuð manneskja lítur í spegil og sér þar mynd af einstasklingi sem hefur ríkulegt hlutverk í þessu lífi og er umlukin kærleika Guðs. Sú sjálfs-elska er ein dýrmætasta afurð trúarinnar.


Hugbúnaður frumunnnar

 

En sagan heldur áfram og við drögum myndina nær. Þá sjáum við einmitt vöxtinn og gróskuna sem af trúnni leiðir. Við greinum hvernig svolítil breyting verður á því sem lenti á mjúkri moldinni. Eftir að vætan hefur náð að vekja það af blundi og sólin skinið á það þá verður þessi atburðarrás sem vekur gleði hjá þeim sem fást við gróður jarðar – já þetta sem gerir lífið mögulegt hér á jörðinni.

 

Það er kraftaverkið stóra þar sem erfðaefnið tekur við sér, eins og flókinn tölvubúnaður sé ræstur. Frumurnar skipta sér og hver þeirra geymir í kjarna sínum upplýsingar sem láta þær starfa eins og eftir úthugsuðum skipunum. Sáðkornið þrútnar út af vökvanum og spírur koma úr endum þess. Þetta er sannkallað kraftaverk sem við leiðum hugann sjaldan að: Þessi örsmáu sáðkorn hafa að geyma flókinn hugbúnað, kerfi upplýsinga sem taka við sér þegar aðstæður eru réttar.

 

Sumar frumurnar eru umluktar lofti og sól og þær mynda stöngul en aðrar teygja sig í hina áttina, niður í frjósama jörðina þar sem þær verða að rótum og í sameiningu stuðla þær að vexti og viðgangi.

 

Komist þær í tæri við aðra lífveru sömu gerðar leiðir það af sér enn eitt undrið. Búnaðurinn er svo flókinn og nákvæmur að líffræðingurinn sagði hann geta fengið fólk til að trúa á Guð.

 

Útkoman verður slík að reglur samlagningarinnar fara lönd og leið. Einn og einn verður ekki tveir, ekki þrír eða fjórir. Nei tvær lífverur geta af sér gríðarlegt magn afkvæma og þegar horft er til næstu kynslóða verður fjöldinn slíkur að tölu verður ekki á hann komið.

 

Það er líka svo magnað að sjá Jesú í hlutverki sáðmanns – eða eigum við að segja garðyrkjumanns. Í því felst umhyggja og alúð en um leið er enginn þvingaður til trúar. Sagan á að lýsa starfi Krists og þeirra sem flytja erindi hans. Orðið er eins og sáðkorn og Biblían er það rit sem hefur að öðrum ólöstuðum mótað menningu og hugsun meira en nokkur önnur hafa gert.


Hvers eðlis er sú trú?

 

Já, þessi trú sem allt snýst um hér í þessum húsakynnum og víðar er ekki hugsunarlaus játning við gamla texta. Hún felur ekki í sér skilyrðislausa hlýðni við dauð siðaboðum og reglur. Hún felur ekki í sér fordæmingu á þeim sem hafa aðra sýn, aðra skoðun, annan uppruna.

 

Við þurfum ekki lesa lengi í guðspjöllunum – sögunum af starfi Jesú – til að sjá að trúin er ekkert af þessu. Jesús er spurður um boðorðin tíu og hann svarar með því að benda á kærleikann. Jesús hittir fyrir fólk sem var utangarðs og jafnvel útskúfað og hann býður því til samfélags. Hann mætir hverri manneskju með þeim hætti að hún finnur fyrir verðmæti sínu og tign.

 

Hún skynjar mögulega þá sjálfs-elsku sem kann að vera forsendan og upphafið að því að geta elskað aðra.

 

„Ef þú hefur einhvern áhuga á að trúa á Guð – horfðu þá inn í frumuna.“ Þar birtist þér heill heimur skipulags og flókinnar tækni sem á í stöðugu samtali við umhverfi sitt og aðstæður. Prófessor Nolan kemst svona að orði og þar fangar hann einmitt einn kjarnann í trúnni – það er undrunin, furðan hæfileikinn til að hefja sig upp yfir grámann og vanann og fyllast lotningu yfir sköpun heimsins. Hvort heldur það eru hin stærstu himintungl, smæstu eindir efnisheimsins nú eða og það sem líklega skiptir mestu máli – við sjálf.