Kristsdagur – hvað og hvernig?

Kristsdagur – hvað og hvernig?

Kristsdagur er bænaviðburður þar sem vonast er til að kristið fólk úr sem flestum kirkjudeildum og helst sem víðast af landinu sameinast í bæn fyrir landi og þjóð. Fyrirmyndin er sótt til Sviss en framkvæmdin er alfarið í höndum Íslendinga.
fullname - andlitsmynd Ragnar Gunnarsson
23. júlí 2014

Laugardaginn 27. september verður haldinn Kristsdagur í Hörpu. Ýmsir velta fyrir sér hvað Kristsdagur er og hvers vegna verið er að halda hann.

Hvað er Kristsdagur?

Kristsdagur er bænaviðburður þar sem vonast er til að kristið fólk úr sem flestum kirkjudeildum og helst sem víðast af landinu sameinast í bæn fyrir landi og þjóð. Fyrirmyndin er sótt til Sviss en framkvæmdin er alfarið í höndum Íslendinga.

Kristsdagur er meira en viðburður. Markmiðið er að ná til bænahópa eða hvetja til myndun þeirra í sérhverri sýslu og bæjarfélagi. Best er ef bænahópar og biðjandi fólk láta vita af sér því að á Kristsdegi er ætlunin að fulltrúar bænahópa frá hverjum stað gangi inn á svið með fána sína og verði þannig sýnilegur vitnisburður um mátt Guðs og kærleika. Við munum fagna og lofa Guð í söng og bæn og þannig hvetja hvert annað til að halda áfram sem biðjandi þjóð. Kristsdagur er einstakt tækifæri til að sameinast í krafti fyrirheita um að Drottinn heyrir bænir sem beðnar eru í einingu og kærleika.

Dagskrá, kostnaður og básar

Dagskráin, sem verður auglýst nánar er nær dregur, verður í Eldborg kl. 10-12 og 14-16 þar sem lofsöngur, bænir, tilbeiðsla og ávörp skiptast á. Barnadagskrá verður í boði í öðrum sal Hörpu á sama tíma. Tónlistin verður fjölbreytt og vonandi vitnisburður um það fjölbreytileika sem ríkir á sviði söngs og tónlistar í kirkjum landsins. Kl. 18-20 verða fagnaðar- og lofgjörðartónleikar í Eldborg.

Fyrir utan fjármuni í sjóði verður leitað eftir styrkjum fyrirtækja og einstaklinga. Þátttaka er öllum að kostnaðarlausu en samskot verða tekin á Kristsdegi. Á svæðinu verða kynningar- og söluborð verða leigð fyrir kristilega starfsemi. Skráning og fyrirspurnir má senda með pósti á kristsdagur2014@gmail.com.

Kristsdagur er undirbúinn af Friðrikskapelluhópnum sem er hópur fólks úr ýmsum kirkjudeildum og hefur komið saman vikulega í Friðrikskapellu í sex ár til að biðja fyrir landi og þjóð. Allir eru velkomnir á opnar bænastundir þar kl. 12:00-12:45 á miðvikudögum.

Nánari upplýsingar eru á kristsdagur.is og facebook.com/Kristsdagur