Eplatré í dag, heimsendir á morgun.

Eplatré í dag, heimsendir á morgun.

Nýtt kirkjuár heilsar með aðventunni. Það byrjar með þessu sterka guðspjalli um innreið Jesú í Jerúsalem. Sjá konungur þinn kemur til þín, er yfirskrift aðventunnar.

Mt 21. Innreiðin í Jerúsalem. 

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn[ þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“
Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um:


Segið dótturinni Síon:
Konungur þinn kemur til þín,
hógvær er hann og ríður asna,
fola undan áburðargrip.


Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“
Þegar Jesús kom inn í Jerúsalem varð öll borgin í uppnámi og menn spurðu: „Hver er hann?“
Fólkið svaraði: „Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.“

Nýtt kirkjuár heilsar með aðventunni. Það byrjar með þessu sterka guðspjalli um innreið Jesú í Jerúsalem. Sjá konungur þinn kemur til þín, er yfirskrift aðventunnar.  
Hann kemur, knýr á dyr og hjörtu, heilsar, býður hjálp sína og vernd. 
Og margar eru bænirnar sem stigið hafa til himins síðustu misseri. Þetta hafa verið undarlegir tímar, eru enn og verða eitthvað áfram. 
Við hefðum aldrei trúað því fyrir ári síðan að yfir alla heimsbyggðina myndi falla þessi farsótt, covid19. 
Allt hefur hlaupið úr skorðum

Og alltaf erum við að læra. Svo lærir lengi sem lifir.  Nýliðnir mánuðir hafa verið skrýtnir, vægast sagt. 
Samfélagið allt hefur viðsnúist. Lífsmunstrið heklað upp á nýtt. 
Áætlanir breyst fyrirvaralaust; engar fermingar í Borgarneskirkju um bænadagana – hver hefði trúað því í byrjun mars ?
Endalaus handþvottur, grímur og hanskar staðalbúnaður þegar við förum úr húsi. 

Faraldurinn hefur kennt hversu vanmegna við í raun erum, þrátt fyrir hugvit, tól og tæki sem hafa gefið velmegun og látið okkur halda að allt væri okkur fært;  misstum við kannski sálartól og tæki til að taka mótlæti?
Svo vön erum því að lenda aldrei á vegg, að við þurfum virkilega að láta segja okkur tvisvar eða þrisvar að það er engin skyndilausn, ekkert kvikkfix sem lætur pestina hverfa. 
Hún mun anda ofan í hálsmálið á okkur í einhvern tíma og eins gott að við gætum að okkur og öðrum. Í auðmýkt, í þakklæti og í bæn. Það er okkar nesti í gegnum torleiði.  
Við erum agnarsmá.  Það vitum við nú. Og við vitum líka að samstaða, yfirvegun, rósemd er gott eldsneyti í þessari torfæru. 
Og ekki vitum við um efnahagslegar afleiðingar faraldursins. Margir horfa fram á erfiða tíma.  Áhyggjur af tekjumissi og mikilli óvissu um fjárhag og framtíð.   
Enn erum við í móðu og margt óljóst.  Hver verða lífskjör á Íslandi eftir þrjú ár?  Hver getur svarað því. 


Og hvað varðar daglegt líf okkar nú, þá er pottlokið á þolinmæðipottinum okkar farið að rugga.  Lækkum hitann undir og sættum okkur við að varlega þarf að fara næstu vikur og misseri.
Og við erum ekki ein í heiminum. 
Þjóð sem hefur þrátt fyrir allt svo mikið af veraldargæðum, og  ríka burði til að vera sæl og sátt,  hlýtur  að minnast þeirra sem geta ekki glatt sig við fagra tóna og glaðan söng á aðventu 
– heldur hafa  skrölt vígvéla, sprengjugný og sultarvein hinna saklausu í eyrum sínum.  Minnumst hinna minnstu bræðra og gerum þeim gott. 

Hvað höfum við lært af farsóttarástandinu?  Það vitum við ekki nú.  En líklega munum við þakka margt sem okkur hefur þótt sjálfsagt.  
Fagna því sem sköpunarkraftur og gleði yfir hinu einfalda og fábrotna getur gefið. 
Átta okkur á því að við höfum stundum teygt okkur of langt í leit að hamingjunni. Hún er nær en við höldum.  
Og þá vitum við að augnablikið kemur og fer, það er aðeins einu sinni. Grípum það og gerum gott. 

Þetta rímar við að aðventan er tími umhugsunar, líkt og hver föstutími kirkjuársins, jólafasta heita þessir dagar líka. Þeir eru  tími íhugunar. Að hver horfi á sjálfan sig, spegli sál sína  - og spyrji:  
Hver er ég – hvar eru verk handa minna og hugar – hefi ég lagt birtu yfir líf mitt og annarra eða hef ég  meitt og myrkvað.  
Hef ég fundið einhverjum skjól í hrakviðrum heimsins? Lítin skjólskúta sem hægt er að skríða inní uns óveðrið er hjá. 

Jesús talar  um hina minnstu bræður.  „...hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta,  þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig,  sjúkur  og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín....  Það sem þér gjörðuð einum þessara minna minnstu bræðra það gjörðuð þér mér.“  
Þessi orð Drottins Jesú eru áleitin predikun. Áminning um miskunnsemi og réttlæti.  Hvar stöndum við andspænis þeim?   Hugsi nú hver sitt.   
Það sem þér gjörðuð einum þessara minna minnstu bræðra það gjörðuð þér mér.“  

Einkennismerki frumkristninnar var samúðin og samstaðan, að hlú að hinum fátæku og hinum minnstu bræðrum og þeir sem áttu ekkert gáfu öðrum allt.  
Margir leggja leið sína í kirkjugarða á aðventunni.  Vitja leiða ástvina.  Prýða, fegra, kveikja á kertum, láta ljósakrossa loga. 
Það er fagur siður og góður.  Að styrkja sig við minningar um þá sem við elskum, þá sem gáfu okkur fóstur og fæðu; voru fyrirmyndir. Í kirkjugörðunum má líka staldra við og hugsa.
Það sem þér gjörðuð einum þessara minna minnstu bræðra það gjörðuð þér mér.“  

Þema eða stef aðventunnar er ljós í myrkrum.  Ljósið kviknar og kemur, ljós úr engu sem  lífgar og gleður. 
Ljós heimsins Jesús.  Um þetta ljós hugsum við á aðventu, við syngjum um ljósið og biðjum þess að við eignumst þetta ljós í lífi okkar.  

Svo vítt um heim sem sólin fer, sinn ljóma yst um álfur ber. 
Jesúm einn herra  játum vér sem jómfrú María fæddi hér.  
Þannig hljómar helgikvæði frá miðöldum. Orð sem hafa verið hugsuð, sögð og sungin kynslóð fram af kynslóð.  
Orð sem hvíla í óbifanlegri trú um að allt okkar ráð er í hendi Guðs.  Hvað sem á dynur. 

Þessi fullkomna, óskynsamlega, sannfæring um handleiðslu orðast vel hjá Marteini Lúter sem segir.  
„ Þótt ég vissi að heimsendir yrði á morgun, myndi ég samt planta eplatré í dag“

Heimsendir á morgun, eplatré i dag. Örugg erum við líka í heimsendinum.
Grípum daginn.  Notum hann vel. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur og mæðu.
Konungur þinn kemur til þín , hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip
Jesús er drottinn. Réttlætisins sól, konungurinn sem kemur til þín

Guð gefi okkur góða og áfallalausa aðventu og gleðilega jólahátíð. 
„Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.“
Í Jesú nafni.  Amen.